Auðvitað tóku Laugarásbúar við sér, tíndust út úr skóginum með mjólkurfernur í fanginu og hófu að baka brauð.
Það gerðum við Kvisthyltingar einnig. Við vildum hinsvegar vera öðruvísi og fundum okkur blikkdunk og freistuðum þess þannig að vikja ekki mjög frá þeirri bakstursaðferð sem notuð var hér fyrir um 60 árum. Uppskriftin sem notuð var, var sú sama og þá, einnig.
Það var hálfgerð helgistund að fara með brauðið í pottinn; skrúfa lokuna lausa og lyfta lokinu með þar til gerðu handfangi og koma blikkdunknum fyrir á stálgrindinni í botni pottsins. Þegar þetta gerðist voru ein 8 brauð í bökun, öll í 1s lítra mjókurfernum með álpappír í toppin sem gegndi óræðu hlutverki. Þrátt fyrir mikinn brauðafjölda komst blikkdunkurinn vel fyrir. Þarna hófst síðan sólarhringsbið eftir að brauðið bakaðist. Þegar heim var komið var tiltekið símtææki stillt á tíma svo brauðið yrði nú sótt þegar það væri tilbúið.

Það gekk treglega að ná brauðinu úr dunknum, en það gekk. Svo var skorin sneið, sem gekk þokkalega, utan velþekkta límáferð nýbakaðs hverabrauðs, sem veldur erfiðleikum við beitingu á hefðbundnum hnífum. Hér þyrfti að koma til vírskurðargræja (nenni ekki að útskýra það nánar).
Bragðið færði mig 50 ára aftur í tímann, en mér fannst brauðið heldur skorta sætleika í samanburði við nútíma hverabrauð.
Þetta var fyrsta tilraun og þær verða líklega fleiri þar til fullkomnun verður náð, því alltaf skal stefnt að fullkomnuun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli