29 mars, 2015

Einskis manns eða allra.

Á æskuheimili mínu var þvottur upphaflega þveginn í hvernum. Síðan kom til sögunnar þvottavél í samræmi við vaxandi efni, en mesta byltingin í þvottamálum varð þegar á heimilið kom þvottavél sem bar nafnið Centrifugal Wash. Ég minnist þess að mér þótti nafnið frekar töff og hætti ekki fyrr en ég komst að því hvað það merkti. Það voru engin vandræði með WASH hlutann, sem augljóslega þýddi þvottur. Ég komst fljótt að því að CENTRIFUGAL var samsett orð  þar sem fyrri hlutinn merkti miðja og sá síðari flótti. Þar með var komin merkingin á heiti vélarinnar: MIÐJUFLÝJANDI ÞVOTTUR. Síðan rann auðvitað samhengið upp fyrir mér, eins og nærri má geta: þvottavél af þessu tagi byggði á því að nota miðflóttaaflið við vindingu á þvottinum, með því belgurinn snérist á ógnahraða og þrýsti  þvottinum eins langt frá miðju hans og mögulegt var. Vatnið í þvottinum þrýstist síðan úr þvottinum og út fyrir belginn, eftir varð þvotturinn, tilbúinn að að hengja til þerris.

Þessi inngangur á sér tiltölulega einfalda skýringu: Mér verður stundum hugsað til þessarar þvottavélar þegar ég velti fyrir mér málefnum sem tengjast uppsveitum Árnessýslu. Í því samhengi hugsa ég eins og Laugarásbúi, þar sem Laugarás er í miðju svæðisins. Síðan koma til kraftar, sem vel má kalla einhverskonar miðflóttaafl. Þessir kraftar hafa það í för með sér að flest sem gert er, eða flestar hugmyndir sem fram koma um uppbyggingu, sogast út úr þessari miðju.

Ég leyfi mér að halda áfram að hafa þann draum að uppsveitir Árnessýslu sameinist í eitt öflugt sveitarfélag og að þeir kraftar sem ákvarða staðsetningu þessa eða hins marki stefnu sem tekur mið af því að heildarhagsmunum íbúanna verði þjónað sem best.

Ég hef áður fjallað um hjúkrunarheimili í uppsveitunum. Það gerði ég hér, hér og hér. Ég vísa í þessi skrif ef einhver vill kynna sér það betur. Ég tel mig hafa sagt það sem ég hef að segja í þeim þrem færslum sem þar er um að ræða.

Árið 2010 var tekin í notkun brú yfir Hvítá sem opnaði stystu leið milli Reykholts og Flúða. Barátta fyrir brúnni hafði staðið lengi og því var haldið mjög á lofti að eini möguleikinn á að hún yrði að veruleika væri alger samstaða á svæðinu um mikilvægi hennar á þeim stað sem síðan varð. Á þeim tíma kom ég að sveitarstjórnarmálum í Biskupstungum og er minnisstætt hve mikil áhersla var lögð á þessa samstöðu. Mínar skoðanir á staðsetningu þessarar brúar voru ekki í samræmi við það sem barist var fyrir, en ég, með það að leiðarljósi að betri væri brú en engin brú, tók þátt í þeirri samstöðu sem þarna var um að ræða. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því, að þessi brú breytti engu í jákvæða átt fyrir Laugarás, enda er leiðin frá Laugarási að Flúðum nákvæmlega jafnlöng hvor leiðin sem valin er.

Árið 2010 var opnaður nýr vegur frá Laugarvatni á Þingvöll. Um þessa framkvæmd ríkti mikil samstaða hér á svæðinu og aðeins vegna hennar varð af þessari vegagerð. Vegalengdin frá Laugarási til Reykjavíkur breyttist ekkert við þessa framkvæmd. Hún er hinsvegar afar mikilvæg fyrir heildarhagsmuni íbúa í uppsveitunum.

Ýmislegt af þessu tagi kennir okkur, að ef við náum saman, þó ekki séu allir fullkomlega sáttir, þá náum við margfalt meiri árangri en með því að togast á innbyrðis.

Hjúkrunarheimilið sem rætt hefur verið í vetur er verkefni af þessu tagi. Það þarf að sækja fé í ríkissjóð til þess arna og ef við komum ekki fram sem eitt á þeim vettvangi verður þetta verkefni framkvæmt annarsstaðar.

Ég minni enn á, ef einhverjum skyldi ekki vera það ljóst, að Laugarásjörðin er í eigu allra uppsveitahreppanna. Þeir keyptu jörðina á 3. áratug síðustu aldar undir læknissetur. Þar réði framsýni för og við, sem svæðið byggjum búum við einhverja bestu læknisþjónustu sem völ er á á þessu landi.
Hér við hliðina er úrklippa úr Litla Bergþór frá 2011. Þar er um að ræða hluta úr erindi sem Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu flutti í útvarpið 1971.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...