17 september, 2010

Minningabókavísur - fornrit

Einhvern veginn birtist, fyrirvaralaust, glósubók á eldhúsborði gamla unglingsins. Þegar henni var flett kom margt í ljós, sem virðist engan veginn fara saman. Þar á meðal voru uppskriftir af hinu og þessu, ýmsir listar, dagbókarskráningartilraun og fleira og fleira, eins og t.d. minningabókavísur (allavega eru einhverjar þeirra þess eðlis). Mér finnst ég ekki hafa skrifað þær þarna niður, og er nánast viss um að svo er ekki, þó mig gruni að ég eigi þarna dagbrókarbrot og langur listi yfir vísur, ljóð og sögubækur. Þessi bók er frá því á árunum 1966-69 að mér sýnist.

Ég ætla að skella þessum vísum hér, þó þær séu sjálfsagt flestar vel þekktar þeim sem á annað borð eru komnir til vits og ára. Ég "gúkkla" þær (þetta er frb. gamla unglingsins) og get höfunda ef ég finn þá.

Gleymdu aldrei gömlum vin
þótt aðrir gefist nýir. 
Þeir eru eins og skúra skin,
skammvinnir og hlýir.
(fannst ekki)

Allar stundir okkar hér
er mér ljúft að muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
(Har. S. Mag.)

Ég bið af hjarta, vina mín,
að blessist sérhvert sporið þitt
og engill Guðs þér haldi' í hönd
í hamingjunnar björtu lönd.

Eins og allir sjá, þá gengur þetta nú ekki alveg upp þar sem stuðlasetning er röng og einnig rímið.
Vísuna fann ég og þá var hún svona og heldur skárri að formi til, allavega.:


Ég bið af hjarta, barnið mitt,
að blessist sérhvert sporið þitt
og engill Guðs þér haldi' í hönd
í hamingjunnar björtu lönd.
(höf. ekki getið)

Varaðu þig á veginum,
víða er hann sleipur.
Er dimma tekur deginum
dettur sá sem hleypur.

Þessi fannst svona á vefnum og mun vera gamall húsgangur:

Drjúgum hallar deginum
dettur sá er hleypur.
Varaðu þig á veginum
víða er hann sleipur.
Mig grunar að hér hafi ég ætlað
að hefja dagbókarskrif.

Vorið kemur, vegir skilja,
vökna tárin, fölnar kinn.
Og ég bið að blessað vorið
blómum strái á veginn þinn.
(fannst ekki)

Laugarvatn í Laugardal
lengi skaltu muna.
Í þeim fagra fjallasal 
fékkstu menninguna.
(fannst ekki - þetta er góðubarnaútgáfan)

Allt sem gleðin geymir
gangi þér í hönd.
Bíði þín í fjarska
fögur draumalönd.
(fannst ekki, enda varla von - þvílík steypa)

Sæt er ástin, satt er það,
sérstaklega fyrst í stað, 
svo er hún svona sitt á hvað
og súr, þegar allt er fullkomnað.
(vísan fannst en ekki höfundur)

Sæt er heit og saklaus ást
sárt er hana að dylja.
Eins og það er sælt að sjást,
sárt er líka að skilja
(Páll Ólafsson)

Á Laugarvatni í Laugardal
læðast menn um nætur.
Í þeim fagra fjalla sal
fólkið illa lætur.
(fannst ekki)

Vendu þig á að vera stillt
vinnusöm og þrifin.
Annars færð þú engan pilt
ef þú gengur rifin.
(fannst en ekki höf. - góð ráð til ungra stúlkna :))

Mundu héðan allt og alla,
ég man þig ef þú manst mig.
Í haust, er lauf af greinum falla
ég vona að hann hitti þig.
(fannst ekki - ekki heldur von)

Vertu gætin, vertu stillt
vina mín, þótt sjáir pilt.
Horfðu ekki á glerið gyllt
það getur stundum sjónir villt.
(fannst ekki)

Laugarvatn í Laugardal
lengi skaltu muna.
Fyllstu þakkir flyt ég þér
fyrir samveruna.
(fannst ekki - svona minningabókaútgáfa)

Fylgi gæfan fagra þér
fram, um veginn bjarta.
Blærinn ætíð beri þér
bestu ósk míns hjarta.
(úff - fannst ekki)

Vertu sæl og þakka þér
þessa liðnu daga.
En þeir hafa orðið mér
eins og ævisaga.
(fannst ekki og ekki von)

Brautin þín verði bein og greið,
brosi þér sólin móti.
Verði öll þín ævileið
umkringd vinahópi.
(leitaði nú ekki einu sinni að þessari)

Ofurlítið ástarbrall
hann mun vilja reyna.
Það getur orðið henni meira fall
en má í fyrstu greina.
(ha ha ha  - þvílíkt!)

Þetta gat nú varla verið svona, enda fann ég vísuna, sem er sögð eftir Guðríði Björnsdóttur, sem var lengi húsfreyja í Haukatungu í Kolbeinsstaðahreppi.

Ofurlítið ástarbrall
allir vilja reyna.
En það er mörgum meira fall
en má í fyrstu greina.

Auðtrúa þú aldrei sért,
aldrei tala um hug þinn þvert.
Það má kalla hygginn hátt
að hugsa margt en tala fátt.
(Hallgrímur Pétursson)

Þó að kali heitur hver
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
(Vatnsenda Rósa)

Aldrei skaltu nota púður,
aldrei skaltu reykja fýl/fíl?
Aldrei hlusta' á ástarslúður,
aldrei kyssa strák í bíl.
(fannst ekki - en þessi er sérstök þó ekki sé nú rétt)

Að hryggjast og gleðjast
hér um lífsins (fáa) daga,
að heilsast og kveðjast,
það er lífsins saga.
(Páll J. Árdal - fáa mun vera rétt)

Þó að leiðin virðist vönd
vertu aldrei hryggur.
Það er eins og hulin hönd
hjálpi' er mest á liggur.
(fannst en ekki höf.)

Ég kveð þig, kæra vina,
svo klökkur í hinsta sinn.
Þig Guð og gæfan geymi
og greiði veginn þinn.
(fannst ekki - sniff sniff)

Nú kveðjum við skólann og höldum héðan 
     og hugsandi spyrjum við að:
"Komum við aldrei á ævinni hingað 
     aftur á þennan stað?
Fáum við aldrei aftur að líta 
     alla sem dvöldust hér?"
Þessi spurning er ofar öllu 
     öðru í huga mér.
(fannst ekki)

Þó þig leiki lífið grátt 
og lítið veiti gaman,
saltu bera höfuð hátt
og hlæja' að öllu saman.
(fannst ekki)

Ef þú eignast eiginmann
og ótal marga krakka
mundu þá að það er hann / Hann
sem þú átt allt að þakka.
(fannst ekki - spurning hvort 'hann' á að vera með stórum staf, með trúarlegu ívafi, eða bara með litlum og þá með talsverðum karlrembutóni)

Það er skemmtilegt að geta þess, að þær vísur sem fundust á vefnum voru flestar hluti af minningagreinum, sem segir margt um dramtíkina sem einkennir unglingsárin.

Ég þykist viss um að engir nema algerir nördar hafa lesið hingað niður. Það er í góðu lagi því ég setti þetta hér svona til minnis.






2 ummæli:

  1. Aldrei skaltu eiga púður
    aldrei skaltu reykja fíl
    aldrei hlust' á ástarslúður
    aldrei kyssa strák í bíl
    Aldrei kyssa aldrei klappa
    aldrei seint á götu vappa.


    ... var skráð í margar minningabækur Kvennaskólans í Reykjaík (þar sem ekkert mátti)

    segir Hirðkveðill Kvistholts í dag

    SvaraEyða
  2. Algjör nörd las þeta allaleið niður og þótti gott!! kv SS

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...