"Í hverju ætlarðu að fara?" spyr fD. Ég spyr hana aldrei í hverju hún ætlar. Hún spyr mig oftast og lætur mér í famhaldinu oft í té vinsamlegar ábendingar um það sem betur megi fara í fyrirætlunum mínum.
"Í hverju á maður að fara?" spyr ég stundum, og svarið er nánast undantekningalaust "Bingófötum". Mér skilst að þannig föt séu vel þekkt fyrirbæri meðal fataspekúlanta.
Ég ætla mér ekki að fjalla um föt, en þau virðast standa mér nær en ég hélt.
Tilefni þess að ég legg hér í enn eina færsluna, er óvenjutíð menningarneysla okkar fD að undanförnu og í tengslum við hana, brot af þeim reglum sem maðurinn hefur komið sér upp við slík tækifæri.
FATNAÐUR
Ég spurði ekki um klæðaburð þegar við skelltum okkur á Sálir Jónanna í Aratungu, því ég þykist þekkja mitt heimafólk. Bingóföt urðu fyrir valinu og fóru vel með rauðvínsdrykkjuaðferðunum sem ég beitti þar.
Þegar maður leggur leið sína í sjálft Þjóðleikhúsið, gegnir nokkuð öðru máli. Það hefur mér í það minnsta fundist. Þá "klæðir maður sig upp á". Þegar maður gerir það, er það jakki og bindi ásamt betri buxum, en auðvitað komst ég að því að tiltölulega formlegur klæðnaður tilheyrir nú nánast liðinni tíð í leikhúsumhverfi. Maður gengur ekki lengur inn í hóp uppstrílaðs fólks í þessu þjóðarleikhúsi. Þarna var fólk mætt, klætt í fatnað sem varla náði bíngóstaðli í sumum tilvikum. Ég hef sennilega verið meðal þeirra sem voru hvað uppstrílaðastir (hvað þýðir þetta orð eiginlega? Svarið er: decked-out, overdressed, dressed to kill, dressed to the nines, skv orðabók).
Í þriðju menningarreisunni lá leiðin í Hörpu og þá tók ég af skarið, til að stinga ekki of mikið í stúf og skellti mér í bingófötin. Þá bar svo við, að slík föt voru ekkert sérlega algengur klæðnaður, en þarna gat að líta allan fatnaðarskalann, allt frá fatnaði sem maður færi varla í, í uppskipunarvinnu (já, ég stundaði slíka vinnu eitt sinn) í klæðskeraðasaumaðan alklæðnað, pelsa og perlufestar. Niðurstaðan af þessara reynslu var, að það má allt, alltaf.
Mér finnst sú þróun reyndar fremur dapurleg, að ýmsu leyti, þó ég sýti hana ekki að öðru leyti. Það var nefnilega heilmikill viðburður að fara í leikhús, þegar ég hafði ekki safnað jafn mörgum árum og nú. Ætli hugtakið virðing hafi ekki verið í meiri hávegum haft á þeim tíma. Klæðaburðurinn fól í sér túlkun leikhúsgesta á virðingunni sem þeir báru fyrir leikhúsinu og einnig fyrir sjálfum sér og öðrum.
Túlkun Oskar Schlemmer á hinum sjálfmiðaða manni. |
Þetta leiðir mig að hinum þættinum sem ég ætlaði að koma frá mér um þær óskráðu reglur sem gilda eða giltu í mannlegu samfélagi. Mannlegt samfélag er til, vegna þess, að mennirnir hafa komið sér upp tilteknum aðferðum við að lifa saman á þessari jörð okkar, í stórum dráttum í sátt og samlyndi í einhver þúsund ára.
AÐ SETJAST
Ein af þessum reglum, sem mér finnst vera fremur víkjandi hjá hinum sjálfmiðaða manni, tengist einmitt leikhúsferðum.
Ef ég kaupi miða í leikhús, þá sé ég umsvifalaust í hvaða röð ég á að sitja og í hvað sæti. Þetta er allt númerað í bak og fyrir. Ef sætisnúmerið mitt vísar á sæti sem er í enda raðar, get ég verið alveg rólegur þó svo mér seinki aðeins. Seinkoma mín truflar ekki annað fólk. Ég sest bara í sætið mitt á endanum eins og vera ber.
Ef númerið mitt er hinsvegar í miðri röðinni, geri ég mitt besta til að vera kominn tímanlega í sæti mitt. HOMO EGOCENTRICUS, sem á sæti í miðri röðinni, kemur hinsvegar rétt í þann mun sem sýningin hefst, helst aðeins seinn, með "Sjáið mig, hér kem ég, fokk jú" svipbrigðin á andlitinu og veldur því að upp undir tuttugu manneskjur þurfa að rísa úr sætum fyrir honum.
Ég viðurkenni, að ég á erfitt með að sætta mig við mannleg samskipti af þessu tagi. Þau verða hinsvegar æ meira áberandi.
Mér finnst ekki ólíklegt að HOMO EGOCENTRICUS sé dálítið að misskilja hlutina, blanda saman virðingu fyrir öðrum annarsvegar og virðingu fyrir sjálfum sér hinsvegar. Hann hafnar því að bera virðingu fyrir öðrum, vegna þess, að geri hann það, sýni hann sjálfum sér virðingu, sem er auðvitað grundvallarmisskilningur þegar nánar er skoðað.
Beri maður ekki virðingu fyrir öðrum, þá ber maður ekki heldur virðingu fyrir sjálfum sér.
Maður breytist í lítinn kall, eða litla kellingu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli