28 febrúar, 2016

Opnun fyrir mannkynslausnara

Ég hef ekki, alllengi, tjáð mig neitt um stjórnmál, en gerði talsvert af því fyrir einhverjum árum. Meginástæða þessarar þagnar minnar er tilgangsleysi þess að fjalla málefnalega um stjórnmál á þessu landi. Í skúmaskotum leynist fólkið sem hefur öll svörin og bíður færis að láta á sér kræla ef það telur sig finna færi á.

Ástæða þess að ég skelli hér nokkrum línum á blað um stjórnmál er ákveðinn ótti um að stjórnmálaaflið sem hefur notið mikils og vaxandi fylgis í skoðanakönnunum um langt skeið verði fórnarlamb fólksins í skúmaskotunum, sem ég hef kosið að kalla "mannkynslausnarana".  Flokkurinn sem um ræðir er fremur óskrifað blað og þar með berskjaldaður fyrir tilraunum til yfirtöku. Það vill svo til, að ég hef lítilsháttar reynslu af svona löguðu.

Þjóðvaki

Ég bendi þeim sem eru að lesa þetta og ekki vita neitt um þetta fyrirbæri, að gúgla bara. Þarna var um að ræða stjórnmálaafl sem kom fram  í aðdraganda þingkosninga 1995. Þetta var eiginlega flokkur sem var stofnaður af og í kringum Jóhönnu Sigurðardóttur og stærsti tilgangurinn með stofnun hans var að freista þess að búa til einhverskonar sameiningarafl vinstri manna, en ýmsum hefur orðið fótaskortur við slíkar tilraunir.
Þjóðvaki  mældist með 17,5 prósenta fylgi fyrst eftir að flokkurinn var stofnaður. Fylgið minnkaði og var mánuði síðar orðið 10,5 prósent og þegar að kosningum kom var fylgið farið niður í 7,2 prósent.

Á þessum tíma var ég einhvernveginn tilbúinn að taka þátt í stjórnmálastarfi og var mjög fylgjandi því að fólk sem skilgreindi sig á vinstri vængnum ætti að finna sér sameiginlegan farveg.  Þjóðvaki varð þarna til og vettvangurinn virtist sá rétti. Ég lét slag standa og fór að sækja fundi.  Ég var mikið barn á stjórnmálasviðinu, hélt að þar starfaði fólk af heilindum fyrir hugsjónum.  Ég var nokkuð fljótur að læra, að aðrir þættir og ógeðfelldari, voru jafnvel enn mikilvægari. 

Það var boðað til stofnfundar Þjóðvaka á Suðurlandi og þar var saman komið margt ágætis fólk, sem hafði heilbrigða sýn á það sem framundan var. Þar var líka fólk sem var komið til starfa á allt öðrum forsendum. Það kom nefnilega í ljós að X (nefni hann ekki þar sem persóna hans skiptir engu máli í því samhengi sem ég skrifa þetta) hafði eytt miklum tíma og fyrirhöfn í að ferðast vítt og breitt um Suðurland til að afla sér fylgismanna. Þeir reyndust síðan fjölmennir á fundinum. X hafði góðan talanda og virðist hafa öll svör á reiðum höndum og ég neita því ekki að mér fannst bara nokkuð til hans koma.  Það kom fljótlega í ljós, að það bjó annað undir hjá honum en baráttan fyrir sameiningu vinstri manna. Hann ætlaði sér forystuna með fulltingi stuðningsmanna sem hann hafði safnað um persónu sína fremur en málefnin sem flokkurinn átti að standa fyrir fyrir. 

Í hönd fóru fundir vítt og breitt um Suðurland. Þetta reyndust ekki vera neinir skemmtifundir og það rann upp fyrir okkur sem þarna höfðum komið bláeyg til leiks, að ef eitthvað ætti að verða úr þessu framboði, yrðum við að láta sverfa til stáls.  Sem við og gerðum, en auðvitað varð það til þess, að ágreiningurinn komst í fjölmiðla og þá var ekki að sökum að spyrja. Hér er umfjöllun í ónefndu dagblaði eftir afskaplega erfiðan og harðan fund:
2. mars, 1995:  
Tveir bítast um efsta sætið hjá Þjóðvaka í Suðurlandskjördæmi, Þorsteinn Hjartarson skólastjóri á Brautarholti á Skeiðum og X. 
Á fundi Þjóðvaka sem haldinn var á Þingborg í Flóa á þriðjudagskvöld urðu átök um fyrsta sætið. Greidd voru atkvæði á fundinum um skipan tveggja efstu sætanna eftir orðaskipti milli fylkinga. Á fundinum var síðan samþykkt að talning færi ekki fram fyrr en eftir klukkan 19 á laugardag og að fram til þess tíma hefðu þeir félagar í Þjóðvaka á Suðurlandi sem ekki mættu á fundinn rétt til að greiða atkvæði um skipan efstu sætanna á listanum.
Fundurinn snerist upp í prófkjör
Fyrir fundinum lá tillaga um að Þorsteinn Hjartarson, Skeiðum, Ragnheiður Jónasdóttir, Hvolsvelli, og Hreiðar Hermannsson, Selfossi, skipuðu þrjú efstu sætin. Á fundinum kom fram tillaga um að Þorsteinn Hjartarson  skipaði fyrsta sætið og X, annað sætið. Fundurinn á Þingborg snérist því upp í prófkjör fram til laugardagskvölds um tvö efstu sætin á framboðslistanum.
Þorsteinn Hjartarson kvaðst mundu taka niðurstöðunni hver svo sem hún yrði. X hefur lýst því yfir að ólíklegt sé að hann taki annað sæti á listanum fái hann ekki fyrsta sætið. Hann vísar til tilnefninga sem félagsmenn gerðu um fólk á listann. Hann hefði fengið mun fleiri tilnefningar en Þorsteinn og vill að farið sé eftir þeim.
Í mínum huga er þetta stærsta áskorunin sem blasir við þegar ný stjórnmálaöfl reyna að ná fótfestu. Þar sjá ýmsir tækifæri til persónulegs ávinnings og hugsjónirnar víkja fyrir vongóðum smákóngum sem langar að komast í valdastöðu.
7. apríl, 1995:Yfirlýsing frá 60 Sunnlendingum Hörð gagnrýni á forystu Þjóðvaka
Sextíu Sunnlendingar hafa undirritað yfirlýsingu til stjórnar suðurlandsdeildar Þjóðvaka, sem barst blaðinu í gær, þar sem forysta og framboðsmál Þjóðvaka á Suðurlandi eru harðlega gagnrýnd.
Í fréttatilkynningu, sem fylgdi yfirlýsingunni, segir m.a. að í tilefni þess, að undanfarna daga hafi umræða átt sér stað um framboðslista Þjóðvaka á Reykjanesi og víðar og að ritari flokksins hafi sagt að um einstakt óánægjutilvik sé að ræða, vilji 60 Sunnlendingar tilkynna að svo sé alls ekki. Gríðarleg óánægja hafi lengi verið með forystu og framboðsmál Þjóðvaka á Suðurlandi og mál þar þróast með þeim endemum að þeir sem undirriti yfirlýsinguna hafi kosið að nota þetta tækifæri til þess að segja skilið við flokkinn. Í yfirlýsingunni er meirihluti stjórnar suðurlandsdeildar Þjóðvaka sakaður um að hafa margbrotið lög félagsins og traðkað á lýðræðislegum réttindum félagsmanna.

Svo mörg voru þau orð. Daginn eftir voru síðan haldnar þingkosningar.

Því miður held ég, að þessi sömu örlög bíði Pírata í kosningum eftir rúmt ár ef forystumönnum þeirra tekst ekki að loka fyrir skúmaskotin og halda aftur af mannkynslausnurunum sem þau fylla.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...