Á Skalla þessu sinni var hópur pilta á framhaldsskólaaldri og mér skildist á tali þeirra að þeir væru í Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Ég fékk minn hamborgara og hóf að neyta hans svona eins og gengur og gerist, en heyrði, meðan nautakjötið og frönsku kartöflurnar lögðu leið sína "upp í munn og oní maga", samræður piltanna í þessum hópi. Þeir fjölluðu um nám sitt í neikvæðum tóni og virtust gangast talsvert upp í að segja hver öðrum frá því hvað hitt og þetta væri nú ömurlega leiðinlegt. Hvort sú var síðan raunin er auðvitað annað mál.
Þar kom að einn þeirra kvað upp úr með: "Viljiði sjá stundatöfluna mína? Hún er sko skrautleg!" Svo virðist hann hafa dregið fram umrædda stundatöflu, en þar sem ég snéri baki í hópinn, þar sem ég gerði máltíð minni skil, sá ég ekki þessa skrautlegu stundatöflu. Hópurinn rak upp heilmikinn hlátur og einn þeirra sagði: "Það er bara eiginlega ekkert á henni!" Stundatöflueigandinn greindi í framhaldinu fullum hálsi frá því hvað allir þessir áfangar sem hann hafði verið skráður í, hefðu verið ömurlega leiðinlegir og hann væri dauðfeginn að vera búinn að segja sig úr þeim.
Það var ekki fjallað um hvað síðan tæki við.
Það fylgdi ekki sögunni hvernig líðanin með þessa stöðu væri í raun og veru.
Jú, ég lauk við hamborgararnn minn og annað sem honum fylgdi, hugsi. Strákarnir héldu áfram að reyna að toppa hver annan í lýsingum sínum á þessu glataða lífi sem fólst í að sækja nám í framhaldsskóla.
"Ég er kominn með 30 fjarvistir!"
Ég hefði getað staðið á fætur og reynt að biðja þessa ungu pilta að setjast nú niður í rólegheitum með sjálfum sér og velta fyrir sér lífi sínu eftir 10 ár, miðað við mismunandi forsendur, en ég gerði það ekki.
Hversvegna hefði ég svo sem átt að gera það?
Af manngæskunni einni saman?
Sem gamli kennarinn sem hokinn er af reynslu í þessum bransa?
Sem karlmaður, sem sér kynbræður sína í æ meira mæli flosna upp úr námi?
Hver hefði svo sem borgað mér fyrir þann tíma sem færi í það?
Nei, ég kyngdi síðasta bitanum af hamborgaranum, stóð upp og gekk á dyr. Horfði í leiðinni yfir þennan hóp sem ég hafði verið að hlusta á. Velti fyrir mér hvort tal þeirra um námið endurspeglaði raunveruleg viðhorf þeirra, eða hvort það væri ef til vill bara í nösunum á þeim. Þetta gat ég ekki vitað. Mögulega var þarna um að ræða einhverja pilta sem stóðu frammi fyrir enn einu tapinu í lífinu, einhverjum ókleifum vegg, þar sem uppgjöf virtist vera eini valkosturinn. Telja, að þegar svo sé komið sé best að reyna að gera gott úr því, taka því með karlmennsku, hvað sem það nú er. Kannski þeirri tegund karlmennskunnar sem gefur skít í. "Fokk it oll, bara!"
Ég gekk síðan út og settist inn í bíl, en ég var hugsi og er enn hugsi. Fannst þessi reynsla ekki til þess fallin og bæta meltinguna.
Hvað get ég svo sem gert? Ef ég færi að blanda mér í umræðu um skólamál, með þær skoðanir sem ég hef, yrði meðferðin á mér líkast til svipuð þeirri sem sálfræðingurinn fékk í DV í dag:
Stefán Sturla Svavarsson
Er þetta ein af þessum svokölluðum falsfréttum.
Halldóra Eyfjörð
Guð hvað ég vona að þetta sé grín annars er eitthvað mikið að hjá þessum sálfræðing
Birgir Kristbjörn Hauksson
Ég tek ofann fyrir Arnari að hafa kjark til að segja það sem mörgum býr í brjóst. Hér er á ferðinni risastór bleikur fíll sem allir snúa baki við og enginn vill kannast við.
Það verður fróðlegt að heyra röksemdir gegn þessu. Arnar er sérfræðingur á þessu sviði og hugreki hans er algjört að hætta sér í þessa ormagryfju þar sem Cult femínismi hefur hertekið alla umræðuna.
Kraki Johnson
Nenniði gömlu pungar að hætta að þykjast vera einhverskonar verndarar okkar kyns for fuck sake.
Ekki bað ég ykkur um það. Kveðja ungi Karlmaðurinn
Árný Margrét Agnarsdóttir
Þessi var greinilega ekki alinn upp konum með þessar ógeðslegu skoðanir.
Hallfriður Jóna Hauksdottir
Ég held að hann þurfi sálfræði hjálp
Trölla Konan
Arnar segir að karlkyns uppalendur séu því sem næst útdauðir.
Er maðurinn að reyna halda því fram að karlmenn hafi almennt séð um uppeldið á árum áður?
Ég setti í gang og skellti mér á pósthúsið og svo þurfti að kaupa íslenska papriku, og svo myndi lífið halda áfram.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli