Hann fer með þessar vísur við ýmis tækifæri sem gefast, t.d. þegar hann hefur fengið mig til að segja að ég hafi enga samvisku af því þegar hysknir nemendur falla á prófum, þá kemur jafnan þessi fyrripartur:
Samviskuna get ég grætt
og gefið henni sitthvað inn
- botninn er svona:
en aldrei getur ástin hætt
og af henni stafar kvensemin.
Páll Ólafsson
Oftar en ekki þá verður stutt hlé á samræðum og þá skellir hann þessu oftar en ekki fram:
Svona' er það við sjóinn víða
sama gerist upp til hlíða
- svona er framhaldið:
sveinn og meyja saman skríða
segjast elskast jafnt og þétt
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi' að lifa´og líða
uns lausakaupamet er sett.
- ég hef ekki komist að því eftir hvern þetta er, né heldur hvað 'lausakaupamet' er.
Þessi vísa Bólu-Hjálmars heyrist alloft:
Oft hefur heimsins gálaust glys
gert mér ama úr kæti.
Hæg er leið til helvítis,
hallar undan fæti.
Sagt er að Bjarni amtmaður hafi upphaflega ort fyrri hluta vísunnar en þá var hann svona:
Margur heimsins girnist glys
og gálaust eftirlæti
...en Hjálmar botnað. Sagt er að Hjálmar hafi síðan ort þennan þegar hann datt á leið úr búð í Grafarósi. Sbr. uppl. úr Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.
Þessa fer sá gamli stundum með:
Latur maður lá í skut,
latur var 'ann þegar hann sat.
Latur oft fær lítinn hlut.
Latur þetta kveðið gat.
Ekki hef ég fundið þessa vísu svona, heldur:
Latur maður lá í skut.
Latur var hann þegar hann sat.
Latur fékk oft lítinn hlut.
En latur gat þó étið mat.
Þessa segir hann vera eftir Guðjón snikkara (Guðjón Jónsson frá Freyshólum, bróðir Magnúsar Jónssonar, afa míns, föður gamla unglingsins), sem skellti henni fram þegar hann var búinn að ljúka skipalæginu á Reyðarfirði:
Loks er bryggjan búin,
bæði skökk og snúin,
dvergasmíði dánumanns.
Þar voru stólpar steyptir
og stöplar niður greyptir,
alla leið til andskotans.
Þessi mun vera eftir Káinn:
Lesið hef ég þitt lærdómsstef þótt ljót sé skriftin
og síst ég efa sannkleikskraftinn
að sælla er að gefa en þiggja - á kjaftinn
Ekki fann ég neitt um þessa, sem oft er farið með, en hlýtur að hafa orðið til á bannárunum:
Andinn er oft í vanda,
yndis er stopull vindur.
Brandur, hvað ertu að blanda?
bindindis jarma kindur.
Ekkert veit ég heldur um þessa:
Það endar verst sem byrjar best
og byggt á mestum vonum.
Svo er með prest og svikinn hest
og sannast á flestum konum.
Fljótsdalurinn fær heldur á baukinn í þessari, sem ég veit heldur ekki hver orti:
Í Fljótsdalnum er fegurst byggð
á foldar engi,
en enginn maður iðkar dyggð
sem er þar lengi.
Þessar heyrast oft við borðstofuborðið, en upplýsingar um þær fann ég hér:
Einu sinni var bóndi austur á Héraði og var honum illa við prestinn. Hann orti um klerk þessa vísu:
Mikið er hvað margir lof´ann
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.
Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims. En nú er frá því að segja að í sveitinni var annar bóndi og líkaði illa við prestinn. Hann heyrði þessa vísu og var tæp þrjú ár að læra hana og fór með hana svona:
að ofan
menn sem aldrei hafa séð´ann
að neðan.
Læt ég þessu kveðskaparbloggi lokið, en lesendur mega gjarnan leggja til sögur bakvið vísurnar, þekki þeir þær, svo og, auðvitað höfunda.
Góðar stundir.
Gaman og hjartnæmt að sjá það sem þú keppist við að skrá niður eftir afa gamla.
SvaraEyðaÞetta er hlið á honum sem hann sýnir ekki öllum og er kannski til marks um samband ykkar feðganna, sem er þá af hinu góða.
Frábær alveg faðir minn
SvaraEyðafinnst mér vísnabankinn þinn
skrái ég sem skrá ég má
skondnar vísur nú þér frá.
Hirðkveðill yrkir í orðastað Kvistholtsbónda sem fundið hefur gullnámu vísna í föðurranni - Dásamlegt;-)