18 september, 2011

Vér um oss frá oss til vor

Oss hefur fundist það, á samferðamönnum vorum gegnum tíðina, að þeim fyndist ekki eftirsjá að því að svokallaðar þéringar væru ekki lengur notaðar í samskiptum manna í milli. Eigi erum vér fyllilega sammála þeim sem fagnað hafa og fagna enn brotthvarfi þérunar úr samskiptum milli manna.

Eigi höfum vér allskostar kunnað við þann samskiptamáta sem tók við af þérunum, þar sem þar með hvarf nauðsynlegur, að voru mati, stöðumunur þeirra sem saman ræddu. Með því menn hættu, til að mynda, að þéra Forseta Íslands, hvarf nauðsynleg fjarlægð hans frá pöplinum og þar með  nauðsynleg virðing fyrir embættinu. Allt varð sama flatneskjan.
Þá finnst oss afar mikill missir að því að nemendum skuli ekki vera gert að þéra kennara sína lengur.
"Sigurður, þér eruð fífl!", hljómar t.d. miklu sterkara en "Siggi, þú ert fífl!"

Nei, þetta er horfið, en kom skyndilega í huga vorn aftur við litla og sakleysislega athugasemd á fésbók:
"Er það rétt sem mér sýnist á myndum yðar úr Tungnarétt(um) að það hafi rignt?"
 Í því samhengi sem þetta var þarna inn sett, gætum vér freistast til að reyna að túlka hvað að baki lá:

1. Er viðkomandi þarna að setja oss skör ofar en sjálfan sig, í virðingarstiga (hann notar ekki þérun er hann vísar til sjálfs sín).
2. Er þérunin til komin vegna uppskrúfaðs málfars í texta vorum, sem athugasemdin síðan byggir á?
3. Er viðkomandi þarna að setja oss skör neðar og þar með gera lítið út athugasemdum vorum um tilteknar réttir á Skeiðum?
4. Er viðkomandi að nýta sér þekkingu á þérunum til að villa um fyrir síðari kynslóðum, sem ekki þekkja þennan tjáningarmáta og get því ekki lesið í hin fínu blæbrigði.

Það má lengi velta fyrir sér hvað það var sem að baki lá, en vér teljum yður, lesendur vora engu  munu verða nær við frekari vangaveltu í því sambandi.

Með því að taka upp þéranir aftur munum vér nálgast á ný hið miklvæga jafnvægi.

3 ummæli:

  1. Kæri Páll Magnús.

    Teljið þér að viðkomandi hafi þarna á nokkuð ísmeygilegan hátt komist svo að orði um það sem hann kom auga á? Að í réttunum hafi átt sér stað vökvun í formi brjóstbirtu sem innbirt var beint af stút?
    Vér sjáum oft ekki hið augljósa.
    Megi hinn helgi (vín)andi gefa oss góðar stundir.
    Aðalheiður Helgadóttir.

    SvaraEyða
  2. Vér teljum að þéringar gegni því nauðsynlega hlutverki að halda ákveðinni fjarlægð; vaða ekki á oss ókunna karl- og kvenmenn segjandisk: "hæ, þú!".
    Illa gekk oss að venjast því að allir væru dús þar eð í uppeldi voru í föðurhúsum, voru þéringar sjálfsagðar. Einnig urðum vér þeirrar náðar aðnjótandi að ganga í Kvennaskólann í Reykjavík hvar þéringar voru hinn eini viðurkenndi ávarpsmáti. Sama tók við í MR.
    Af þessu má ljóst vera að undirrituðum eru þéringar eigi á móti skapi auk þess sem vér teljum að þær stuðli að ögn meiri formfestu í samskiptum, sem víða eru nokkuð losaraleg hvað orðræðu varðar.
    Yðar einlægur
    Hirðkveðill Kvistholts

    Post scriptum
    Eigi minnist hirðkveðill þó þess að fleirtölumyndin vér væri notuð ýkja mikið í daglegu máli

    SvaraEyða
  3. AH: Vér teljum ekki svo hafa verið. Þarna var á ferð hrein og klár afbrýðisemi.

    HÁ/hkv.:Teljum þetta rétt vera og æskilegt.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...