14 júní, 2024

Laugarás: Fagmennska, eða annað.


Þann 13. júní birtist á island.is island.is  tilkynning frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem greint er frá því á vorið 2025 verði heilsugæslan fyrir uppsveitir Árnessýslu, flutt frá Laugarási að Flúðum. 
Hér er  mynd sem sýnir  hvar Laugarás er og hvar Flúðir er að finna. 


Hér fyrir neðan birti ég einstaka hluta þessarar tilkynningar, og við þá geri ég mínar athugasemdir og varpa fram spurningum. 

Tilkynningin hefst á þessu:
Í ljósi stöðugrar uppbyggingar og fjölgunar íbúa í uppsveitum Suðurlands hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) ákveðið að flytja starfsemi heilsugæslunnar í nýtt og nútímalegt húsnæði á svæðinu.

Hvaða nútímalega húsnæði er þarna um að ræða? Er það hannað og byggt með þarfir heilsugæslu í huga?  Er það nýtt, í ljósi þessarar athugasemdar sem birtist á Facebook:   "En kofinn á Flúðum er eldgamalt hús sem á að breyta í heilsugæslu og hentar engan veginn til starfans. Texti um að þetta þjóni sérstaklega nútíma kröfum er þvílík endemis lygi að ég hef varla séð annað eins haft eftir opinberum aðila." (Ólafur Ragnarsson).  

Um ástand húsnæðis heilsugæslunnar í Laugarási er eftirfarandi einnig á finna í athugasemdum á Facebook: "Hins vegar er það fásinna að kenna 25 ára gömlu, sérhönnuðu húsnæði um. Eina sem hægt er að benda á er kannski uppsöfnuð viðhaldsþörf ef eitthvað er." (Jónas Yngvi Ásgrímsson)

Ég skal alveg viðurkenna, að fjölgun íbúa í Laugarási hefur látið á sér standa og að þar skortir ýmsa þjónustu aðra en heilsugæsluna, en það er sérstakt mál, sem ég mun fjalla um, eina ferðina enn, í lokin

Í janúar síðastliðnum auglýsti FSRE eftir húsnæði til að hýsa heilsugæslu HSU í uppsveitum Suðurlands. 
Hvað kallaði á þessa auglýsingu? Hver átti frumkvæðið að því að þörf var talin á henni?  Svör við þessum spurningum skipta ansi miklu máli fyrir umræðuna. Er frumkvæðið komið frá ráðuneytinu, stjórn HSU, eða Hrunamannahreppi? Sem sagt: Hvernig þessi umræða fór af stað? 
Þrjú tilboð bárust og eftir ítarlegt mat á tilboðunum var ákveðið að ganga til samninga við Hrunamannahrepp um að leigja húsnæði undir heilsugæslu HSU á Flúðum. 

Hver var munurinn á þessum tilboðum? Hvað fólu þau í sér?  Hvernig fór þetta "ítarlega" mat fram,  hvaða aðilar stóðu að því og hverjar voru forsendurnar sem gengið var út frá?  Hvaða þættir voru það sem réðu úrslitum? 

Nýja húsnæðið býður upp á fjölmarga ávinninga fyrir samfélagið. Það er ekki aðeins fjárhagslega hagkvæmara en núverandi húsnæði, heldur verður það einnig sérhannað til að mæta nútímakröfum heilbrigðisþjónustu. 
Í hverju felast þessir "fjárhagslegu ávinningar"?  Hvaða kröfum um "nútíma heilbrigðisþjónustu" fullnægir 28 ára gamalt hús heilsugæslunnar í Laugarási ekki?

Heilsugæslustöðin í Laugarási, sem var vígð árið 1997 (mynd úr safni Jóns Eiríkssonar) fengin á  laugaras.is  - en þar er að finna mikið af myndum frá vígslunni.

Með betri aðstöðu og þjónustu tryggir HSU að heilbrigðisþjónusta svæðisins sé ávallt í samræmi við þarfir íbúa.
Hvernig er sú niðurstaða fengin, að með flutningi heilsugæslunnar verði tryggara en áður, að þjónustan sé í "samræmi við þarfir íbúanna"?  Þarfir hvaða íbúa er þar um að ræða - einhverra ákveðinna umfram aðra?
Staðsetningin á Flúðum leggur jafnframt grunn að frekari þjónustutækifærum, þar á meðal möguleika á opnun nýs apóteks.
 "Frekari þjónustutækifærum?"  Sá aðili sem rak apótekið í Laugarási gafst upp á rekstrinum Hvað liggur fyrir um að lyfjakeðja sé tilbúin að setja upp apótek á Flúðum?

Flutningurinn mun einnig stuðla að bættu samstarfi við björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila sem eru með aðsetur á Flúðum, sem er mikilvægt fyrir öryggi og velferð íbúa.

Þarna er um fremur fátækleg rök að ræða, auðvitað. Nánast rökleysa og bendir bara til þess, að verið sé að grípa í hálmstrá.  Samkvæmt vef Landsbjargar eru þrjár björgunarsveitir í uppsveitum, aðrar en Björgunarfélagið Eyvindar, en þær eru Björgunarsveit Biskupstungna, sem er í Reykholti, Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni og Hjálparsveitin Tintron á Borg í Grímsnesi. 
Þetta framfaraskref er liður í stefnu HSU um að tryggja að íbúar í uppsveitum Suðurlands hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum nútímans. 
Það vantar útskýringu á því hvert framfaraskrefið er, fyrir uppsveitir Árnessýslu. Þá á ég við uppsveitirnar sem heild, ekki bara afmarkaðan hluta þeirra. 
Það vantar útskýringu á því hvernig þessi flutningur tryggir betri aðgang íbúa í uppsveitum Árnessýslu.
Það vantar útskýringu á því hverjar "þarfir nútímans" eru, sem verða betur uppfylltar með flutningnum.
Með því að flytja heilsugæsluna á Flúðir er HSU ekki eingöngu að bæta aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar, heldur er einnig verið að skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands.
Hvernig  mun flutningurinn bæta "aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar"?
"Skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands."  
Fyrir mér segir þessi röksemd bara nákvæmlega ekki neitt. Er búið að móta einhverja framtíðarþróun að þessu leyti? Hver er hana að finna, ef svo er? Í hverju felst þessi framtíðarþróun? 
Flutningur heilsugæslunnar er fyrirhugaður vorið 2025 og mun nánari tímasetning verða tilkynnt þegar nær dregur.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri

Þá er ég búinn að fara í gegnum tilkynningu um þennan flutning, en hann skilur eftir helling af spurningum.  Auðvitað fagna íbúar Hrunamannahrepps því að vera komnir með heilsugæsluna "heim", eins og hefur lengi verið draumurinn. Megi þeir njóta hennar vel og allrar þeirrar þjónustu, sem hún mun njóta góðs af og styrkja.  

Er ef til vill betur heima setið en af stað farið? 
Hver verða jákvæð áhrif þessa á íbúa uppsveitanna, aðra  en íbúa Hrunamannahrepps? 
Ef reyndin verður nú sú, að flutningurinn verði til þess að íbúar uppsveitanna, annarra en íbúa Hrunamannahrepps, muni í vaxandi mæli, eða alveg, telja henta sér betur að sækja læknisþjónustu á Selfoss, er þá heilsugæslan á Selfossi undir það búin?  Ég bý þar og veit að þar er löng bið eftir læknisþjónustu. 
Hvað felst í nútímavæðingunni, sem ætlað er að taka á þeirri framtíðarþróun?
Apótekið, sem er notað sem ein stóru röksemdanna í málinu, hvarf úr Laugarási vegna þess að það var ekki rekstrargrundvöllur. Hvað segir um það í framtíðaráætlunum HSU á nýjum stað?

Með ákvörðum um flutning heilsgæslunnar frá Laugarási að Flúðum er búið að stuðla enn frekar að klofningi í uppsveitum, í stað þess að  þær sameinist. Er það virkilega einhverjum til góðs? 

Ég er búinn að varpa fram, hér að ofan,  mörgum spurningum um þennan fyrirhugaða flutning. Mig grunar, að ef stjórnsýslan sem um hann hefur fjallað, getur ekki sýnt fram á, svo óyggjandi sé, að allt þetta ferli hafi verið faglegt, þannig að það þoli dagsljósið, muni óánægja grassera áfram. Það er talað um spillingu, sem tengist tveim ríkisstjórnarflokkanna, það er talað um pólitísk sambönd, fjölskyldutengsl og jafnvel skiptimynt í samningum um framgang mála innan ríkisstjórnarinnar.  
Það kæmi mér ekki á óvart, að þau orð hafi fallið einhverntíma í þessu ferli að það væri alveg hægt að standa af sér nokkurra daga hvassviðri á samfélagsmiðlum og halda svo bara áfram ótrauð. 
"Þegjum bara, þetta gengur yfir" - sem það gerir því miður ansi oft hér á landi.

---------------------------------------

Hér ofar, sagði ég: "Ég skal alveg viðurkenna, að fjölgun íbúa í Laugarási hefur látið á sér standa og að þar skortir ýmsa þjónustu aðra en heilsugæsluna, en það er sérstakt mál, sem ég mun fjalla um, eina ferðina enn, í lokin. "

Ég er reyndar búinn að fjalla ítrekað um ástæður þess, að Laugarás hefur átt skárri tíma og veit, svei mér ekki, hvort ég ætti að að fara endurtaka mig of míkið um það. Ef einhver hefur ekki lesið skoðanir mínar á því máli (flestir, líklegast) bendi ég til dæmis á  þennan pistil og  þennan .
Biskupstungnahreppur, Bláskógabyggð og Stjórnarnefnd heilsugæslunnar í Laugarási (Oddvitanefndin), hafa, með sinnuleysi, áhugaleysi og beinlínis andstöðu við uppbyggingu í Laugarási, skapað þá stöðu sem nú er uppi.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þar er svo.
-----------------------------------------

Bakgrunnsefni:
Á vefnum laugaras.is er ítarleg umfjöllun um Laugaráslæknishérað og heilsugæsluna í Laugarási. Hér eru hlekkir á brot af því:
Uppfært 16. júní:
Ég hef nú sent erindi á heilbrigðisráðherra, þingmenn kjördæmisins og formann og varaformann velferðarnefndar Alþingis, með hlekk á þennan pistil.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Jósefína Friðriksdóttir - minning

Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allave...