26 ágúst, 2018

Að efna í aldarminningu (2)

Þetta er framhald af: Að efna í aldarminningu (1)

Það er hægt að sjá fjölskylduna fyrir sér, leggja í hann þegar fór að hlýna, líklegast með einhvern bústofn, einn eða tvo hesta til að flytja búslóðina. Konan þunguð og tveir ungir synir.
Fjöllin í fjarska voru enn undir fönn eftir kaldan veturinn. Veðurfarið stefndi samt í eina átt, framundan hlýtt og sólríkt sumar í heiðinni.
Hafi ungu hjónin lagt í hann í grennd við fardaga vorið 1918 var veðrið eins og hér segir, svona um það bil:
2. maí: Öndvegistíð er á Austfjörðum og á Fljótsdalshéraði. — Farið að vinna á túnum. Árgæzka er nú um land alt. Borgfirðingar eystra hafa sleppt fé sínu, og er það sjaldgæft í þeirri snjóasveit, að það sé gert svo snemma.
8. maí: Tún hér í bæ og í grenndinni eru nú orðin græn og tré í görðum sumstaðar tekin að laufgast. Er það óvenju snemma, enda hefir ekki verið eins gott vor i manna minni sem nú.
30. maí:  Á Norður- og Vesturlandi er kvartað um hita og þurrka.
En svo skipti mjög til verri tíðar. Í júní var óhagstæð tíð lengst af. Fremur kalt. Einna verst varð um miðjan mánuð.  
Heimild blogg Trausta Jónssonar, veðurfræðings: Árið 1918 - hvernig var með veðrið eftir að frostunum lauk?


"Á ferðalagi uppi á Möðrudalsöræfum við eyðibýlið Rangalón."
Mynd: Guðmundur R. Jóhannsson, fengin af vef
Héraðsskjalasafns Austurlands.  Tekin upp úr 1960.
Upplýsingar benda til að kofinn sé leifar af
greiðasölu sem tveir ungir menn komu þarna fyrir. Reksturinn
gekk ekki vel og var honum hætt eftir 2 sumur.
Það er ekki gott að segja hvað bærðist í brjósti þeirra Magnúsar og Ingibjargar á leiðinni uppeftir. Voru þau undir það búin að búa þarna um lengri tíma? Hlökkuðu þau til, eða kviðu þau kannski þeirri óvissu sem beið þeirra? Eitt vissu þau fyrir víst: þetta yrði ekki auðvelt líf, jafnvel á þann mælikvarða sem beitt var á lífsgæði fólks á þeim tíma sem hér um ræðir. Þeirra beið þrotlaust strit og áhyggjur af að búa nægilega vel í haginn fyrir veturinn.

Þau komust, eins og nærri má geta, á leiðarenda. Dagleið á hestum er sögð vera 30-50 km og þá er líklega miðað við ríðandi fólk. Það má því reikna með að ferð hafi tekið í það minnsta tvo daga og þá haf þau sennilega gist á Jökuldal, en síðan lagt á heiðina daginn eftir.

