Framhald af þessu
Það var margt sem fór í gegnum hugann þarna, og misjafnt eftir aldri. Sjálfsagt nutu þau elstu í hópnum þess að hafa þróað með sér talsverða yfirvegun þegar kom að svona málum. Um þau yngstu hríslaðist alveg ný tegund að spennu, sem nánast mátti jafna á við ofbeldisfyllstu tölvuleiki. Þau nutu þess að vera þarna í hópi sér eldri sérfræðinga á ýmsum sviðum, þar með sérþjálfuðu rakningarfólki, sem gat auðveldlega fylgst með hve langt var í símann á hverjum tíma.
Við ofangreindar aðstæður hófst leitin að síma og skilríkjum fD við nokkuð skuggalegar aðstæður. Fremstur í flokki fór rakningarmaðurinn, Egill, með síma á lofti, sem sýndi nákvæma staðsetningu merkisins frá símanum, sem enn var á sama stað og áður en hópurinn tókst á við flóttaherbergin. Í kjölfar hans komu síðan jafnaldrar hans og tveim skrefum á eftir þeim, þau yngstu í hópnum. Lestina ráku síðan þau elstu, ekki vegna þess að ótti þeirra við aðstæðurnar væri mestur, heldur einfaldlega til að tryggja að enginn í hópnum yrði viðskila við hin. Svona lagði hópurinn af stað út í óvissuna um skuggaleg strætin.
Hin tápmiklu 12 unnu þarna út frá tveim mögulegum "sviðsmyndum": Annarsvegar, að þjófarnir hefðu einfaldlega hent símanum og skilríkunum frá sér, þegar í ljós kom að þeir hefðu engin not fyrir þau. Hinsvegar að þeir væru komnir til baka í greni sitt með ránsfeng kvöldins, dimmt subbulegt greni í bakhúsi, þar sem sátu nú með vopnuðum verndurunum og deildu með sér afrakstrinum. Sannarlega var það von hópsins, að hið fyrra væri raunin. Hið síðara myndi óhjákvæmilega kalla á að hringt yrði eftir aðstoð lögreglu. Nokkrir símar voru í viðbragðsstöðu ef til þess kæmi.
Það þarf líklega ekki að fjölyrða frekar um þær aðstæður sem þarna voru og því verður það ekki gert. Tápmikill hópurinn hélt af stað í áttina að merkinu sem síminn gaf. Það leið ekki á löngu áður en rakningarmaðurinn rétti upp vinstri handlegginn (hinn hélt á símanum) svona eins og maður sér í bíómyndum: "Stans/Halt! Þetta er inni í þessari götu!" og benti inn í drungalega göngugötu til vinstri. Rétt í því missti hann merkið frá síma fD og því var ekki um að ræða annað en halda inn götuna og leita.
Fljótlega kom hópurinn auga á ruslatunnu sem stóð í vinstri götukantinum og það varð úr að byrja leitina þar. Ruslatunnur í skuggalegum götum geta verið varasamar og því var farið að öllu með gát, tunnan opnuð og þar, ofan á plastpokum fullum af rusli, lágu kortin þrjú sem stolið hafði verið. Þetta olli því að nokkur fagnaðarbylgja fór um hópinn, sem þarna vann fyrsta sigurinn í þeirri umfangsmiklu leit sem stóð yfir.
Tunnan, eftir að Kvisthyltingar höfðu leitað af sér allan grun í henni. (Mynd Ásta Hulda) |
Kortin lágu efst í ruslatunnunni. Kortin sem um var að ræða voru, debetkort, ökuskírteini og félagskort í Félagi eldri borgara á Selfossi. |
Örin bendir á staðinn þar sem síminn fannst.(Mynd Ásta Hulda) |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli