05 september, 2020

Laugarás: Hvað ef þetta hefði gengið eftir?


Þann 6. apríl, árið 1972 var haldinn svokallaður almennur sveitarfundur í Aratungu. Þar var meðal annars fjallað um skólamál í uppsveitunum. Á þessum tíma var Þórarinn Þorfinnsson á Spóastöðum, oddviti hreppsnefndar. Arnór Karlsson, ritari fundargerða hreppsnefndar, ritaði fundargerð þessa fundar. 
 Á þessum tíma var ég nú bara unglingsræfill sem vann við brúarsmíðar á sumrin og gekk í ML á vetrum. 
 Ætli þetta sé ekki nægilegur formáli að þeim lið í fundargerðinni þar sem fjallað var og ályktað um skólamálin. Ekki á ég von á að þetta falli öllum í geð, en hafa ber í huga, að það er tæp hálf öld síðan þetta var. 
Ég mun freista þess að skrifa lítilsháttar viðbrögð við þessu, í lokin. Feitletranir eru mínar.

 

2. Skólamál

Sveinn Skúlason, formaður skólanefndar Reykholtsskólahverfis, reifaði þessi mál.

Sagði hann frá fundi, sem haldinn var í Árnesi í Gnúpverjahreppi, fyrr á þessum vetri með skólanefndamönnum og oddvitum í uppsveitum Árnessýslu. Þar var fjallað um framtíðarskipan fræðslumála í þessum sveitum. Einnig sagði hann frá umræðum um fræðslumál, sem fram fóru á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi 25. marz, s.l, og tillögum til umræðna um skólaskipan á Suðurlandi, sem fulltrúar Menntamálaráðuneytisins lögðu þar fram.

Þórarinn Þorfinnsson ræddi þessi mál og lagði fram frumdrög að tilllögum til samþykkta.

Þorsteinn Sigurðsson tók til máls og drap á nokkkur atriði í sögu skólamála í Biskupstungum. Hann taldi, að mörg rök mæltu með að byggður væri skóli fyrir efstu bekki skyldunámsins í Laugarási og lýsti eindregið stuðningi sínum við þá hugmynd.

Taldi hann heppilegt að stofna búnaðarskóla á Laugarvatni. Grímur Ögmundsson lýsti stuðningi við þá hugmynd.

Sveinn Skúlason tók til máls og gaf nokkrar, nánari skýringar og óskaði eftir smávægilegum orðalagsbreytingum á tillögum Þórarins.

Tillögurnar voru síðan bornar upp og samþykktar samhljóða.

Þær voru á þessa leið:

Á almennum sveitarfundi í Biskupstungum, höldnum í Aratungu 6. apríl, 1972, þar sem rætt var um skólamál í uppsveitum Árnessýslu, með hliðsjón af nýjum tillögum Menntamálaráðuneytisins um skipan fræðslu- og skólamála á Suðurlandi, var samþykkt eftirfarandi:

1. Fundinum er ljóst, að til þess að leysa fræðslumálin á viðunandi hátt á þessu svæði, verða mörg sveitarfélög að vinna saman með rekstur skóla fyrir efstu bekki skyldunámsins og telur eðlilegt að sveitir þær, sem mynda Laugaráslæknishérað, vinni saman að lausn þessa máls.

2. Fundurinn telur Laugarvatn ekki heppilegan stað fyrir slíkan skóla. Bendir í því sambandi á að Laugarvatn er alveg úti á jaðri þess svæðis sem skólann á að sækja og því lítið hægt að koma við daglegum heimanakstri, vegna fjarlægðar, en mikill heimanakstur er talinn mjög æskilegur.

Einnig er vafasamt, að heppilegt sé, að setja svo marga, ósamstæða skóla hvað aldur nemenda snertir, á einn stað, eins og er á Laugarvatni.

3. Fundurinn vill benda á Laugarás, sem heppilegan stað fyrir slíkan, sameiginlegan skóla uppsveitanna. Til stuðnings við Laugarás má nefna:

a. Laugarás er miðsvæðis, og skóli vel settur þar með tillliti til daglegs heimanaksturs.

b. Í Laugarási, sem er sameign Laugaráshéraðs, er vaxandi þéttbýli og öll nauðsynleg þægindi fyrir slíka stofnun.

c. Barnaheimili Rauða krossins í Laugarási þarf endurbyggingar við og virðist eðlilegt að samvinna væri höfð við Rauða krossinn um bygginguna, þannig að skólinn væri notaður fyrir barnaheimili að sumrinu. Nýtist þá húsið betur og rekstur þess yrði hagkvæmari.

d. Ekki er ólíklegt að einhver samvinna gæti orðið um kennslukrafta milli skólans í Laugarási og skólans sem verið er að reisa í Skálholti, þar sem svo stutt er á milli. Einnig er ekki lengra til Reykholts en það, að sami sami kennari gæti kennt á báðum stöðunum, ef það þætti henta.

 

Ég viðurkenni það, hér og nú, að ég hafði ekki búist við að sjá samþykkt af þessu tagi á almennum sveitarfundi í Aratungu. Þá neita ég því ekki, að ég hlakka dálítið til að kynna mér fundargerðabækur oddvitanefndar Laugaráslæknishéraðs þarna um vorið 1972. Því miður virðast gjörðabækur annarra sveitarfélaga í uppsveitum, frá þessum tíma ekki vera aðgengilegar á vefnum enn, en það væri fróðlegt að kynna sér hvaða samþykktir áttu sér stað þar, um þetta efni. 

Ég veit veit hvernig fór með þessa samþykkt, en mér er ekki ljóst enn, hvað leiddi til þess að svo fór sem fór. 

Það eru spennandi tímar framundan hjá þessum nörd.

Engin ummæli:

Það sem maður ætlar sér

Ég læt mig hafa það að ítreka, að fyrir nokkru tók ég feil á fossum og er varla búinn að jafna mig á því enn.  Nú get ég hinsvegar staðfest...