08 febrúar, 2015

Betra seint


Ég hef ekki haft mörg orð um dugnað minn til verklegra framkvæmda, en nú get ég ekki orða bundist. Ég er búinn að koma sjálfum mér ítrekað á óvart undanfarnar vikur, svo oft reyndar, að dugnaður minn er hættur að koma á óvart.  Það hefur komið í ljós að verklegar framkvæmdir henta mér að mörgu leyti mjög vel. Mig hefur reyndar alltaf grunað að í mér leyndist dugnaðarforkur, en ég hef passað mjög vel að gefa honum ekki lausan tauminn. Undanfarnar vikur hef ég létt af honum öllum hömlum og það er ekki að sökum að spyrja. Það stefnir í að það verði til íbúð í kjallaranum ef áfram heldur sem horfir. Hver veit nema innan skamms verð fD komin á kaf í ferðaþjónustu með útleigu á 50 fermetra túristaíbúð. Ég veit um að minnsta kosti tvær slíkar nú þegar í Laugarási.


Hvað um það. Kjallarinn í Kvistholti hefur verið nánast óhreyfður í 30 ár, svo það var í raun tími til kominn að huga að framtíðarnýtingu hans. Svo varð ákveðin opnun, með látlausum flutningi  vinnustofu fD upp á efri hæðina, sem áður hefur verið fjallað um hér og hér. Með þeirri aðgerð varð bara ekki aftur snúið, og undanfarnar helgar hafa verið undirlagðar. Nú er komið öndvegis gólfefni á tvö herbergi og innan skamms verða komnar hurðir fyrir öll dyraop.  Svo hefur verið ýjað að því að taka snyrtinguna í gegn og þá er ekkert eftir nema eldhúsið.
Kva, það verður nú lítið mál fyrir Pál, sem nú þegar hefur komið sjálfum sér á óvart með parketlagningu sem hefði verið hverjum húsasmíðameistara til sóma. Enn augljósari varð snilldin þegar hurðakarmar voru settir í. Eitt baðherbergi og eldhús verða sennilega tertusneið í ljósi þess sem lokið er. Reyndar á eftir að setja hurðirnar í rammana og enn liggur ekki fyrir hvort þær passa, en til þess standa þó vonir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...