Í framhaldi af því hyggst ég freista þess að flokka fólk niður eftir nálgun þess að "litlu kvikindunum" eins og fD kallar þessa smáfugla oftast.
Hefst nú flokkunin:
1. Sá sem er ekki góður, lætur sem vind um eyru þjóta auglýsingar um að við skulum muna eftir smáfuglunum með því að fóðra þá í garðinum.
2. Sá sem segist vera góður, en er það ekki, hvetur fólk til að muna eftir smáfuglunum, en gerir ekkert í málinu sjálfur. Hann lítur svo á að hann sé búinn að senda frá sér skilaboð um gæsku sína með því að tjá sig um málið og fá kannski einhverja til að bregðast við. Þar með telur hann sig vera búnn að uppfylla kröfur um það sem telst að vera góður. Það er hann auðvitað ekki. Hann er bara búinn að lemja einhver orð á lyklaborðið.
3. Þetta er neðsta stig þess sem telst vera góð manneskja. Þessi kaupir eitthvert korn í Bónus án þess að velta fyrir sér hvort það hentar auðnutittlingum. Hendir því síðan einu sinni að morgni út á pall og lætur þar við sitja. Telur sig þar með vera búinn að sjá nægilega fyrir þörfum þessa fiðurfjár. Þarna skiptir hann engu máli hvort það er brunagaddur eða mígandi rigning, eða allt þar á milli. Hann fóðrar þessa fugla út frá SÍNUM forsendum og innan síns þægindaramma. Tekur jafnvel myndir af ræflunum rétt eftir að hann er búinn að henda korninu út, birtir síðan á samfélagsmiðli, nánast með skilaboðunum: "Sjáið hve góður ég er!"
4. Á þessu stigi er góða manneskjan farin að henda út fóðri tvisvar til þrisvar á dag. Jafnframt kíkir hún inn á Fuglavernd.is til að nálgast upplýsingar um hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Er búin að komast að því að bónuskornið er harla takmarkað, leitar uppi aðra aðila sem mögulega selja fuglafóður, og næst þegar hún á leið í kaupstað, jafnvel nokkrum dögum seinna, eykur hún fjölbreytni fóðursins með því að fara á fleiri staði. Nú er hún jafnvel farin að kaupa inn eftir vigt hjá Fóðurblöndunni og einnig farinn að fylgjast vel með birgðastöðunni á pallinum og bæta á eftir þörfum. Hún er þó ekki farin að huga að veðurfarslegum þáttum, þannig að úrkoma veldur því að síður er sett út fóður, enda hverfur það fljótt undir snjóinn, eða rignir niður og verður að mauki.
5. Auk þess sem getið er á fjórða stigi, er góða mannskjan nú búin að átta sig á því, að smáfuglarnir þurfa ekki síður fæðu þegar snjóar eða rignir. Þar með upphugsar hún leiðir til að skýla fóðrinu, og þá einnig litlu kvikindunum fyrir ofankomu. Þannig nýtir hún ef til vill garðbekk sem hún skellir masóníttplötu ofan á, vitandi að hún býr við aðstæður þar sem úrkoma fellur ávallt lóðrétt úr loftinu. Hún fylgist nákvæmlega með lífinu á pallinum og sér til þess að þar sé ávallt eitthvað að bíta og brenna. Stofuborðiið er nú orðið þakið pokum og fötum með fóðri og það er jafnvel svo komið, að þessi góða manneskja er farina að reyna að lesa í tístið til að átta sig á hvað mætti betur fara.
Auk þess sem að ofan er nefnt er þessi góða manneskja farin að gera sér sérstaka ferð í kaupstað til fóðurkaupa.
6. Þegar hér er komið, á efsta stig þess að vera góð manneskja, er litlu kvikindunum boðið húsnæði. Þannig yrði stofunni lokað og opnað út á pall. Fyrir innan væri komið fyrir fóðurstömpum og jafnvel brynningartækjum. Í tilvikum þar sem aðeins tveir einstaklingar búa í tiltölulega stóru einbýlishúsi, gæti hér verið um að ræða hina endanlegu lausn. Hástig manngæskunnar.
Þá er ég búinn að flokka fólk, með tilliti til gæða þess. Það skal skýrt tekið fram, að hér er um að ræða dæmisögu sem hægt er að beita hvar sem er í samfélaginu. Það eru allstaðar einhverjir sem eru aflögufærir og einhverjir sem þurfa.
Hvar ert þú á þessum skala?
Mér finnst líka nauðsynlegt að fram komi, að fD hefur hafnað hugmynd minni um að opna inn í stofuna og þar með verður bið á að ég ná hástigi manngæsku.
Loks, svona til að fyrirbyggja misskilning, þá er ég í rauninni ekkert sérstaklega góður - fell bara vel að þessum skala.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli