01 mars, 2014
Sólsetur í uppsveitum (1)
Svokallaðar uppsveitir Árnessýslu telja 4 sveitarfélög: Hrunamannahrepp með 784 íbúa þann 1. janúar 2013, Skeiða- og Gnúpverjahrepp með 504 íbúa, Bláskógabyggð með 897 íbúa og Grímsnes- og Grafningshrepp með 422 íbúa. Þetta þýðir að þann 1. janúar 2013 var heildarfjöldi íbúa í uppsveitum 2607. Af þessum 2607 voru 514 60 ára eða eldri, 270 karlar og 244 konur. 239 voru 70 ára eða eldri. Það er auðvitað alltaf hægt að leika sér með tölur og velta fyrir sér hver fjöldi þeirra sem verður á eftirlaunaaldri verður eftir 10 ár. Það ætla ég ekki að gera og tel að þær tölur sem ég hef nefnt hér gefi nokkuð skýra vísbendingu um þann fjölda sem verður á þeim aldri, á hverjum tíma, sem þeir þurfa að huga að einhverjum úrræðum vegna síðustu ára sinna í jarðlífinu.
Fyrir þá 239 sem voru 70 ára eða eldri þann 1. janúar 2013 sýnist mér að þessi úrræði séu fyrir hendi þegar að þeim tíma kemur, að fólk þarf meiri þjónustu vegna aldurs:
Bláskógabyggð: 12 íbúðir (4 á Laugarvatni og 8 í Reykholti).
Hrunamannahreppur: 6 íbúðir
Skeiða- og Gnúpverjahreppur: 4 hjúkrunarrými og 8 dvalarrými.
Þegar þetta allt er talið saman sé ég ekki betur en það sé pláss fyrir, að hámarki (miðað við að 2 séu hverri íbúð, sem ekki er endilega raunin) 44 einstaklinga sem ekki þurfa á stöðugri hjúkrun eða umönnun að halda og 4 sem þurfa að njóta stöðugrar hjúkrunar. Þar með eiga 48 einstaklingar, að hámarki, kost á þjónustu í til þess ætluðu húsnæði.
Sem betur fer eiga margir þess kost að dvelja heima hjá sér æviloka, annað hvort vegna þess að þeir halda góðri heilsu til síðasta dags, eða þá að þeir eiga kost á umönnun fjölskyldu sinnar og/eða starfsmanna á vegum velferðarþjónustu. Aðrir eiga það ekki.
Íbúar uppsveitanna sem þurfa meiri þjónustu en hægt er að veita heima við, þurfa nú margir að flytja á dvalar- eða hjúkrunarheimili utan síns heimasvæðis. Þar getur verið um að ræða Selfoss, Hveragerði, Stokkseyri, Eyrarbakka, Hellu, Hvolsvöll og jafnvel Vík eða Kirkjubæjarklaustur.
Fyrir nokkru skrifaði ég pistla hér og hér þar sem ég benti á fyrrverandi sláturhúsið í Laugarási sem heppilegan stað til að setja á stofn heimili af þessu tagi. Ég ætla svo sem ekki að endurtaka þá pistla hér, heldur halda aðeins áfram með málið, en ég hef engin viðbrögð fengið við þegar skrifuðum pistlum, enda kannski ekki von með þann fjölda lesenda sem ég hef hér.
Það svæði sem er skyggt með rauðu er umrætt land. það hallar lítillega í átt að Hvítá og við blasir Hvítárbrúin, Vörðufell, Hestfjall og jafnvel Ingólfsfjall. Í nokkurra metra fjarlægð er síðan Heilsugæslustöðin. Mér finnst að það sé alveg kominn tími til að hreyfa aftur við hugmyndum um einhverskonar dvalarheimili fyrir aldraða í Laugarási. Slíkar hugmyndir voru langt komnar um miðjan 10. áratuginn: búið að teikna byggingar, skipuleggja svæði og byggja sýningarhús, sem nú stendur í Vesturbyggð 4. Ég veit ekki nákvæmlega á hverju steytti þá, en tal að þar hafi sundurlyndisfjandinn verið á ferð. Nú sjá menn hverju hann fær áorkað. Lítið hefur þokast í þessum málum hér í uppsveitum síðan.
Hér til vinstri er úrklippa úr Litla-Bergþór frá 1994 þar sem fjallað var um þjónustuíbúaðakjarnann sem fyrirhugaður var. Vissulega voru þarna á ferð aðrar hugmyndir en ég er að ræða hér, en einhver stærstu rökin sem fram voru færð snérust um nálægðina við heilsugæsluna.
Íbúðakjarnanum var ætlaður staður þar sem RKÍ rak sumardvalarheimili fyrir börn á sjötta og sjöunda áratugnum. Hér til hægri má sjá loftmynd þar sem heimilið er merkt með rauðu, þjóðvegurinn með gulu og Hvítá með ljósbláu.
Hér til vinstri er það land sem RKÍ hafði fyrir barnaheimilið. Það er í skjólgóðri kvos með afar gott útsýni yfir Hvítá í átt að Vörðufelli, Hestfjalli og fleiri fjöllum í fjarska. Fyrir framan þetta land er Dýragarðurinn Slakki, þar sem er líf og fjör.
Þriðji möguleikinn á lóð fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási er að finna fyrir norðan heilsugæslustöðina. Ég sýni það á myndinni hér til hægri..
Svo held ég áfram næst.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)
Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...
-
Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...
-
Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fól...
-
Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972. Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson, Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli