Og að morgni skuluð þér sjá dýrðina Drottins, segir í einum þeirra texta sem farið er með í messum á þessum tíma. Nú er þessi morgunn runninn upp. Reyndar er ekki farið að birta að einhverju ráði, en ljóst að enn gerist Laugarás indælli staður með því að bætt hefur aðeins á hvíta kápuna sem magnar jólastemninguna.
Sem sagt allt gott.
Í gærkvöld gerðist það fyrsta sinni í Kvistholti, að það var slökkt á aftansöng jóla. Ef einhverjum dettur í í hug að þar hafi verið um að kenna karlrembunni í mér þá er rétt að taka fram, að það var ekki ég sem slökkti, þó vissulega væri ég sammála aðgerðinni. Það var betri kostur, messan sem var send út frá Grafarvogskirkju. Ég útskýri ástæður aðgerðarinnar ekki frekar. Það gengi of nálægt persónum.
Messur eiga að vera þess eðlis að maður velti fyrir sé innihaldi og tilgangi jólahátíðarinnar, fremur en forminu og framgöngu "leikaranna". Hlutverk þeirra eru sannarlega vandmeðfarin.
Jæja, svo var eftir, aftansöngur í Dómkirkjunni klukkan 22.00. Þarna var um að ræða síðasta aftansöng af þessu tagi þessa hjá núverandi biskupi.
Ég verð að viðurkenna að allt innihald þessa aftansöngs vék, í mínum huga, fyrir tvennu:
Annarsvegar beindi biskupinn máli sínu hreint ekki til söfnuðarins í predíkun sinni, sem er grundvallarfeill. Auðvitað vissi ég, sem hef tekið þátt ú upptöku á svona aftansöng, að það er enginn í kirkjunni þegar prédikunin er tekin upp, en þeir sem heima sitja eiga að hafa það á tilfinningunni að í Dómkirkjunni, á Aðfangadagskvöldi, sitji fólk og hlusti á biskup sinn. Þannig, eins og hver maður getur séð, verður þetta allt trúverðugra. Þarna hefði átt að skella eins og þrem, fjórum hér og þar í kirkjunni og láta biskup tala til þeirra, í stað þess að horfa inn í myndavélagraugað, hálf hvíslandi og sendandi frá sér þau skilaboð að fólkið í kirkjunni, fyrir framan hann, skipti hann hreint engu máli.
Hinsvegar var klippinginn á þessum aftansöng einstaklega mikil hrákasmíð, eða þá kannski upptökustjórnin. Í því sambandi nefni ég tvö dæmi:
- Aðalkórinn er að syngja. Þegar tvö erindi eru eftir af sálminum heldur biskup af stað frá altarinu sem leið liggur í predikunarstólinn. Í Dómkirkjunni er gengið upp tröppur bakatil við stólinn til að komast upp í hann, og efst í tröppunum eru síðan dyr sem opnast inn í stólinn. Þegar ríflega eitt erindi er eftir af sálminum sést biskup hefja göngu sína upp tröppurnar. Það sem eftir er sálms er myndavélum beint að kórnum.
Hvert erindi þessa sálms er talsvert langt og því átti ég von á, að þegar honum lyki, stæði biskup í stólnum, þess albúinn að hefja prédikun sína, en, nei. Þegar myndavél er beint að stólnum, er þar enginn fyrir, en skömmu síðar opnast dyrnar og inn gengur biskup.
Áttum við að hafa fengið það á tilfinninguna að hann hafi húkt á bak við lokaðar dyr á meðan kórinn kláraði? Kannski að hann hafi verið að hleypa í sig kjarki.
- Skólakór Kársness er ágætur kór og allt í lagi með það, en í þessum aftansöng vakti flug hans inn og út af sviðinu meiri athygli mína en söngurinn. "Now you see him, now you don't" (tilvitnun í heiti á kvikmynf frá 1972, en þar er fjallað um efnafræðistúdent, minnir mig, sem býr til úða sem gerir þann ósýnilegan sem honum er sprautað á).
Ég veit alveg hvað þið hugsið, lesendur góðir, við þessan lestur: "Þetta er nú meiri dómadags fúll-á-móti lesningin!". Það er auðvitað alveg rétt, svo langt sem það nær. Þarna er hinsvegar um meira að ræða, eins og hver maður getur ímyndarð sér.
Svo held ég áfram að njóta dýrðarinnar Drottins, á meðan birta jóladagsmorguns færist yfir Laugarás og opinberar fölskvalausa fegurðina.
Þetta var lesið í Bárðardal austur í náðarfaðmi dóttur og tengdasonarins.
SvaraEyðaÞetta á eftir að yrkja um - laglega,
Knús í Kvistholt
Hriðkveðillinn
H.Ág.