14 mars, 2015

Hreinn og beinn

Starfsfólk ML fór í námsferð á Íslendingaslóðir í Kanada 2008
og þar fann Hreinn Silfur hafsins á bókasafni Manitóbaháskóla
og var sáttur við það. 
"Vitiði hvernig við gerðum þetta í Héraðsskólanum?" Auðvitað vissi það enginn og það voru ekki margir sem voru yfirleitt tilbúnir að fá kynningu á því hvernig þeir höfðu gert þetta í Héraðsskólanum. Þarna var á ferð andblær sögunnar eða reynslunnar að freista þess að fá áheyrn í nútímanum, en eins og mér er nú orðið ljóst og líklega öllum þeim sem búa yfir langri reynslu, að smám saman hættir nútiminn að hlusta á söguna, ef reynslan passar ekki inn í nútíma aðstæður. Sprenglærður nútíminn telur sig vita betur en svo að það þurfi að leita til öldunga um ráð sem duga.

Hreinn Ragnarsson kom með fjölskyldu sinni á Laugarvatn 1970 og hóf að kenna við Héraðsskólann. Eftir því sem líftími Héraðsskólans styttist lét Hreinn sig flæða æ meir inn í kennslustofur menntaskólans. Mér finnst þetta hafi bara gerst einhvernveginn af sjálfu sér.

Í annarri ferð starfsmanna ML, til Bæjaralands 2011,
varð á vegi okkur sölubás í Nürnberg þar sem hægt var 
að kaupa MATJES. Ég fékk fyrirlestur um það fyrirbæri, sem
er einhver ákveðin síldartegund.
Hreini kynntist ég til að byrja með í gegnum blakæfingarnar og blakleiki í gamla íþróttahúsinu við Héraðsskólann þegar ég var í ML í upphafi 8 áratugar síðustu aldar. Mér fannst hann í eldri kantinum (rétt ríflega þrítugur) eins og aðrir kennarar á staðnum sem stunduðu blakið af krafti með okkur ML-ingunum. Síðan áttum við samleið að hluta þegar við renndum okkur saman í gegnum uppeldis- og kennslufræði  við HÍ nokkrum árum seinna, en á þeim tíma stundaði hann þar framhaldsnám í sögu og íslensku. Síðan var það ekki fyrr en ég kom aftur á Laugarvatn 1986, sem starfsmaður ML að leiðir okkar lágu saman á ný og upp frá því var það svo.

Ætli mér sé ekki óhætt að segja að Hreinn hafi verið kennari af gamla skólanum, eldri skóla en mínum og ævafornum skóla ef tekið er mið af nútíma kennsluháttum. Á hans tíma í Héraðsskólanum var kennarapúltið á upphækkun svo vel sæist yfir. Þar sat kennarinn oftar en ekki og talaði við eða yfir bekkinn milli þess sem nemendur voru teknir upp með því að þurfa að svara spurningum eða skila af sér verkefnum á töflunni.  Ég kenndi um tíma í Héraðsskólanum undir lokin á skólahaldi þar og þá voru þar þessar upphækkanir, sem gerðu ekkert nema þvælast fyrir þar sem ég með mína, þá nýjustu kennsluhætti, dansaði um stofuna fram og til baka, stundum gleymandi upphækkuninni og því hrasandi fram af henni eða hrasandi um hana. En svona var hlutunum fyrir komið í Héraðsskólanum og því varð ekki breytt.

Það áttu sér stað umtalsverðarbreytingar á kennsluháttum á þeim tíma sem Hreinn starfaði í ML. Hann hélt nú samt sínu striki og framkvæmdi sín verk eins og hann taldi að best hentaði markmiðunum. Ég skil hann nú og finn það á sjálfum mér hve fjarri nútíma kennsluhættir eru þeim sem mér voru innrættir á sínum tíma. Um það gæti ég sagt margt en læt það vera þessu sinni.

Þeir sem starfa lengi í kennslu kynnast stöðugum breytingum á starfsumhverfi sínu, en þegar upp er staðið eru það ekki kennsluaðferðirnar sem eru úrslitaatriðið þegar gagnsemi kennslunnar eða námsins eru metin, heldur eðlislæg hæfni til starfsins og þekkingin á viðfangsefninu.  Hreinn hefði líklega ekki starfað við kennslu alla sína starfsævi nema hafa það til að bera sem þurfti. Hann bjó yfir djúpri þekkingu á viðfangsefnum sínum og gat tekið að sér ólíkar námsgreinar. Hann átti í engum vandræðum með að tjá sig og koma efninu til skila þannig að unga fólkið hefði af gagn bæði og gaman, kysi það svo. Mig grunar, eða réttara sagt ég veit, að tilkoma tölvunnar inn í skólastarfið, hafi ekki verið honum sérlega að skapi og hann taldi sig ekkert sérstaklega knúinn til að tileinka sér neina umtalsverða færni á því sviði. Með tilkomu fartölvunnar fór Hreinn fram á að nemendur stunduðu frekar prjónaskap í kennslustundum en tölvuspil.

Þar kom þó að Hreinn fékk ekki hunsað tölvuöldina og þar kom til lokafrágangur á stórvirki hans Silfur hafsins, gull Íslands. Það þurfti að lesa yfir, bæta við og lagfæra og ég reikna fastlega með að við þá vinnu hafi Hreinn uppgötvað nytsemi tölvunnar þó hann hafi aldrei viðurkennt hana eða tekið í sátt í orði.

Samstarfsmaðurinn Hreinn var, í mínum huga, tengingin við söguna. Hann var þar í flokki með Kristni skólameistara og Óskari Ólafssyni. Ég er af þeirri kynslóð sem þeir félagar leiddu í gegnum skólana á Laugarvatni ég var svo gæfusamur að fá að kynnast þessum ágætu körlum frá ýmsum hliðum. Ég hafði skilning á stöðu þeirra í því flóði breytinga sem með reglulegu millibili æðir fyrir skólakerfið. Ég skildi og skil efasemdir þeirra um að við værum á réttri leið með uppfræðslu ungmenna.

Hreinn kenndi ML-ingum á bíl áratugum saman og ökukennslan og umferðarmál voru honum alltaf ofarlega í huga. Hann hélt áfram að kenna á Nissan eftir að að lét gott heita í störfum utan heimilis að öðru leyti.

Oft lá leið piltsins upp í menntaskóla eftir að hann hætti þar störfum, en frú Guðrún (fG) starfaði þar áfram nokkur ár eftir að Hreinn hætti.

Hreinn lést þann 3. mars, s.l. og útför hans fór fram frá Skálholtskirkju í gær. Ég reikna ekki með að gleyma kynnunum af honum í bráð.






2 ummæli:

  1. Ég er líka af kynslóðinni sem þeir uppfræddu. Hreinn var með skemmtilegri mönnum sem mér hafa kennt. Best fannst mér aðferð hans við Gísla sögu og Íslandsklukkuna: Hann las bækurnar fyrir okkur og lagði út af. Ekkert PowerPointkjaftæði og bara einstaka ritgerð.

    SvaraEyða
  2. Áhugavert og skemmtilegt aflestrar : - )

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...