Rangárlón sumarið 2012 Mynd: pms
Rangárlón stóð við þjóðbraut  við norðurenda Sænautavatns. Milli bæjarhúsanna og vatnsins lá leið fólks sem ferðaðist milli Austurlands og Norðurlands. Heiðin er í um 500 metra hæð yfir sjávarmál og um 60 km löng.
Þetta býli var byggt 70-80 árum fyrr, svo það má gera ráð fyrir að húsin hafi ekki verið í toppstandi, þó eigendur á hverjum tíma hafi unnið að ýmsum endurbótum og viðbótum, en eins og fram hefur komið áður stöldruðu flestir stutt við.
Í 1. bindi bókaflokksins Sveitir og jarðir í Múlaþingi, sem var gefið út 1974, segir um Rangárlón: 
Rangárlón
Rangárlón er nú í daglegu tali kallað Rangalón, en eldri heimildir vitna með hinu nafninu og er því þess vegna haldið hér.
Býlið byggðist 1844 og voru frumbyggjar Pétur, sonur Sögu-Guðmundar á Bessastöðum og Þorgerður Bjarnadóttir frá Staffelli, systir fyrstu húsfreyjunnar í Sænautaseli. Þau bjuggu á Rangárlóni til dauða Péturs 1851 og Þorgerður áfram til 1873.
Býlið stóð á norðurbakka Sænautavatns, í þjóðleið milli Möðrudals og Skjöldólfsstaða; eldri vegurinn lá milli vatnsins og rústanna; og átti land allt að eystri Möðrudalsfjallgarði.
Í F '18 (fasteignamat 1918) segir m.a. um Rangárlón:
"Túnið er talið 1 hektari (1) , harðlent, lítið ræktað og árlega háð sandfoki, en allt slétt. Hefur gefið af sér 10-12 hestburði (2). Engjar eru grasgefnar og greiðfærar, en mjög langsóttar og engjavegur slæmur. Gefa af sér nálega 200 hestburði, heyið hollt og gott til fóðurs. - Sumarhagar ágætir fyrir allan búpening og sérlega gott undir búsmala(3) . Vetrarbeit ágæt fyrir sauðfé meðan til nær, en landið snjóþungt og skjóllítið, svo útbeit notast yfirleitt illa. Silungsveiði töluverð til búdrýginda."
Ókostir eru m.a. taldir: " Engin mótekja né annað til eldsneyti, fremur hættusamt fyrir sauðfénað vor og haust og fannahætt."Vetrarfóður er talið að þurfi, fyrir kýr 32 hestburði, ær og lömb 1 1/2 og fyrir hross 10 hestburði (4).

Því má bæta við, að engjar voru aðallega í flóum (5) í Háfsvatnsdæld (Lónakílsdal) og er þaðan langur heybandsvegur (6) sem sjá má á korti.
Á Rangárlóni var 1918 þrískipt, alþiljuð þrepbaðstofa (7) með reisifjöl (8)

11x15 álnir (9), skemma búr, eldhús og fjós og 2 fjárhús fyrir 105 kindur.

Fór í eyði 1924.
Rangárlón sumar 2012 Mynd: pms

Orðskýringar: 
1. 1 hektari = 10.000 m²
2. hestburður telst um 100 kg.
3. búsmali eru mjólkandi ær og kýr
4. hey til vetrarfóðurs á Rangárlóni var því mögulega 210 hestburðir sem myndi duga um 6 kúm eða 140 fjár eða 21 hrossi eða einhverri blöndu af þessu. Ef Magnús og Ingibjörg voru til dæmis með 2 kýr og eitt hross, gátu þau fóðrað 90 ær og lömb yfir veturinn.
5. flói er slétt mýrlendi.
6. heybandsvegur er leiðin frá engjum til hlöðu eða heystæðis.
7. þrepbaðstofa - ég mun útskýra hverskonar baðstofu er hér um að ræða þegar ég hef öðlast nægilegan skilning á þessu fyrirbæri.  Baðstofur af þessari gerð voru oftar á smærri býlum og voru einnig kallaðar pallbaðstofur eða bekkbaðstofur.
8. reisifjöl  "Hitt var þó algengast, að langbönd væru negld utan á sperrurnar eftir endilöngu húsinu, þar utan yfir, á langböndin, fjalir upp og niður. Kallað var, að baðstofur, sem á þenna hátt voru viðraðar, væru með reisifjöl eða byggðar undir reisifjöl" – heimild: Einu sinni var I-III. Höfundur: Sæmundur Dúason Útgáfuár: 1966-1971
9. alin, í fleitölu álnir voru 62,7 cm.  Baðstofan á  Rangárlóni hefur því verið um það bil 7 x 9,5 m, eða 67 m².

Spennandi tímar
Þar með hófst fjögurra ára dvöl þeirra Magnúsar og Ingibjargar á Rangárlóni. Hér er ekki ætlunin að fara að reyna að lýsa lífi þeirra þarna, bara gert ráð fyrir að skipst hafi á skin og skúrir og lífið misauðvelt, meira erfitt en auðvelt.
Sumarið 1918 leið og það tók að hausta. Framundan var fæðing þriðja barnsins (fjórða, réttara sagt þar sem hið fyrsta hafði fæðst andvana). Það gat farið allavega, en foreldrarnir fundu til nokkurs öryggis af því að vita af því á í Veturhúsum bjó ljósmóðir á þessum tíma, Anna Magnúsdóttir (1893-1967) frá Hjarðarhaga ásamt manni sínum og tveggja ára syni. Þau höfðu misst dóttur sem fæddist 1917. Í Veturhúsum bjuggu þau til 1921. Þó talað sé um að Anna hafi verið ljósmóðir er ekki víst að hún hafi hlotið verulega menntun sem slík. Ekki liggur fyrir við þessi skrif, hvað þurfti til, á þessum tíma, til að kallast ljósmóðir. Einhvern veginn er það frekar ótrúverðugt að menntuð ljósmóðir setjist að uppi í Jökuldalsheiði.
Það var kalt í veðri í lok september og vetrarkuldar: Kuldinn hélt áfram og þann 26. festi snjó í Reykjavík og ökklasnjór sagður í Mosfellssveit. Skeiðaréttum var frestað vegna tafa við smölun. Fé sagt hafa fennt. (Morgunblaðið), segir í bloggi Trausta Jónssonar.

Í Ísafold 28. september, segir um veðrið: Kuldatíð mikil sí og æ. Snjór niður að sjó um míðja viku. Óefnilegar horfur. 
Í blaðinu Fréttir segir um veðrið þann 30. september: Veðrið er mildara í dag. Hiti víðast hvar á landinu í morgun 2—4 stig og hægviðri, en ekki heiðskírt nema á Ísafirði. 
Ekki kom út blað þann 29. september, enda bar þann dag upp á sunnudag.

Þriðji sonurinn, Skúli
Við verðum að gera ráð fyrir að einhver aðdragandi hafi verið að fæðingunni og að Magnús hafi skotist þessa 8-10 km. leið yfir að Veturhúsum og hafi síðan komið til baka með ljósmóðurina. Heima beið Ingibjörg, farin að fá verki, ásamt sonunum tveim Alfreð (4) og Haraldi (2).  Það eru víst engir til frásagnar um fæðingu sveinsins á Rangárlóni 29. september, 1918 og hér verður ekki reynt að fara út í miklar spekúlasjónir, heldur vísað til margra frásagna um fæðingar á afskekktum stöðum gegnum aldirnar. Um þyngd piltsins eða lengd verður heldur ekki fjölyrt, enda engar skrár til um slíkt. Það sem vitað er, er það, að hann fæddist á þessum tiltekna degi, þetta tiltekna ár og vetur fór í hönd. Ætli við gerum ekki ráð fyrir að einhverntíma þegar vel  viðraði hafi pilturinn, að kristinna manna sið verið skírður. Þar hlaut hann nafnið Skúli, Skúli Magnússon, sem átti eftir að koma sér í hóp elstu manna áður en hann hyrfi aftur til moldar.

Fyrsta dóttirin, Björg
Hvað um það, veturinn leið, vorið kom og sumarið og barn í vændum. Í lok nóvember þetta ár kom næsta barn, Björg, í heiminn, líklega einnig með aðstoð ljósmóðurinnar á Veturhúsum
Næstelsti sonurinn Haraldur var heilsuveill í æsku og dvaldi hjá ömmu sinni, Ljósbjörgu, á Freyshólum, seinni tvö árin sem fjölskyldan bjó í heiðinni. Í það minnsta var hann skráður hjá henni sem "tökubarn" árin 1920 og 1921.

