18 september, 2010

Þvottasnúruklemman

Þetta er dagurinn sem Kvistholtsbóndinn tók sig til og fór gönguferð um landareign sína. Veðrið? Því verður nú best lýst með orðum fD: "Það er bara sólbaðsveður!"
Vissulega fer það ekki framhjá mér, að það er komið haust, þótt seint sé, en blíðan er með eindæmum og kjörin til að fara í lítinn skógartúr til að kanna hvernig gróðurinn hefur verið að þróast frá því síðasta ferð af þessu tagi var farin fyrir einum 4-5 árum.
Fyrst lá leiðin inn í Sigrúnarlund, en þar veður furan áfram í kapphlaupi við sjálfa sig. Inni í lundinum næst sama tilfinning og þegar gengið er í skógi, merkilegt nokk.
Ég gekk út úr lundinum til suðurs í átt að landamærum Kvistholts og Lyngáss, eftir Ingibjargarleið svokallaðri. Ingibjargarleið hefur verið lokuð frá því nýir nágrannar settust að í Lyngási, sem breytir svosem ekki miklu þar sem engin eru skólabörnin lengur á bænum til að stytta sér leið í skólabílinn. Sem ég geng þarna í suðurátt sem fyrr segir, blasir auðvitað við mér girðingin mikla sem reist var fyrir nokkrum árum, en nú var orðin breyting á. Kvistholtsmegin við girðinguna, sem sagt inni á landi Kvistholts, var nú komin þvottasnúra nágrannans, sem ég hef reyndar aldrei séð. Við þessa sjón snarstansaði ég og umsvifalaust hófust vangaveltur mínar um hvernig brugðist skyldi við. Átti ég að grípa til þess sama og um daginn þegar Pólverjarnir voru mættir í Kvistholtsland til sveppatínslu og ég fór út og kom þeim í skilning um að þeir væru á 'prævit proppertí'? Eða átti ég að halda áfram könnunarleiðangri mínum um Kvistholtsland?
Það sem mælti með því að ég gerði hið fyrrtalda var auðvitað sú grundvallarstaðreynd, að nágranninn var farinn að nýta mína landareign í eigin þágu, án þess að biðja um leyfi, hvað þá greiða leigu fyrir afnotin. Þarna mátti velta fyrir sér hvað kynni að gerast í framhaldinu. Mátti ég búast við því, t.d. að hann færi að koma fyrir þarna öðru því sem hann vildi ekki að sæist frá pallinum hjá sér? Var þetta bara byrjunin á frekari innrás hans?
Það sem mælti með því að ég gerði ekkert að svo stöddu var, að það við svona aðstæður er hægt að velta fyrir sér hvaða máli það skiptir að verja land sitt með kjafti og klóm með öllu því veseni sem það kann að leiða af sér. Þá velti ég fyrir mér hverju það breytti fyrir mig, að þarna væri komin þvottasnúra ókunnugra inn á þann hluta landareignarinnar sem ekki sést frá pallinum og sem ég ken sárasjaldan á.

Niðurstaðan: Jú, það er vissulega óþægilegt að einhver taki sig til og skelli þvottasnúru inni á landi sem telst tilheyra mér. Það er verið að fara inn á mína einkalóð, með ákveðnum hætti og í leyfisleysi. Hinsvegar má líta þannig á, að þetta breyti engu fyrir mig til eða frá, ef frá er talið að þarna er um að ræða ákveðið virðingarleysi. Að fara að gera eitthvert mál úr þessu þætti mér frekar smásálarlegt og kannski gera minna úr mér, en nágrannanum.

Ég ákvað því, á þessu stigi máls, að gera ekkert frekar í málinu, og hélt könnunarleiðangri mínum um landareignina áfram. Ég uppgötvaði að gróðurinn er að spjara sig vel og síðustu sumur hafa stuðlað að því að á köflum er landið orðið erfitt yfirferðar fyrir þéttum trjágróðrinum. Það blasir hinsvegar við, að framundan er að planta miklu meira af trjám efst á holtinu. Þar hafa afkvæmin á góðri stund, rætt um að koma sér upp sumarhúsi á norðurslóð, en eins og staðan er nú, virðist það nokkuð fjarlægt.

"Þú verður bara að skrifa honum", sagði fD þegar hún frétti af þvottasnúrunni.

4 ummæli:

  1. Betra er að fara í skotgrafarhernað, og senda fD í skjóli nætur með klippur til að græja málið :)

    SvaraEyða
  2. Af þessum snúrum þykist hafa frétt
    að þær nú drjúgan öðlist "hefðarrétt".
    Næst það verði bekkur, borð og stólar
    og bústin rafhlaða með krafti sólar.

    Þá er mál að klippur komi til
    kærri frúnni treyst' í það ég vil.

    Hirðkveðill yrkir um landrán þvottasnúra að Kvistholti.

    SvaraEyða
  3. svo má alltaf fá utanaðkomandi hjálp við verknaðinn (aka Binni), til að draga úr beinni aðild :)

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...