23 janúar, 2016

Janúar blús - þreyjum þorrann

Ætli mér sé ekki óhætt að fullyrða, að ástæðu þagnar minnar á þessum síðum undanfarið megi rekja til árstímans. Fyrstu tveir mánuðirnir hafa aldrei talist með þeim vinsælustu í huga mér og mér liggur við að segja að séu þeir nánast hundleiðinlegir, í það minnsta svona í stórum dráttum. Ég veit að þetta er ekki fallega sagt og sjálfsagt ekki á bætandi mögulegan miðsvetrarblúsinn í hugum ykkar sem þetta lesið.

Grámi þessa dags í síðari hluta janúarmánaðar kallar ekki fram neinn sæluhroll. Það er kalsarigning og hvasst í nágrenni Laugaráss.  Landsliðið, sem oft hefur nú lýst um þennan dimmasta tíma ársins, er úr leik og maður verður að halda með Degi eða Guðmundi. Þorrablót Tungnamanna var í gærkvöld, en þangað fór ég ekki. Laugarásbúar halda sig heima við og það er hálka á vel ruddum gangstígum. Framundan eru síðustu dagar janúarmánaðar og þá tekur febrúar við, og svipað ástand.

Ég er nú bara að grínast með þetta allt saman, verður það ekki að teljast líklegt? Í allri þeirri sút sem við kunnum að upplifa á þessum árstíma, þurfum við ekki annað en beina athyglinni að því hve heppin við erum í þessu landi allsnægtanna og undrafegurðarinnar.
Líf flestra okkar er harla öruggt og við njótum þess, að lúta forystu á stjórnmálasviðinu sem slær hvert heimsmetið á fætur öðru á hinum aðskiljanlegustu sviðum. Við höfum í rauninni óbilandi trú á þeirri braut sem leiðtogar okkar ryðja fyrir okkur. Við erum þess fullviss að forysta þeirra muni færa okkur alla þá brauðmola sem við eigum skilda. Við megum ekki vera vanþakklát því óendanleg viska landsforeldranna, þó stundum skorti okkur vit eða sýn til að skilja hvert þeir eru að leiða okkur, mun á endanum leiða okkur inn í fyrirmyndarríkið þar sem hver fær það sem hann á skilið, hvorki meira né minna.

Sannarlega er ástæða til að gleðjast, til að fagna ljósinu, ekki aðeins ljósi eldhnattarins sem dag frá degi hækkar á himinhvolfinu, heldur ekki síður viskunni, réttsýninni, mannskilningnum, kossunum og faðmlögunum sem leiðtogar okkar eru svo ósinkir á og sem veita okkur innblástur til afreka sem við höfum ekki getað ímyndað okkur að væru á okkar færi.

Ég er viss um að ég gæti orðið öflugur áróðursmeistari  tiltekinna stjórnvalda austast í Asíu, ef dæma má af því sem ég hef lamið inn hér fyrir ofan. Mér virðist reynst auðvelt að breyta svörtu í hvítt og öfugt, í samræmi við það hvernig vindar blása hverju sinni. Slíka andagift get ég fyrst og fremst þakkað undursamlegri leiðsögn minna ástkæru leiðtoga.

Þessi skrif eru innblásin af starfi íslenskra stjórnvalda, segja jafn mikið og jafn lítið. Þau eru af ásettu ráði eins og þau eru, hvork of né van. Allt eins og því er ætlað að vera.

Megi fínu jólapeysurnar okkar gleðja ykkur, kalla fram
lítil bros, auka bjartsýni og efla trú á íslenska þjóð.





Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...