22 febrúar, 2014

"'Ég er ekki morðingi í mér...."

Ég heyrði í vinkonu okkar Kvisthyltinga áðan. Hún er á áttræðisaldri.
"Veist þú hvort á að gera eitthvað?  Nú er tími til að fara á Austurvöll og berja á pottlok!"
Ég varð dálítið hvumsa við þau orð sem hún lét falla um stjórnmálaástandið þessar vikurnar í framhaldi af þessu.
"Ég er með hnút í maganum á hverjum degi af kvíða yfir því hvað gerist næst."

Ég get auðvitað tekið undir þær áhyggjus sem hún lét í ljósi. Ég get viðurkennt, að í hvert sinn sem ég lendi í því að þurfa að hlusta á málflutning þeirra sem ráða stærstu málum í landinu, þá fæ ég hnút í magann. Þennan hnút tel ég vera til kominn vegna þess að:
- mér finnst málflutningurinn einkennast af einstrengingslegri en stórlega misskilinni þjóðrembu.
- mér finnst sú stefna sem boðuð er í stórum málum gangi þvert gegn því sem getur talist skynsamlegt.
- mér blöskrar hvernig það fólk sem ég þó tel búa yfir nokkurri skynsemi innan stjórnarflokkanna tveggja, lætur gapuxana vaða yfir sig.
- mér er misboðið sem kjósanda þar sem sigurvegarar í kosningunum líta svo á að þeir hafi verið kjörnir fyrir eitthvað annað en raunin var.
- ég óttast að í krafti þess valds sem þjóðin færði stjórnarflokkunum muni verða teknar ákvarðanir sem munu hafa alvarlegar afleiðingar.
- mér finnst nokkrar helstu málpípur meirihlutans á Alþingi, skorta vitsmuni til að fást við þau mikilvægu og alvarlegu verkefni sem þeim eru falin.

Það er óþægilegt að vera með hnút í maganum dag eftir dag. Það verður samt ekki umflúið og það ber að þakka þjóðinni fyrir það. Einhver myndi segja að hún hafi fengið þá stjórn yfir sig hún vildi og sem lýsir því hvernig hún er.

Það eru að hefjast hreinsanir, það litla gagnsæi stjórnsýslunnar sem var, er að hverfa, landið stefnir í að einangrast frá nágrannaþjóðum.


Var einhver að tala um pottlok?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...