Þessi mynd og aðrar myndir með þessum pistli
eru af lífi nemenda í Menntaskólanum að
Laugarvatni. Tilgangurinn með þeim er enginn annar
en að lífga upp á textann.
|
Ég vara mögulega lesendur við því að það sem fer hér á eftir getur ekki talist skemmtilestur. Hér er fjallað um aðstæður ungs fólks sem tekur þá góðu ákvörðun, að fara í framhaldsskóla með heimavist. Ég veit að ég tala fyrir munn margra með því að fullyrða að fáar leiðir eru betri til alhliða þroska en heimavistardvöl. Þeir sem fara þess leið eiga yfirleitt vinafjöld til æviloka að henni lokinni.
Tilefnið
Tilefnið þessa pistils er að finna hér.
Þarna segir meðal annars:
Umboðsmaður barna, Margrét María Sigurðardóttir, segir að allar reglur um heimavist verði að vera í samræmi við réttindi nemenda sem eigi að sjálfsögðu rétt á friðhelgi til einkalífs eins og aðrir.Ekki efa ég að umboðsmaðurinn talar hér samkvæmt bestu vitund og í samræmi við það sem rétt er, samkvæmt lagabókstafnum. Við eigum rétt á friðhelgi einkalífs, hvort sem við erum börn eða fullorðin. Það er mikilvægt að uppeldisumhverfi barna sé verndandi og leiðbeinandi. Foreldrar eru ábyrgir fyrir því að skila börnum sínum til samfélagsins sem heilsteyptum einstaklingum. Þessa ábyrgð axla þeir með mismunandi hætti. Í auknum mæli gera þeir kröfur til þar til ætlaðra stofnana um að þær axli hluta ábyrgðarinnar á uppeldinu. Þar með má segja að þeir framselji uppeldishlutverkið að meira eða minna leyti til þessara stofnana, bæði að því er varðar menntun barnanna og aðlögun þeirra að þeim reglum og siðum sem samfélagið samþykkir. Foreldrar gera í mörgum, tilvikum meiri kröfur til þess uppeldis sem stofnanirnar taka að sér, en til sjálfra sín.
segir Margrét.
Ef grunur vakni hins vegar um refsiverða háttsemi, til dæmis þjófnað eða vörslu fíkniefna, er hægt að hafa samband við lögreglu sem hefur heimild til að framkvæma leit vegna sakamálarannsóknar.
„Það þarf lagaheimild eða dómsúrskurð til þess að það sé heimilt að leita í herbergjum nemenda, en engin heimild er til þess í núgildandi lögum. Ég á því erfitt með að sjá að þessar reglur séu í samræmi við lög og réttindi nemenda,“
Þann 1. janúar 1998 tóku gildi lögræðislög, en samkvæmt þeim teljast einstaklingar sem orðnir eru 18 ára lögráða. Þar með urðu allir einstaklingar sem voru yngri er 18 ára skilgreindir sem ólögráða, eða börn. Mér hefur reyndar alltaf verið frekar í nöp við þessa breytingu, ekki síst vegna þess að mér finnst að með henni sé verið að skilgreina hálffullorðið fólk sem börn, sem ekki þurfa að axla ábyrgð á sjálfum sér. Með þessu hefur sú þróun orðið, að smám saman hefur það síast inn í þjóðarsálina, að fólk teljist börn til 18 ára aldurs, ekki aðeins í lagalegum skilningi heldur einnig í raun.
Lögin eru svona, hvaða skoðun sem ég kann að hafa á því.
Sú skylda hvílir á hverju samfélagi, hvort sem það nú eru foreldrarnir eða stofnanirnar sem taka að sér uppeldi barna til 18 ára aldurs að koma börnunum til manns, sjá til þess að þau verið tilbúin til að takast á við líf fullorðinna og sjálfstæðra einstaklinga. Á skólunum hvílir ekki aðeins fræðsluskylda til 18 ára aldurs, heldur einnig uppeldisleg skylda.
Þetta var svona inngangur að umfjöllunarefninu.
Börn sem dvelja í heimahúsum þar til þau verða lögráða eru á forsjá foreldranna, svo sem vera ber. Þeim eru væntanlega innrættir góðir siðir og allt það. Þau hafa jafnvel eigin herbergi til umráða, en sem ábyrgir uppalendur, kenna foreldrarnir þeim að umgangast herbergið með viðunandi hætti, til dæmis að taka til og þrífa með reglulegu millibili. Börnunum eru einnig settar reglur um hvað má og hvað má ekki gera í herbergjunum. Börnin undirgangast þær reglur sem foreldranir setja, enda eru það þeir sem bera ábyrgð á að börnin læri alla grunnþætti þess sem líf manneskjunnar í samfélagi manna krefst. Foreldrarnir áskilja sér eðlilega rétt til að fylgja reglunum eftir, meðal annars með því að athuga hvort umgegni og hegðun innan veggja þess er í samræmi við þær. Foreldrar telja sig líklega ekki þurfa dómsúrskurð til að leggja leið sína í herbergi barna sinna í þessu skyni.
Fólk sem fer að heiman á 16da ári í heimavistarskóla, er ennþá börn í skilningi laga og þar með flyst uppeldishlutverkið til heimavistarskólans að hluta til þann tíma sem þau dvelja þar. Heimavistarskólinn setur reglur um umgengni í herbergjum og framgöngu barnanna, hvort sem er inni í herbergjunum eða í skólahúsnæði að öðru leyti. Þessar reglur eru ekki síst til þess ætlaðar að skapa heilbrigðar og æskilegar uppeldisaðstæður og sömu reglur verða augljóslega að gilda um alla þá lögráða og ólögráða einstaklinga sem þessi heimavistarskóli tekur að sér.
Þegar umsækjandi er tekinn inn í heimavistarskóla undirgengst hann skriflegar reglur sem gilda í skólanum og í heimavistarhúsnæði, þar með talið á herbergjum. Hann og forráðamenn hans þurfa að samþykkja með formlegum hætti þær reglur sem starfað er eftir. Það verður sem sagt til samningur sem segir efnislega að skólinn tekur eintaklinginn inn og lofar að tryggja öryggi hans innan veggja skólans og sjá honum fyrir menntun. Á móti samþykkir umsækjandinn og forráðamenn hans að undirgangast þær reglur sem skólinn hefur sett varðandi dvölina á heimavistinni. Þessi samningur byggir á 3. málsgrein 1. greinar húsaleigulaga nr. 36. 1994, en þar segir:
Friðhelgi einkalífs - hvað er nú það?
Sé íbúðarhúsnæði leigt til ákveðinna hópa, svo sem námsmanna, aldraðra eða öryrkja, þar sem sérstakar aðstæður kalla á aðra skipan en lögin mæla fyrir um, er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilt, vegna sérstaks eðlis eða tilgangs starfseminnar, að víkja frá einstökum ákvæðum laganna með samningi.
Ég tek hér nokkuð öfgafullt dæmi.
Ef ég, lögráða einstaklingur, sit inni í bílnum mínum í rólegheitum og neyti áfengis eins og mig lystir, væri það líklega brot á friðhelgi einkalífs míns að rífa upp dyrnar á bílnum, gera áfengið upptækt eða hella því niður og láta mig gjalda þess með einhverskonar refsingu. Ef ég myndi hinsvegar skella mér í bíltúr við þessar aðstæður myndi málið horfa öðruvísi við. Ég væri þar með orðinn hættulegur samferðamönnum mínum og þar með búinn að brjóta lög og hlyti viðeigandi refsingu ef ég yrði uppvís að akstrinum. Þarna kemur líklega til skoðunar t.d. 2. málsgrein 71. greinar stjórnarskrárinnar:
71. gr. [Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.Það má, sem sagt takmarka friðhelgi einkalífs þar sem um er að ræða að vernda réttindi eða öryggi annarra.
Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]1)
Ef ég velti nú fyrir mér aðstæðum á heimavist einhvers framhaldsskóla þá blasir það við að það þarf að huga að tvennskonar hagsmunum barnanna/unglinganna/hinna ólögráða einstaklinga:
1. Það þarf að tryggja velferð íbúanna, tryggja að þeir fái notið friðhelgi einkalífs, ekki aðeins gagnvart starfsmönnum skólans, heldur einnig öðrum íbúum. Þeir skulu njóta öryggis og heilbrigðra uppeldisaðstæðna í hvívetna. Þessir hagsmunir eru mikilvægari en aðrir.
2. Það þarf einnig að huga að hagsmunum þeirra barna/unglinga/ólögráða einstaklinga sem kjósa að láta reyna á einhver mörk, eins og nokkuð algengt er meðal unglinga. Sannarlega eiga þeir að njóta alls þess sama og aðrir svo fremi að þeir fari ekki út fyrir þau mörk sem tilgreind eru í þeim samningi sem þau og forráðamenn þeirra gerðu við upphaf skólagöngunnar/heimavistardvalarinnar. Sá samningur, sem kallast yfirleitt heimavistarreglur, kveður á um það sem má og það sem ekki má innan veggja þeirrar uppeldisstofnunar sem um er að ræða. Mikilvægur þáttur í þeim samningi er ákvæði um aðgang tiltekinna starfsmanna að herbergjum barnanna/unglinganna/ hinna ólögráða einstaklinga, til að tryggja öryggi þeirra, leiðbeina þeim, t.d. varðandi umgengni og til að hafa eftirlit með því að þau/þeir haldi þann samning sem gerður var við upphaf dvalarinnar.. Aðgangurinn sem þar er tilgreindur er engan veginn meira íþyngjandi en sá sem börnin/unglingarnir/ hinir ólögráða einstaklingar þyrftu að búa við byggju þeir á heimili foreldra sinna. Þarna má segja að ákveðinn réttur eða ákveðnar skyldur foreldris/forráðamanns séu færður yfir til uppeldisstofnunarinnar.
Meðan á dvöl í framhaldsskóla með heimavist stendur, ná börnin að verða 18 ára og þar með lögráða. Samningurinn sem þau undirrituðu heldur hinsvegar áfram fullu gildi. Það sem breytist er, að samskipti stofnunarinnar við foreldra hætta. 18 ára einstaklingur verður einn og sjálfur ábyrgur fyrir framgöngu sinni. Við þessar aðstæður hefur hann val: að undirgangast þann samning sem gerður var og gildir áfram, eða taka á leigu annað húsnæði, sem gerir minni kröfur til umgengni og hegðunar og þar með líklega hætta í viðkomandi skóla.
Niðurlag
Í upphafi þessa pistils vitnaði ég til orða umboðsmanns barna, og til upprifjunar þá voru þau svona:
Ef grunur vakni hins vegar um refsiverða háttsemi, til dæmis þjófnað eða vörslu fíkniefna, er hægt að hafa samband við lögreglu sem hefur heimild til að framkvæma leit vegna sakamálarannsóknar.„Það þarf lagaheimild eða dómsúrskurð til þess að það sé heimilt að leita í herbergjum nemenda, en engin heimild er til þess í núgildandi lögum. Ég á því erfitt með að sjá að þessar reglur séu í samræmi við lög og réttindi nemenda,“Ég tel að umboðsmaður þurfi að taka tillit til þess að börn/unglingar sem dvelja á heimavistum eru þar í uppeldisumhverfi og í trausti þess að öryggi þeirra sér tryggt og að þau/þeir njóti sambærilegra uppeldisaðstæðna og börn/unglingar sem dvelja á heimili foreldra sinna. Ég sé ekki fyrir mér, að unglingur geti sett foreldrum sínum verulegar skorður þegar kemur að aðgangi þeirra að herbergi hans. Á heimilinu gilda reglur sem uppalandinn setur, reglur sem miða að því að upp verði alinn heilsteyptur, sjálfsöryggur og dugandi einstaklingur.
Það er ekki bara svo, að allt geti snúist um rétt fólks. Rétturinn er auðvitað mikilvægur, en skyldurnar eru það ekki síður. Þeir sem engar telja sig hafa skyldurnar geta ekki búist við að komast langt á rétti sínum einum saman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli