06 febrúar, 2018

Umboðsmaður málleysingja

Ég læt mér fátt óviðkomandi og hef reyndar áður fjallað um þetta málefni, en geri það aftur nú í tilefni af degi leikskólans.
Það er eins með alla þá sem ekki hafa mál til að tjá sig, eða þroska til að gefa skýrt til kynna vilja sinn eða þarfir. Þannig er það með smáfuglana sem bíða í trjánum á hverjum morgni og éta síðan af hjartans lyst allan daginn, ef þeir fá fóður. Þeir kunna ekki að þakka fyrir sig, þeir banka ekki á gluggann til að tilkynna að þeir séu svangir og vilji fá mat, þeir halda áfram að leita þó þeir séu búnir með allt. Loks hverfa þeir í náttstað og sjást ekki aftur fyrr en daginn eftir.  Ég spyr mig:
Hvað get ég gert betur til að þessir "litlu skrattar" lifi af veturinn og ali síðan af sér næstu kynslóðir til að gleðja mig.
Hvenær er nóg gefið, hvenær of mikið, hvenær of lítið?
Þeir geta ekki sagt mér það með öðrum hætti en þeim að flögrið verður léttara og tístið ef til vill glaðlegra þegar allt er í lagi.
Ég þarf að reyna að lesa í þarfir þeirra og það gengur svona og svona. Mögulega þarf ég að læra meira um eðli þessara litlu vina minna til að nálgast svörin.

Ómálga barn hefur eðli máls samkvæmt ekki mál eða þroska til að tjá vilja sinn eða þarfir. Það er samt mikið fjallað um börn í þessu samfélagi og þarfir barna. Við berjumst fyrir því að vel sé gert við börn.
Í rauninni erum við ekkert að því.
Við erum fyrst og fremst að berjast fyrir þörfum foreldra. Börnin hafa ekkert um málið að segja.  Börn hafa hinsvegar verið rannsökuð fram og til baka af vísindamönnum úr ýmsum geirum. Skyldu niðurstöður úr þeim rannsóknum benda ótvírætt til þess, að það sé börnum mikilvægt að dvelja utan heimilis í allt að níu klukkustundir á dag, í umsjá fólks sem er ofhlaðið vinnu? Skyldu niðurstöðurnar benda til þess að það sé örvandi, þroskandi og hollt fyrir börn að dvelja með jafnöldrum sínum á hverjum virkum degi í allt að níu klukkustundir? Börn á þessum aldri eru nú ekki hljóðlátustu verur sem fyrirfinnast. Er það hugsanlega þroskandi eða hollt fyrir velferð barna að eyða átta til níu tímum á dag í stöðugum klið?
Reynum að hugsa þetta mál út frá börnunum, en ekki foreldrunum. Breytum síðan samfélaginu þannig, að ómálga börn dvelji ekki á stofnunum meira en 5-6 tíma að hámarki á hverjum degi.
Þetta er samfélagslegt mál, sem brýnt er að taka á.

Það þarf að hlusta á það sem ómálga börn geta ekki sagt. Því er ég kominn á það stig að kalla eftir því að sett verði á fót embætti umboðsmanns ómálga barna.  Jú, það er til embætti umboðsmanns barna, en ég hef ekki heyrt af því að það embætti taki sérstaklega fyrir þau börn sem ekki hafa mál. Þau eru ofurseld því sem foreldrar þeirra telja þeim eða sjálfum sér fyrir bestu, og þeir taka þá jafnvel frekar mið af eigin þörfum en þörfum barnsins.

Ég er nú ekki alveg grænn gagnvart þessu og vil því fara varlega í að kenna foreldrum um þetta allt saman, en þeir eiga sannarlega sína sök, ekki kannski viljandi, heldur frekar vegna þess að þeir hreinlega vita ekki betur. Það fæðist enginn með þekkingu til að vera foreldri. Hvernig á fólk að læra það?
Foreldrar sem nú eru að sjá fyrir þörfum ómálga barna voru flestir sjálfir undir þá sök seldir að vera geymdir á dagvistunarstofnunum 40-50 klukkustundir á hverri viku. Fyrir þeim er þetta eðlilegt og sjálfsagt - jafnvel spurning um rétt frekar en þarfir.

Í mínum huga þurfa ómálga börn umhyggju foreldra sinna stærstan hluta sólarhringsins. Þau þurfa að fá að hlusta á foreldra sína tala við sig, segja sér sögur, lesa fyrir sig, segja sér til, kenna sér hvað rétt er og rangt, setja sér mörk, nota hnífapör og allt það annað sem rannsóknir vísindamanna hafa leitt í ljós að er þroskavænlegt fyrir börn.

Samfélagið á sannarlega sína sök, ekki hvað síst að því er varðar það umhverfi sem fólki með börn er búið. Annað hvort hefur raungildi tekna fólks verið að fara stöðugt minnkandi eða þá að kröfur til lífsgæða hafa tekið stökk upp á við.  Nú þurfa allir að vinna fulla  vinnu til að hafa í og á sig og fjölskylduna.  Þessu finnst mér þörf á að breyta. Fólk þarf að temja sér rólyndislegra líferni og afslappaðra. Meiri tekjur auka nefnilega ekki lífshamingjuna, gagnstætt því sem virðist viðtekin skoðun.

Við þurfum að stytta vinnuvikuna og mér finnst að það gæti verið góð hugmynd að greiða foreldrum úr einhverjum sjóði fyrir að stytta vinnudaginn gegn því að vera í samvistum við börn sín.  Þannig gætu foreldrar í mörgum tilvikum minnkað starfshlutfall sitt án þess að tekjur skertust.
Það eru börnin sem skipta máli í þessu og það eru um þau sem þetta á að snúast, en ekki foreldrana. Börn eru ekki einhver óæskilegur baggi á foreldrum sínum, heldur beinlínis tilgangur tilveru þeirra, hvorki meira né minna.

Ég skal fyrstur manna viðurkenna, að ég er á sjötugsaldri og þarf því ekkert að vera að pæla í þessu og það má alveg skella því framan í mig að ég viti ekkert hvað ég er að tala um. Það má alveg segja við mig að minn tími sé liðinn, nú séu aðrir tíma og þarfir barna öðruvísi. Það má jafnvel spyrja mig, með hneykslunartón, hvað ég vilji eiginlega upp á dekk.
Ég held hinsvegar að á hvaða öld sem er fæðumst við eins inn í þennan heim. Það sem við tekur er síðan í höndum foreldranna og samfélagsins.

Ég hef eytt starfsævinni í að fást við ungt fólk og tel mig harla heppinn að hafa fengið það. Ég hef hinsvegar oft hugsað miður fallega til foreldra sem hafa augjóslega veitt börnum sínum hörmulegar aðstæður fyrstu árin í lífi þeirra, með allskyns afleiðingum fyrir bæði samfélagið allt og fjölskylduna.

Breytum þessu, eða ætti ég kannski að segja: "Breytið þessu!"



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...