16 febrúar, 2016

"The Condom King" - eða þannig

Ekki veit ég hvaða afleiðingar þessi pistill hefur fyrir mig en ég verð að láta á það reyna. Ég treysti því í það minnsta að þeir sem þekkja taki þessum skrifum eins og til er ætlast.

Það varð nokkur kurr meðal nemenda í ML í morgun þegar þessi fyrirsögn birtist á vísi punktur ís:







Ég nokkuð viss um að fólk sem hefur ekki fylgst með fréttum undanfarna daga hafi skilið þessa fyrirsögn talsvert öðruvísi en hún átti að skiljast.  Skilningur einhverra var með þessum hætti (með því að lesa fyrirsögnina):

"Það er kominn tími til, í ljósi ástandsins meðal nemenda í Menntaskólanum að Laugarvatni að bregðast við og ræða við þá um mikilvægi smokkanotkunar" 
Undirtextinn væri þá sá að nemendur stundi ábyrgðarlaust kynlíf í stórum stíl og nauðsynlegt sé að freista þess að koma þeim í skilning að til sé fyrirbæri sem kallast smokkar sem hafa þann megin tilgang að koma í veg fyrir þunganir, sem séu alltof margar.

Svona er ástandið þetta auðvitað ekki í mínum ágæta skóla og það má fastlega reikna með því að nemendur stundi kynlíf í svipuðum mæli og jafnaldrar þeirra vítt um landið.

Þarna er við fréttamann vísis að sakast, en hann hefði sannarlega átt að setja fréttina í viðeigandi samhengi við þá umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu, um mikilvægi smokksins við að koma í veg fyrir  fjölónæmar lekandasýkingar.

Samhengið var miklvægt þar sem það verður æ erfiðara að ná til einhvers umtalsverðs fjölda fólks í gegnum fjölmiðla, ekki síst ungs fólks og auðvitað þeirra sem lesa bara fyrirsagnirnar og telja sig fá úr þeim þær upplýsingar sem þörf er á.

Í ML fá nemendur sannarlega upplýsingar um gagnsemi smokksins strax á fyrsta ári (ef þeir hafa þá ekki fengið slíka fræðslu áður). Auk þess er vinsælasti fyrirlesarinn, á Dagamun á hverju ári, kynfræðingur sem fjallar um kynlíf og kynheilbrigði.

Eftir þennan dag situr skólameistari ML uppi með, í hugum einhverra, titilinn sem þessi pistill ber, hafandi birst við hliðina á litríkum smokkahaug á vefmiðli, eftir að hafa í grandaleysi svarað spurningum fréttamanns um það hvort í ML væru smokkasjálfsalar, ef ekki:hversvegna og hvað væri meiningin að gera í sambandi við það.
Þá má það teljast undarlegt að ekki skuli, í sömu frétt fjallað um svör skólameistara FSu varðandi þetta mál. Það má túlka þannig, að líklegt sé talið að ML-ingar séu duglegri í kynlífinu en jafnaldrar þeirra í þeim skóla.
Orð og frramsetning þeirra eru vandasöm fyrirbæri.

Það fyndnasta er, líklegast, að hér sit ég í svipuðu hlutverki og Jóhannes Þór Skúlason þegar hann freistar þess að túlka orð forystumanns ríkisstjórnarinnar.

Svona er lífið ófyrirsjáanlegt.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...