29 september, 2018

Að efna í aldarminningu (7) - lok

Á þessum degi, 29. september, 2018, eru 100 ár frá fæðingu Skúla Magnússonar í Hveratúni. 

Þegar þessari frásögn lauk síðast, var Hveratúnsfjölskyldan búin að sprengja utan af sér "gamla bæinn" og hafin bygging á nýju húsi sem var 140 m², eða 80 m² stærra.
Svo hélt lífið áfram og úr þessu fór því fólki fækkandi sem þurfti húsakjól í Hveratúni. Ætli elsta barnið hafi ekki farið í Skógaskóla um 1962, það næsta á Laugarvatn 1964, afinn á bænum, Magnús lést í byrjun árs 1965.
Þetta er gömul saga og ný: þegar fólk hefur loksins náð efnalegri getu til að komast í hæfilega stórt húsnæði fyrir fjölskylduna, fer að fækka. Eldra fólk í of stóru húsi, er niðurstaðan.
Um 1970 voru Skúli og Guðný í Hveratúni með tvo syni heima á vetrum, sem enn voru í grunnskóla, en skammt í að þeir hyrfu einnig til vetrardvalar fjarri heimilinu.

Árin liðu og Hveratún styrktist í efnalegu tilliti og snemma á níunda áratugnum kom yngsti sonurinn til liðs við foreldrana og tók svo við þegar sá tími kom.

Nýi bærinn í Hveratúni sumarið 1961 (Mynd frá Ástu)
Þetta á að heita aldarminning um föður minn, Skúla Magnússon í Hveratúni, en ekki saga fjölskyldunnar í Hveratúni. Þetta tvennt er þó eðli máls samkvæmt, afskaplega samtvinnað og það getur verið snúið að fylgja aðeins einum þræði þar sem margir eru ofnir saman í einn streng. Ég tek því á það ráð, að reyna að losa um þráðinn sem er Skúli til að skoða hann sjálfan, persónuna sem hann var, jarðveginn sem hann nærðist á og það sem hann bardúsaði fyrir utan að vera samofinn hinum einstaklingunum í fjölskyldunni.

Hver var hann svo, þessi Skúli Magnússon, sem fæddist í Jökuldalsheiðinni - líklega afsprengi frostavetursins mikla - hálfum mánuði áður en Kötlugosið hófst, tæpum mánuði áður en spánska veikin tók að herja á Íslendinga og einum og hálfum mánuði áður en fyrri heimstyrjöld lauk?
Var þessi piltur ef til vill fyrirboði þessara stóru atburða?
Þegar stór er spurt.

Sauðfé var hluti af bústofninum, F.v Ásta, Páll, Sigrún. 
Jú, hann er sonur fólks sem ekki var mulið undir, engin silfurskeið á þeim bæ. Þar er grunnurinn. Ræturnar liggja í þeim jarðvegi sem nærði smábændur á Fljótsdalshéraði. Nægjusemi var nestið sem hann tók með sér í fóstur til kennaranna Sigrúnar og Benedikts á Hallormsstað.

Fjórðungi bregður til fósturs, segir í Njáls sögu, en það merkir, að sá sem elur upp barn mótar það eftir sínu skaplyndi að einum fjórða, þrír fjórðu eru erfðir og ýmsar aðstæður. Hér verður ekkert fullyrt um þetta, en ætla má að það umhverfi sem Skúli komst í á Hallormsstað, hafi breytt, ekki aðeins umhverfinu, heldur einnig viðhorfum hans og sýn á tilveruna. Þar komst hann inn í heim þar sem menntun og menning var höfð í hávegum og heim þar sem fólk átti ekki allt sitt undir veðri og vindum.  Hann var sendur í skóla. Þó ekki væri um langskólanám að ræða, var skólagangan meiri en margra annarra á þessum tíma.
Ætli megi ekki segja að það hafa síðan orðið nokkurskonar leiðarstef í lifi hans að bera virðingu fyrir og skilja erfiða lífsbaráttu og menntun sem grunninn að því að verða sjálfstæður einstaklingur.

Ef við gefum okkur nú að Skúli hafi mótast með þeim hætti sem hér hefur verið tæpt á, hvernig birtist það svo í líf hans síðar?

Ég byrja á að segja þetta:
Skúli var stefnufastur framsóknarmaður og grallari, sem fór sínar eigin leiðir.
Svo reyni ég að rökstyðja þessa fullyrðingu af veikum mætti.

1. Stefnufastur. 
Hann gekkst dálítið upp í því að halda sig við þá stefnu sem hann hafði markað sér og sínum, jafnvel þó svo gild rök gætu verið fyrir því að önnur stefna væri líkast til betri og árangursríkari. Hann þertók fyrir að þetta persónueinkenni hans mætti kalla "þrjósku". Stefnufesta var það og hún átti ekkert skylt við þrjósku. Þetta einkenni á Skúla birtist afar skýrt í framsóknarmennskunni.

2. Framsóknarmaður. 
"Hetja" Skúla á þessu sviði var Eysteinn Jónsson.
Tíminn kom í póstkassann alla tíð, hvort sem það var með mjólkurbílnum einu sinni í viku, í bunkum, eða daglega, svo lengi sem hann var gefinn út undir þessu nafni.
Við vörubíl(inn)
Það voru aldrei, keyptar vörur til heimilisins nema í KÁ eða hjá Sambandinu og það var aldrei keypt eldsneyti á bíla nema hjá Esso. Þetta tók eitthvað að riðlast, að vísu eftir að eignarhaldið á þessum fyrirtækjum fór út um víðan völl með tiheyrandi nafnabreytingum.
Þessi skoðanastefnufesta gekk svo langt, að síðustu árin, þegar arftakar Eysteins höfðu leitt flokkinn út fyrir allt velsæmi, hélt hann samt áfram að verja flokkinn sinn, þó svo vörnin væri engin. Það var þá sem hann fór að leyfa grallaralegu glottinu að fylgja varnarræðum sínum. Þá vissi maður að hann var genginn af trúnni og það kom reyndar í ljós í samtölum, að hann var framsóknarmaðurinn sem vildi að flokkurinn væri sá sem hann var í árdaga. Steingrímur var síðasti formaður hins sanna Framsóknarflokks.

3. Grallari
Ekki er ég viss um að þetta orð "grallari" nái alveg því sem átt er við. Skúli naut þess að vera ósammála viðmælendum sínum, bar fram mótbárur við skoðunum viðmælandans og setti fram sína eigin, jafnvel þó svo þær stönguðust á við eigin skoðanir á þeim málefnum sem um var að ræða. Þegar hann var í þessum ham gerði hann sitt ýtrasta til að halda andlitinu, en það tókst misvel. Grallaralegt glottið sem falið skyldi vera, hreyfði oftast örlítið við andlitinu.

4. Fór sínar eigin leiðir.
Höfundur aftan á Landróvernum,
sennilega frekar þeim brúna en þeim bláa.
Dag nokkurn, sennilega í kringum 1960 þurfti Skúli að skreppa til Reykjavíkur í einhverjum erindagerðum. Fór líklegast með mjólkurbílnum eða grænmetisbílnum. Á þessum tíma hafði ekki verið bíll í Hveratúni frá því vörubíllinn var og hét. Um þennan vörubíl veit ég reyndar ekkert, en hef frétt af honum og séð hann á mynd.
Hvað um það, Skúli sneri til baka úr höfuðborginni á Landrover bensín, ljósbrúnum eða drapplitum, nýjum úr kassanum. Ekkert vissum við, ungviðið á bænum um að til stæði að kaupa Landrover, en það sem meira var, bifreiðakaupin komu frú Guðnýju Pálsdóttur einnig í opna skjöldu.
Þetta einkenni á Skúla fylgdi honum fram á síðustu ár. Meðan hann enn ók bíl, átti hann það jafnvel til að aka út í buskann án þess að láta kóng eða prest vita, en þar kom að hann þurfti að sætta sig við að það sem áður var hægt gekk ekki lengur. Það var hinsvegar fjarri honum að viðurkenna fylgifiska ellinnar fyrir nokkrum manni. Um slíkt ræddi hann ekki.
---
Þar sem hann lifði og hrærðist einn í húsinu sínu í Hveratúni síðustu árin, þótti við hæfi að hann fengi öryggishnapp ef eitthvað kæmi upp á. Þetta fannst honum hin mesta  vitleysa og spurði hvernig hann ætti að fara að því að ýta á þennan hnapp ef hann dytti nú niður dauður.  Hann fékkst þó til að bera hnappinn, aðallega til að friða umhverfið.

Þegar á leið leitaði hugurinn æ oftar austur á land til þess tíma sem hann var á Hallormsstað og það stóðu upp úr honum vísurnar sem hann hafði lært sem barn og ungur maður. Þetta voru yfirleitt kersknisvísur svokallaðar, eða fyndnar, sem sagt.  Hann fór með þær aftur og aftur þar til maður lærði og alltaf hló hann jafn dátt þegar búið var að fara með vísu af þessu tagi. Ég tek hér  tvær vísur af þessu tagi sem dæmi:

Einu sinni var bóndi austur á Héraði og var honum illa við prestinn. Hann orti um klerk þessa vísu:
 
Mikið er hvað margir lof´ann 
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.


Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims.
Nú er að segja frá því að í sveitinni var annar bóndi og líkaði honum einnig illa við prestinn. Hann heyrði vísuna og einsetti sér að læra hana utanbókar. Eftir tæp þrjú ár taldi hann sig vera kominn með þetta og fór svona með hana, heldur rogginn:
 
2013 á Lundi. Þarna gæti hann verið að fara með
vísuna um skollabuxurnar

Mikið er hvað margir lof ´ann
að ofan
menn sem aldrei hafa séð´ann
að neðan.


Flutningi á þessari vísu fylgdi síðan skellihlátur allra viðstaddra.


Það kom fyrir að hlé varð á samræðum um stund, en þá kom þessi vísa oftar en ekki:

Svona' er það við sjóinn víða
sama gerist upp til hlíða

Oft lét hann þetta nægja en framhaldið kom þó einnig stundum:

sveinn og meyja saman skríða
segjast elskast jafnt og þétt -
hvað er auðvitað alveg rétt.
Í hjónabandi' að lifa´og líða
uns lausakaupamet er sett.

---
Þetta fer nú sennilega að verða gott um föður minn, sem ávallt reyndist mér og mínum vel. Aldrei fólst það þó í því að hann fjallaði um tilfinningar eða hefði frammi mörg orð. Hann var maður sem brást við með aðgerðum þegar á þurfti að halda, þurfti ekkert að ræða það neitt sérstaklega. 

Níræður með börnum og tengdabörnum.

Það má segja að lífið hafi farið vel með hann í flestu, en sannarlega þurfti hann að takst á við erfiðleika á lifsleiðinni, þó ég telji nú að hann hafi verið tiltölulega heppinn með börn (hvað sem aðrir kunna að segja um það). 
Sennilega hefur það tekið einna mest á hann að missa lífsförunautinn í desember 1992. Hann tjáði sig hinsvegar ekki um það, við mig í það minnsta. Geymdi söknuð og sorg með sjálfum sér og lifði fram í háa elli. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu þann 5. ágúst 2014, að verða 96 ára.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...