Önnur dóttirin, Sigfríður
Eftir fæðingu Bjargar varð tveggja ára hlé á barneignum á Rangárlóni, nema einhver önnur hafi verið raunin, en eins og flestum má ljóst vera, var hreint ekki víst að þau börn sem fæddust, lifðu af. Allavega fæddist stúlka á Rangárlóni upp úr miðjum september, haustið 1921. Hún hlaut nafnið Sigfríður, en að öllum líkindum var hún ekki skírð fyrr en fjölskyldan flutti aftur niður í byggð, sennilegast vorið 1922. Sigfríðar er allaveg ekki getið í  "mínisterbók" Hofteigsprestakalls, sem Rangárlón tilheyrði.

Sænautasel við sunnanvert Sænautavatn, sumarið 2012: Mynd: pms
Til byggða á ný
Já, sem sagt, flest bendir til, í það minnsta þangað til annað kemur í ljós, að fjölskyldan hafi tekið sig upp og flutt í Freyshóla vorið 1922.  Ekki virðast þau haf séð framtíð sína í Jökuldalsheiði með fimm börn  Alfreð (7), Harald (5) Skúla (3), Björgu (2) og Sigfríði nýfædda.
Ekki hafa fundist upplýsingar um það, hversvegna þau komu aftur í Freyshóla. Hvað hafði breyst þar?  Þess verður freistað að leita svara við því næst.

Samhengi?
Nútímamaðurinn leggur oft mat á liðinn tíma gegnum gleraugu nútímans og á erfitt með að setja sig í spor forfeðranna eða skilja bara yfirleitt hvernig fólk fór að þvi að lifa af við þær aðstæður sem það bjó við.
Bragi Sigurjónsson samdi kvæðið „Við Rangárlón í Jökuldalsheiði", sem varpar nokkru ljósi á líf fóksins sem freistaði þess að eiga sér líf á heiðarbýli eins og Rangárlóni. Ætli megi ekki segja að hann hafi skynjað nokkuð vel ævi þessa fólks og örlög.

Við Rangárlón í Jökuldalsheiði

Septemberdagur. Sumarlok á Fróni. 
Sólbleikur himinn. Lyngrauð heiði Dals. 
Tíbráin dansar, tekur spor í vals, 
tangó og samba yfir Rangárlóni. 

Rústir á bakka. Rofinn vörzlugarður. 
Ríslar þar lind við hruninn fjárhúsvegg, 
Skín þar í rofi á skininn sauðarlegg, 
skýlaus er jarteikn, hver varð bóndans arður. 

Ókunni bróðir, einyrki á heiði, 
ósigur þinn er skráður hér í svörð; 
þú hlauzt að tapa búi, bæ og jörð, 
báti af vatni, kostasilungsveiði. 

Samt fórstu héðan sæmdur hetjumerki, 
sjálfsvirðing þinni hélzt til efsta dags. 
Hjarta þitt trútt og heitt til sólarlags, 
heilsteyptur ættlands son í gæzluverki. 

Nú þykir mest um stundaheill og hagi,

heimslánið best, en fátt um gæzlustörf,
gamalla dyggða gerist engum þörf,
genginna reynsla þung í eftirdragi.

Gullsólgna þjóð við gömul afreksminni, 
gætirðu búið sátt við örlög slík 
að vera fátæk, þegar þú ert rík, 
þú sem varst áður rík í fátækt þinni? 

Septemberaftann. Sumarlok á Fróni.

Sólin er hnigin. Rökkur hylur fjöll.
Döggfallið sporrækt þekur hlíðarhöll.
Himbrimar kveina úti á Rangárlóni.

Bragi Sigurjónsson (Undir Svörtuloftum, 1954)

Engin ummæli:

Ein(n) heima

Fólkið á myndinni er sannarlega sprækt, en óþekkt að öðru leyti. Ég fæ það stöðugt á tilfinninguna, að fólks, sem hefur yfirgefið vinnumarka...