18 september, 2011

Einhvernveginn, aldrei.....


Það var  farið með okkur systkinin í réttir í gamla daga. Ég man nú ekki margt frá þessum réttaferðum, en þó tvennt:
1. Ég varð vitni að því þegar lamb var tekið si svona og skorið á háls í einum dilknum í Skeiðaréttum, eins og við kölluðum þessar réttir. Þær heita víst Reykjaréttir. Lambið mun hafa slasast og því fátt annað í stöðunni. Hefði þó kannski verið hægt að framkvæma verkið á bakvið eitthvað.
2. Líka úr Skeiðaréttum: Blindfullir kallar að slást í drullusvaði (þar var alltaf rigning þegar Skeiðaréttir voru). Auðvitað lauk þessu með því að annar varð að lúta í lægra haldi og veltist um í leðjunni með blóðnasir, bölvandi eins og naut.

(Hvar voru góðu konurnar með gúmmímotturnar eiginlega?)

Ef ég freista þess að kafa í hugarfylgsni þá minnir mig að ég hafa einhverntíma komið að því að draga lömb í dilka, en það var allavega í afskaplega litlum mæli.

Ég á bara ekki neinar slíkar minningar úr réttastandi, að ég hafi með einhverjum hætt gert mér glaðan dag á þessum tíma árs. Ég hef gert tilraunir og fór með  börnin í réttir eins og vera bar. Ég reyndi meira að segja að gera mig gildandi í fjárrekstri, sem sannur fjárreki á eftir og við hlið og fyrir framan Torfastaðasafnið. Jú, það var hreint ekki leiðinlegt, það viðurkenni ég (að vísu þurft hrossið að skella sér upp að gaddavírsgirðingu og þannig rífa réttabuxurnar mínar í tætlur). Ég skil vel þá sem halda þessan dag hátíðlegan, en þeir tilheyra bara annarskonar raunveruleika, sem er nú eðlilegt.

Ég samfagna Tungnamönnum sem nú eru aftur farnir að ríða inn á afrétt til að sækja fjallalömbin sín, fylgjast með safninu renna niður í byggð, draga féð í dilka, reka það heim, fá sér kjötsúpu.

Þetta er bara ekki minn heimur og það er allt í góðu.

(Fór í Tungnaréttir í gær. Tók nokkrar myndir, en ekki af neinni ástríðu :))

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...