10 júní, 2010

Nauðsynlegar forvarnir eða firring nútímamannsins


Á hverju ári eiga sér stað hörmuleg slys hér á landi og annars staðar í veröldinni. Það er ekki síst náttúran  sem reynist okkur skeinuhætt. Með því að mennirnir fjarlægjast náttúruna læra þeir síður að umgangast hana með þeirri virðingu sem hæfir, telja sig jafnvel ósigrandi í umgengni við hana og virðast alltaf verða jafn undrandi þegar þeir átta sig ekki á að hún felur ekki í sér fullnægjandi viðvaranir, áminningar eða andmælarétt. Hún er er jafn miskunnarlaus og hún er fögur.
Hættur felast auðvitað ekki bara úti í náttúrunni, heldur einnig og ekki síður í ýmsu því sem við höfum komið okkur upp sem hin mest viti borna skepna jarðar. Verk okkar eru auðvitað aldrei fullkomin og kalla því að ákveðnar varúðarráðstafanir ef ekki á illa að fara.

Þessi skrif eru auðvitað til komin vegna hörmulegs slyss nýlega, þar sem erlendur ferðamaður lést. Það er fjarri því að það sem ég skrifa hér sé hugsað til að lítilsvirða hann á neinn hátt, né heldur aðra sem hafa beðið bana, eða slasast alvarlega. Slys munu alltaf eiga sér stað, sama hvað við gerum til að koma í veg fyrir þau.

Tilgangur minn er, að velta fyrir mér hvort við erum í raun komin svo langt frá uppruna okkar að það sé orðin þörf á að vara okkur við öllum hugsanlegum hættum sem geta steðjað að okkur. Ég viðurkenni, að það getur verið nauðsynlegt að vara okkur við þar sem ekki er augljós hætta fyrir hendi. Ég spyr hinsvegar hvar menn telja rétt að setja mörkin.

Ég bý í Laugarási, eins og margir vita. Þar rennur um stórfljótið Hvítá. Ég ólst upp í nágrenni við þetta stórfljót, en umgekkst það frá upphafi með nægilegri virðingu til að fara ekki að storka því. Ég veit að áin er köld og straumhörð og að ég á ekki roð í hana. Verður sett skilti upp við hana á næstunni, sem felur í sér þessa viðvörun?

Það er mikið hverasvæði í Laugarási. Vatnið milli 95 og 100°heitt. Gufubólstrar stíga upp af þessum hverum.  Er þetta framtíðin í merkingum á hverasvæðinu?


Þegar ég stend á þverhníptu bjargi hvarflar ekki annað að mér, en að það geti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér ef ég stíg fram af. Það myndi ég aldrei gera og held að það geri enginn vísvitandi. Verða  öll þverhnípi landsins merkt með þessum hætti í framtíðinni?


Það er hægt að rökstyðja merkingar eins og þær sem eru hér fyrir ofan, þó ég geti það ekki. Mér er hinsvegar spurn hvar á að draga mörkin. Má kannski búast við því, að það teljist nauðsynlegt að setja svona viðvaranir upp við alla vegi landsins?


Mun allt grjót þurfa svona merkingu?:

Mun það teljast nauðsynlegt að setja svona varúðarmiða á bjórdósirnar?:


Ég þykist vita að umræða um varúðarmerkingar í náttúrunni sé að hluta til, í það minnsta til komin vegna ótta við málshöfðanir. "Það var ekkert varað við þessu, og því berið þið ábyrgðina". Við erum smám saman að læra af 'vinum okkar' í vestrinu, að það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum.

Það verða áfram slys af ótrúlegustu orsökum. Þau kallast slys vegna þess að þau eru slys, en ekki gildrur sem eru settar upp til að skaða fólk.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...