Í stofu D2-106 var samankominn um 30 manna hópur til að fylgjast með vörninni, bæði fulltrúar fjölskyldnanna sem standa að doktorsefninu og fyrrum og núverandi kollegar hans auk einhverra nema í þeim fræðum sem þarna er um að ræða.
Áður en athöfnin hófst setti yngsti Kvisthyltingurinn, sá sem hefur menntað sig í miðlun, upp samband við internetið, sem olli því auðvitað að áhugasamir gátu fylgst með öllu sem fram fór.
Svo hófst athöfnin með því að Thomas Graven-Nielsen, prófessor, sem hélt utan um athöfnina, bauð fólk velkomið og greindi frá því sem þarna myndi fara fram. Hann kynnti til sögunnar andmælendur eða matsnefnd, þau Dr. Lieven Danneels frá háskólanum í Ghent í Belgíu og Dr. Britt Stuge frá Háskólasjúkrahúsinu í Osló og formann hópsins Parisa Gazerani, dósent, frá Álaborgarháskóla.
Þessu næst hófst 45 mín. fyrirlestur Þorvaldar, sem var skreyttur með viðeigandi glærum.
Að loknu stuttu hléi tóku andmælendur til máls, fyrst Dr. Britt Stuge. Hún fór yfir ýmsa þætti í verkefninu með gagnrýnum hætti og kallaði eftir svörum og útskýringum, en þetta fór þannig fram að hún talaði úr sæti sínu en Þorvaldur stóð berskjaldaður og þurfti að bregðast við athugasemdum og spurningum.
"Hér stend ég og get ekki annað" |
Formaður nefndarinnar tilkynnir niðurstöðu nefndarinnar. Fv. Parisa Gazerani, Dr. Britt Stuge, Dr. Lieven Danneels |
Þessu næst setti Professor Thomas þennan undarlega hatt á höfuð Þorvaldar (setti hann ekki rétt á, nema það sé svona sem Danir setja svona hatta á fólk) og íklæddi hann svarta skikkju. Hann flutti síðan ávarp, en hann var leiðbeinandi Þorvaldar í doktorsverkefninu.
Þá gerðu gestirnir veitingum góð skil áður en heim var haldið.
Þarna var hápunktur langs ferils sem hófst í raun með meistaranámi í Perth í Ástralíu og síðar í Osló.
Það sem ekki síst gerði Þorvaldi kleift að vinna að þessu verkefni var ríkulegur styrkur sem hann fékk árið 2012 frá frændum okkar Dönum, en hann kallast EliteForsk rejsestipendium. Þorvaldur hlaut þennan styrk fyrstur Íslendinga og fyrstur sjúkraþjálfara í Danmörku.
Ég þarf væntanlega ekkert að fjölyrða um það, en við foreldrarnir og fjölskyldan öll erum afar stolt af okkar manni og einnig stoð hans og styttu í gegnum þetta, henni Ástu Huldu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli