24 desember, 2011

Jólakveðja úr skugga skötupotts.


Nú á aðfangadagsmorgni er lokasprettur, en þó enginn lokasprettur þar sem ég, í það minnsta, tek aðdragandann að jólum með mínum hætti að mestu. Hendi í Sörur, jú, og dreifi gleði til þeirra sem tekst að píra í gegnum skóginn á dýrðina sem stafar frá ljósakeðjunum gömlu og nýju.  Hefði sjálfsagt getað verið kappsamari við ýmislegt annað, en það er eins og það er, ennþá.
Þá er lokið Þorláksmessu
það eru að koma jól.
Siggi' er ekki' að sinna þessu
Solla á bláum kjól. 
Í gær var Þorláksmessa, eins og flestum ætti að vera kunnugt og þá er tekist á við margrædda Þorláksmessuhefð, en ég er, eins og einhverjum er kunnugt, ekki skötufíkill og hef lönngum haldið því fram að hér væri á ferð skemmd fæðutegund og að át á henni gæfi til kynna einhverja misskilda karlmennskustæla. Ég fékk talsvert góða staðfestingu á þessari skoðun minni, með því að í einum margra útvarpsþátta um skötu greindi viðælandi frá tilurð þessa siðar. Það var beinlínis markmimð fólks að leggja sér til munns skemmdan mat af einhverju tagi daginn fyrir veisluhöld jólanna, til að finna betur muninn á því sem ætt er og óætt. Vestfirðíngar höfðu skötuna, og Austfirðingar einhvern skemmdan fisk eða hákarlsúrgang, sem ekki hefur festst (jú það er hægt að skrifa þetta svona) jafn rækilega í þjóðarsálinni. Það góða við skötuna er, að það er auðvelt að tjá sig um hana.
Á Þorláksmessu þykist ég
þekkjast við barbarana
Skatan hún er skelfileg
skömm er að éta hana
 Nei, ekki vil ég berjast gegn hefðum þjóðarinnar, þessi hefðarmaður sem ég er.  Ég styð fD í því að fá sér skötubarð fyrir/á Þoddlák. Skatan var meira að segja lengi vel tilreidd hér innanhúss, með afleiðingum sem allir geta ímyndað sér. Nú síðustu allmörg ár hefur gamli unglingurinn tekið þátt í skötudýrðinni og jafnframt hefur suðan færst út fyrir hús, öllum hlutaðeigandi til gleði, þó misjafnlega hátt sé haft um það.
Á Þorláksmessu  þrái ég
að þefa af skötupotti.
"Skatan hún er skemmtileg,
skal ei höfð að spotti."
segi ég og glotti.
-----

Nú, meðan vindstyrkur eykst víða um land og fréttir berast að óendanlega forsjálum ökumönnum, sem sitja í bílum sínum á heiðum landsins, nálgast jólahátið.  Hana vér allir prýðum. Ljósin eru komin upp, búið að græja jólatréð: "Fella gervijólatré líka barrið?" var spurt þegar hafist var handa á þessum bæ í gærkvöld.

Allt að verða klárt. 

Ykkur, óþekktu einstaklingar, sem lesið skrif mín hér að jafnaði, og fjölskyldum ykkar, flyt ég hér með von mína um að við öll fáum að njóta gleði, góðs matar, friðar og kannski messu, einhverjir, næstu daga.

Talsverður hluti Kvisthyltinga dvelur erlendis um þessi jól. Til þessa hóps við ég telja 7 fullburða einstaklinga. Sannarlega söknum við fjögur, sem hér dveljum, samvistanna við þau, en með samskiptatækni nútimans verður þetta talsvert auðveldara en það hefði verið fyrir einhverjum áratugum.

Hjónunum í Görlitz og dætrum þeirra tveim og nýju hjónunum í Álaborg og syni þeirra flytur þessi síða bestu kveðjur úr þorpinu í skóginum.

(ef höfundar er ekki getið að meintum kveðskap, þá er hann frumortur og því við mig að sakast að því er varðar bragfeila og mér að hrósa ef tær snilldin lætur á sér kræla)

1 ummæli:

  1. Gleðileg jól PMS og fD.... megir þú blogga áfram eins og vindurinn á nýju ári :)

    Kveðja
    BKBen og co.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...