Það varð nokkur kurr meðal nemenda í ML í morgun þegar þessi fyrirsögn birtist á vísi punktur ís:
"Það er kominn tími til, í ljósi ástandsins meðal nemenda í Menntaskólanum að Laugarvatni að bregðast við og ræða við þá um mikilvægi smokkanotkunar"
Undirtextinn væri þá sá að nemendur stundi ábyrgðarlaust kynlíf í stórum stíl og nauðsynlegt sé að freista þess að koma þeim í skilning að til sé fyrirbæri sem kallast smokkar sem hafa þann megin tilgang að koma í veg fyrir þunganir, sem séu alltof margar.
Svona er ástandið þetta auðvitað ekki í mínum ágæta skóla og það má fastlega reikna með því að nemendur stundi kynlíf í svipuðum mæli og jafnaldrar þeirra vítt um landið.
Þarna er við fréttamann vísis að sakast, en hann hefði sannarlega átt að setja fréttina í viðeigandi samhengi við þá umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu, um mikilvægi smokksins við að koma í veg fyrir fjölónæmar lekandasýkingar.
Samhengið var miklvægt þar sem það verður æ erfiðara að ná til einhvers umtalsverðs fjölda fólks í gegnum fjölmiðla, ekki síst ungs fólks og auðvitað þeirra sem lesa bara fyrirsagnirnar og telja sig fá úr þeim þær upplýsingar sem þörf er á.
Í ML fá nemendur sannarlega upplýsingar um gagnsemi smokksins strax á fyrsta ári (ef þeir hafa þá ekki fengið slíka fræðslu áður). Auk þess er vinsælasti fyrirlesarinn, á Dagamun á hverju ári, kynfræðingur sem fjallar um kynlíf og kynheilbrigði.
Eftir þennan dag situr skólameistari ML uppi með, í hugum einhverra, titilinn sem þessi pistill ber, hafandi birst við hliðina á litríkum smokkahaug á vefmiðli, eftir að hafa í grandaleysi svarað spurningum fréttamanns um það hvort í ML væru smokkasjálfsalar, ef ekki:hversvegna og hvað væri meiningin að gera í sambandi við það.
Þá má það teljast undarlegt að ekki skuli, í sömu frétt fjallað um svör skólameistara FSu varðandi þetta mál. Það má túlka þannig, að líklegt sé talið að ML-ingar séu duglegri í kynlífinu en jafnaldrar þeirra í þeim skóla.
Orð og frramsetning þeirra eru vandasöm fyrirbæri.
Það fyndnasta er, líklegast, að hér sit ég í svipuðu hlutverki og Jóhannes Þór Skúlason þegar hann freistar þess að túlka orð forystumanns ríkisstjórnarinnar.
Svona er lífið ófyrirsjáanlegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli