27 febrúar, 2016

Að vera blaðamaður

Það gerðist bara einhvernveginn fyrir um það bil ári síðan, að ég var settur (eða kannski: það var sett mig) inn í ritnefnd merkisrits sem er gefið út í Biskupstungum og sem ber nafnið Litli Bergþór. Þarna var auðvitað á ferðinni kolóleg aðgerð þar sem með réttu skal ritnefnd kjörin á aðlfundi Ungmennafélags Biskupstungna, en það félag stendur að útgáfu þessa rits. Það kann að fara svo á aðalfundi félagsins, sem ekki er langt undan, að ég tel, að sú gjörð að taka mig inn í nefndina verði vítt og mér sparkað, en það kemur þá bara í ljós.
Litli Bergþór kemur út tvisvar á ári, að vori (ef það tekst, annars í lok sumars) og í nóvember eða desember.

Nú er ég búinn að taka þátt í útgáfu tveggja tölublaða Litla Bergþórs og undirbúningur að útgáfu þess þriðja er hafinn.

Þetta blað á sér orðið talsvert langa sögu. Undir þessu nafni hefur  það verið gefið út síðan 1980. Vinnsluaðferðin þá var talsvert frumstæðari en nú. Blaðið var vélritað, skrifað og teiknað á blekstensla, sem stöðugt færri hafa hugmynd um hvað var. Síðan þróaðist það með bættri tækni og fleiri áskrifendum þar til það komst í núverandi mynd. Hvert framtíðarútgáfuformið verður, er erfitt að ímynda sér, en ekki finnst mér úr vegi að ímynda sér að rafræn útgáfa sé það sem verður raunin.

Fyrsta tölublaðið sem ég koma að. Að
sjálfsögðu tókst mér að troða teikningu
eftir frumburðinn á forsíðuna.
Ég kom til starfa við Reykholtsskóla 1979, árið eftir kom fyrsta blaðið út og fyrir því stóð Grímur Bjarndal, sem þá var skólastjóri.  Ég dróst síðan inn í útgáfuna og kom að henni til 1985.  Síðan þá, eða í ein 30 ár, hef ég ekki haft annan snertiflöt við þetta ágæta blað annan en venjulegir áskrifendur hafa.
Nú er ég mættur aftur á svæðið, orðinn blaðamaður og farinn að safna og skrifa efni. Hvernig það gengur verður tíminn að leiða í ljós og þar getur margt gerst, þetta helst:
1. Ég verð settur úr útgáfunefndinni á aðalfundi ungmennafélagsins.
2. Áskrifendur deyja frá áskriftum sínum og rekstrargrundvöllur brestur.
3. Útgáfunefndinni tekst að ná til yngri kynslóða og efla blaðið.

Það má kannski segja og það í fullri alvöru, að útgáfa eins og sú sem hér um ræðir, sé ómetanleg í sögulegu samhengi. Í nútímanum er maður nefnilega ekkert mikið að spá hvernig nútíminn núna birtist í nútímanum eftir 30 ár.

Mér finnst, að stærsta verkefnið sem blasir við útgefendum Litla Bergþórs sé, að fjölga áskrifendum; ná til yngri kynslóða.
Hvernig gerum við það?
Varla með því að freista þess að efla útgáfuna með því að setja karl á sjötugsaldri nýjan inn í nefndina, er það?  Nefndarfólkið sem fyrir var þar, var svo sem að stórum hluta engin unglömb. Vissulega ungt og hresst í andanum, en með árafjöld að baki.

Megi Litli Bergþór lifa.

1 ummæli:

  1. Þetta er alveg rétt hjá þér. Yngra fólk á einnig að starfa í blaðaútgáfu

    SvaraEyða

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...