21 nóvember, 2018

Fáránleiki

Fáránleiki er  eitt af þessum orðum sem er orðið merkingarlaust eftir að hafa verið misnotað um ýmislegt sem varla getur talist neitt sérlega fáranlegt. Þetta orð er þarna samt og ég ætla að leyfa mér að nota það um allan fjárann hér á eftir og leyfa lesandanum síðan að meta það, hvort um er að ræða viðeigandi notkun orðsins.


1. Það er fáránlegt ef ég kaupi poka af ísmolum í Bónus. Ísmolum sem búið er að flyta í frystigámi frá Bandaríkjunum.



2. Það er fáranlegt þegar ég, í verslunarferð í Krónuna, kaupi grísakjöt frá Spáni, þegar ég get fengið sýklalyfjalaust, íslenskt grískjöt frá bónda í næsta nágrenni við mig.
3. Það er fáránlegt þegar ég kaupi blandað salat í Nettó, sem ræktað er og unnið á Ítalíu, en skolað úr íslensku vatni  í stað þess að kaupa samskonar bakka með salati sem er ræktað í næsta húsi, algerlega laust við varnarefni.

4. Það er fáránlegt þegar ég kaupi tilbúinn fiskrétt frá Noregi í 10-11 þegar ég get keypt margfalt betri samskonar íslenskan fiskrétt.

5. Það er fáránlegt þegar ég á leið í Vínbúðina og kaupi rauðvínsflösku frá Chile eða Nýja Sjálandi. Fáránlegt vegna þeirrar vegalengdar sem þessi glerflaska hefur ferðast áður en vínið ratar í glasið mitt og glerflaskan, eins þung og hún er, lendir í maski í endurvinnslunni.

6. Það er fáránlegt að í íslenskum matvöruverslunum þurfi ávallt að vera til ávextir og grænmeti af öllum tegundum, allt árið. Látum vera með þetta helsta, sem ekki er ræktað hér á veturna, en það er fáránlegt, að kaupa grænmeti og ávexti frá Suðurálfu, sem fluttir hafa verið 15.000 km hingað norðureftir. Segðu mér að það sé ekki fáránlegt.

7. Það er fáránlegt þegar ég kaupi innflutt glingur til jólagjafa á sama tíma og ég get nálgast allt sem ég þarf í þessu efni, jafnvel í næsta herbergi.

Þessum fáránleika öllum þarf eiginlega að linna. Fyrir honum færa innflytjendurnir ýmis þau rök sem ganga í neytendur. Stundum eru rökin gild en í annan stað fáránleg. Já, ég nota áfram þetta margþvælda orð: fáránlegt.

Það er þetta með viðskiptafrelsið og alþjóðasamninga.
Við lifum á tímum þar sem það sem hægt er að gera telst mikilvægara en það sem þarf að gera. Okkur finnst að vegna þess að það er hægt að flytja inn ódýra ísmola frá Bandaríkjunum, þá skuli það gert og það telst vera réttur okkar.
Algengustu rökin fyrir fáránlegum innflutningi snúa að því, að það sem innflutt er, sé ódýrara. Oft er það rétt, en hvernig má það vera?
Hvernig getur kíló af rauðri papriku sem er flutt inn frá Spáni kostað 300 kr meðan sú íslenska kostar 900 kr.?
Hvernig getur staðið á því að poki með ísmolum frá Bandaríkjunum sé 40% ódýrari en samsvarandi poki sem framleiddur er á Íslandi?  Og, ef út í það er farið, hvernig getur mögulega staðið á því að innflutt vara, með öllum þeim áhrifum sem hún hefur á umhverfi okkar, sé ódýrari og oft miklu ódýrari en vara sem framleidd er hér á landi, með allri þeirri ódýru og hreinu orku og hreinu vatni sem við njótum?
Hvernig getur staðið á því?
Nokkrar tillögur, sem ef til vill þarf að skoða:

1. Við erum gráðug þjóð.  Góð og gild fullyrðing og líklega hægt að sannreyna í einhverjum tilvikum.
2. Við búum við hærri framleiðslukostnað vegna þess að við borgum betri laun og gerum betur við starfsfólkið okkar.  Vísast er þetta að einhverju leyti réttmæt fullyrðing, en er þetta á heildina litið svo?  Ég veit um Íslending sem sótti um vinnu, en fékk ekki, þar sem hægt var að fá innflutt vinnuafl að miklu hagstæðari kjörum (fyrir vinnuveitandann).
3. Ísland er bara á þannig stað á jörðinni, að framleiðsla hlýtur að kosta meira. Þetta á ekki síst við um ræktun grænmetis og ávaxta. Þessu verður varla á móti mælt.
4. Íslenskur markaður er svo lítill og því kostar framleiðsla á hverja einingu meira. Erfitt er að að mótmæla þessu. Það kostar að vera lítill og búa norður í Ballarhafi.
5. Milliliðir á Íslandi taka  óeðlilega mikið til sín. Þessu hefur löngum verið haldið fram og er rannsóknarefni.
6. Innfluttar vörur eru framleiddar fyrir margfalt stærri markaði og af margfalt ver launuðu vinnuafli (jafnvel börnum og þrælum).  Ég fjallaði um innflutning á grænmeti í fyrra og þá umfjöllun má lesa undir þessum hlekkjum:

Engisprettufaraldur  


Lifi frelsið - burt með siðferðið 


Þetta viljum við ekki vita.


Framundan er innflutningur á hráu kjöti. 
Dómur hefur verið kveðinn upp þar sem okkur er gert að leyfa slíkan innflutning.
Það er varað við afleiðingum þess.
Við vitum öll hvernig það fer.

Við búum í landi sem þannig er ástatt með, að við þurfum að flytja inn stóran hluta þess varnings sem við notum. Mér finnst að við ættum að gera það vel, vanda okkur.
Einbeitum okkur að því að framleiða íslenskar vörur og kaupa íslenskar vörur.  Það er gott fyrir okkur þegar upp er staðið og það er líka til þess fallið að auka líkur á að jörðin verði byggileg eitthvað áfram.
Þetta síðasta er sennilega of dramatískt, en hvað er dramatík, ef út í það er farið?

Ætli sé ekki rétt að láta staðar numið - í bili - og halda áfram með lífið í þessu leikhúsi fáránleikans.

Þar með er þessi blástur frá í tilgangsleysi sínu........ og fáránleika.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...