14 apríl, 2024

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

 

Framhald af þessu
Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan. Þarna voru þau í ókunnum bæ, seint um kvöld og ætluðu að leggja til atlögu við hugsanlega glæpamenn. Var þarna um að ræða fólk sem hafði verið þjálfað sérstaklega til að fara í töskur hjá fólki, á einhverri þjálfunarstöð stórglæpamanna, sem síðan hirtu stóran hlut afrakstursins? Voru þjófarnir bara lítil peð, sem þurftu að vinna fyrir sér, en nutu verndar vopnaðra mafíósa? Var þetta kerfi skipulagt með svipuðum hætti að það sem sólgleraugna- og töskusölufólkið vinnur eftir á sólaströndum? Voru hin tápmiklu tólf þarna að láta draga sig inn á stórhættulegar slóðir neðanjarðarstarfsemi, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum?

Það var margt sem fór í gegnum hugann þarna, og misjafnt eftir aldri. Sjálfsagt nutu þau elstu í hópnum þess að hafa þróað með sér talsverða yfirvegun þegar kom að svona málum. Um þau yngstu hríslaðist alveg ný tegund að spennu, sem nánast mátti jafna á við ofbeldisfyllstu tölvuleiki.  Þau nutu þess að vera þarna í hópi sér eldri sérfræðinga á ýmsum sviðum, þar með sérþjálfuðu rakningarfólki, sem gat auðveldlega fylgst með hve langt var í símann á hverjum tíma. 

Við ofangreindar aðstæður hófst leitin að síma og skilríkjum fD við nokkuð skuggalegar aðstæður. Fremstur í flokki fór rakningarmaðurinn, Egill, með síma á lofti, sem sýndi nákvæma staðsetningu merkisins frá símanum, sem enn var á sama stað og áður en hópurinn tókst á við flóttaherbergin. Í kjölfar hans komu síðan jafnaldrar hans og tveim skrefum á eftir þeim, þau yngstu í hópnum. Lestina ráku síðan þau elstu, ekki vegna þess að ótti þeirra við aðstæðurnar væri mestur, heldur einfaldlega til að tryggja að enginn í hópnum yrði viðskila við hin.  Svona lagði hópurinn af stað út í óvissuna um skuggaleg strætin.

Hin tápmiklu 12 unnu þarna út frá tveim mögulegum "sviðsmyndum": Annarsvegar, að þjófarnir hefðu einfaldlega hent símanum og skilríkunum frá sér, þegar í ljós kom að þeir hefðu engin not fyrir þau. Hinsvegar að þeir væru komnir til baka í greni sitt með ránsfeng kvöldins, dimmt subbulegt greni í bakhúsi, þar sem sátu nú með vopnuðum verndurunum og deildu með sér afrakstrinum. Sannarlega var það von hópsins, að hið fyrra væri raunin. Hið síðara myndi óhjákvæmilega kalla á að hringt yrði eftir aðstoð lögreglu. Nokkrir símar voru í viðbragðsstöðu ef til þess kæmi.

Það þarf líklega ekki að fjölyrða frekar um þær aðstæður sem þarna voru og því verður það ekki gert. Tápmikill hópurinn hélt af stað í áttina að merkinu sem síminn gaf. Það leið ekki á löngu áður en rakningarmaðurinn rétti upp vinstri handlegginn (hinn hélt á símanum) svona eins og maður sér í bíómyndum: "Stans/Halt! Þetta er inni í þessari götu!" og benti inn í drungalega göngugötu til vinstri. Rétt í því missti hann merkið frá síma fD og því var ekki um að ræða annað en halda inn götuna og leita.

Fljótlega kom hópurinn auga á ruslatunnu sem stóð í vinstri götukantinum og það varð úr að byrja leitina þar. Ruslatunnur í skuggalegum götum geta verið varasamar og því var farið að öllu með gát, tunnan opnuð og þar, ofan á plastpokum fullum af rusli, lágu kortin þrjú sem stolið hafði verið. Þetta olli því að nokkur fagnaðarbylgja fór um hópinn, sem þarna vann fyrsta sigurinn í þeirri umfangsmiklu leit sem stóð yfir.

Tunnan, eftir að Kvisthyltingar höfðu
leitað af sér allan grun í henni. (Mynd Ásta Hulda)



Kortin lágu efst í ruslatunnunni. 
Kortin sem um var að ræða voru, debetkort, ökuskírteini og 
félagskort í Félagi eldri borgara á Selfossi.


Fundur kortanna var vissulega fagnaðarefni, en enn bólaði ekkert á merki frá síma fD og því dreifði hópurinn sér um alla götuna og leitaði í lággróðrinum og raunar á öllum þeim stöðum þar sem mögulegt var að síminn gæti verið. Á þessu gekk talsverða stund.  Þá gerðist það skyndilega, að merki frá símanum birtist aftur og þar með þrengdist hringurinn enn frekar. Rakningarmaðurinn  gat sent merki í hann, þannig að hann gæfi frá sér hljóð. Leitin varð enn æsilegri við þetta og loks heyrist hrópið:  "Hann er þarna undir!". Það var Álaborgarkonan, Ásta, sem þarna hafði beitt fullkominni heyrn til að staðsetja símann nákvæmlega, beygði sig snarlega niður og hvarf inn í runna, hægra megin við stíginn og kom svo þaðan út, sigri hrósandi með símann í hendinni.

Þarna hafði verið unnið mikið afrek. Hin tápmiklu 12 höfðu þarna leyst af hendi, með glæsibrag, ekki bara þrautina sem fólst í að bjarga sér út lokuðum herbergjum, heldur einnig að finna síma og kort í ókunnum bæ einhversstaðar langt suður í Atlantshafi.

Örin bendir á staðinn þar sem síminn fannst.(Mynd Ásta Hulda)

Hin stoltu tápmiklu 12 að afloknu vel unnu verki. (mynd Ásta Hulda og PMS)

Mikil og erfið leitin kallaði eðlilega á hungur ungviðisins í hópnum, og í alsælu sinn ákvað fD að bjóða hópnum á tiltekinn, sérvalinn skyndibitastað í nágrenninu (splæsa, sem sagt).  Myndirnar sem hér fylgja segja það sem segja þarf um það.   En fyrst þessi mynd:


Farið yfir ferlið.Takið eftir að þarna er bakpokinn geymdur þannig,
að hann er óaðgengilegur þjófum og ræningjum

Svo var farið á matsölustaðinn



Hér lýkur þessari frásögn af afreki hinna tápmiklu 12.  



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...