Við leiði sr. Pál í Gaulverjabæ |
Ég fór auðvitað að leita mér upplýsinga um þennan prest og fann í Kirkjuritinu frá 1960, erindi sem séra Magnús Guðjónsson (presturinn sem skírði mig) hafði flutt í tilefni af 50 ára afmæli Gaulverjabæjarkirkju, 1959). Magnús fjallar þarna um ýmsa presta, meðal annars Pál Sigurðsson (6. tbl. 01.06.1960, bls 263-275):
Sá prestur, sem flestum kemur í hug enn í dag, þegar minnzt er á Gaulverjabæ, er séra Páll Sigurðsson. Hann er langkunnastur síðari tíma presta í Gaulverjabæ og gnæfir hátt yfir, að sínu leyti eins og séra Torfi um miðbik 17. aldar. Elztu menn í Gaulverjabæjarsókn muna enn andlega stórmennið og ljúfmennið séra Pál. Hann var ættaður að norðan, bóndasonur frá Bakka í Vatnsdal. Þar fæddist hann 16. júlí 1839. Hann var framúrskarandi gáfaður maður og glæsilegur. Hann vígðist að Miðdal í Laugardal, síðan fékk hann veitingu fyrir Hjaltabakka, nálægt æskustöðvunum, en fékk Gaulverjabæ 2. febrúar 1880. Þar var hann prestur til æviloka, en þau urðu allslysaleg. Hann, þessi frækni maður , „féll, er hann ætlaði að stíga á hestbak til þess að fara í embættisferð“. Sennilega hefur flísazt úr beini. Nú hefði slíkt varla orðið nokkrum manni að aldurtila.
Séra Páll var ágætiskennari, m. a. kenndi hann undir skóla Guðmundi Hannessyni, síðar prófessor, og dr. Valtý Guðmundssyni, sem kemur mjög við sögu stjórnarskrármálsins. En þekktastur er séra Páll sem skörulegur kennimaður. Er það rómur fróðra manna, að hann fylli flokk mestu ræðuskörunga, sem íslenzk prestastétt hefur átt. Ég hef lesið, að fólk hafi streymt víða að til Gaulverjabæjar til að hlýða á þennan mikla kennimann, sem var á undan sinni samtíð og flutti með sér nýjan kenningarmáta. Ekki má skiljast svo við séra Pál, að ei sé minnzt á samband hans við séra Matthías Jochumsson, en það var mikið og náið, þó að oft væri langt milli bústaða. Sagt er, að séra Matthías hafi ort einn fegursta og mesta sálm sinn: „Fyrst boðar Guð sitt blessað náðarorðið", út af ræðu, sem séra Páll hélt, þegar hann var ungur prestur í Miðdal. Kennir þar að ýmsu leyti annars kenningarmáta en síðar varð. Og sennilega hefur séra Matthías fyrst haft þau áhrif á unga prestinn. Byltingarkenndir straumar frelsis, jafnréttis og bræðralags fóru um álfuna. Þeir komust inn í guðfræðina, og eins og venja er í slíkum átökum, skolaðist margt gamalt og gott brott í bili. Ungi presturinn gáfaði hreifst með, bylting varð í huga hans, Gaulverjabær var á hvers manns vörum. Séra Páll var skemmtilega orðheppinn. Einu sinni fóru þeir séra Matthías og hann upp að Móum á Kjalarnesi, en séra Matthías var þá prestur þar. Þá spurði hann séra Pál: „Heyrðu, veiztu, hvað Esjan er þung?" Séra Páll svaraði: „Það mátt þú vita, þú býrð undir henni." Séra Páll er einnig þekktur fyrir ritstörf sín, þ. á m. er skáldsagan Aðalsteinn, sem kom fyrst út á Akureyri 1876 og nú aftur nýlega. Árið 1894 kom út húslestrarbók séra Páls, sem víða hefur verið til. Og svo er það Páskaræðan, sem haldin var í Gaulverjabæ 1885, en hún vakti mikið umtal á sínum tíma. Það, sem einkum hefur einkennt séra Pál mest, er sannleiksást, hreinskilni og einurð.
Ég hygg nú að það sé að verða fátíðara að börn séu skír í höfuð móður- eða föðurforeldra, enda tískustraumar í nafngiftum eins og öðru.
Hveratúnsfjölskyldan 1960 Mynd Matthías Frímannsson |
Foreldrar mínir viku ekki hænufet frá þeirri hefð að skíra börn sín nöfnum fólks sem þeim hafði staðið næst og ég leyfi mér að gera grein fyrir því hér á eftir:
Elín Ásta (f. 1947) hlaut nöfn móðurömmu sinnar Elínar Jóhannsdóttur (1887-1980) og móðursystur sinnar Elínar Ástu Pálsdóttur (1922-1933) sem lést á barnsaldri.
Sigrún Ingibjörg (f. 1949) var skírð í höfuð tveggja kvenna sem nærri stóðu föður hennar. Þær voru Sigrún Pálsdóttir Blöndal, skólastýra á Hallormsstað (1883-1944), fóstra Skúla og móðir hans Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968).
Páll Magnús (f. 1953) hlaut nöfn beggja afa sinna, sem bendir til að foreldrarnir hafi ekkert sérstaklega reiknað með að eignast fleiri syni. Þessir afar voru þeir Páll Guðmundsson (1887-1977) og Magnús Jónsson (1887 (eða 1888)-1965).
Benedikt (f. 1956) var síðan næstur og nafnið sem honum var valið var nafn fóstra föður hans á Hallormsstað, Benedikts Magnússonar Blöndal (1883-1939).
Magnús (f. 1959). Þegar enn bættist við sonur, hljóta góð ráð að hafa verið dýr, enda nöfn allra feðra og fóstra þegar frátekin, en niðurstaða þeirra Hveratúnshjóna var, að skíra þann yngsta nafni föðurafa síns, Magnúsar Jónssonar (1887(eða 1888)-1965). Magnús afi var okkur sérlega tengdur, þar sem hann bjó hjá okkur í Hveratúni síðustu æviárin og átti fyllilega skilið að drengur fengi nafn hans sem fyrsta nafn. Jóni Vídalín á Sólveigarstöðum mun ekki hafa fundist mikið til um andagiftina hjá Hveratúnshjónum.
Þessi yngsti, Magnús, fagnar í dag 61s árs afmæli sínu. Svona líður tíminn.
Magnús á síðari hluta sjöunda áratugarins. Á bakvið er þekktur maður ;) Mynd frá Sólveigarstöðum |
Eg ætlaði nú ekki að ryðjast hér inn félagi Páll en þar sem þú nefnir afa þinn Magnús þá langar mig að deila minningum mínum um hann, (eins og ég man þær)
SvaraEyðaMagnús var lítill kall og orðinn mjög gamall þegar ég man eftir honum sem hefur verið laust eftir 1960. Þa sat hann langa vetur út í gróðurhúsi og óf mottur úr afgangstuskum sem síðan voru nýttar sem mottur í forstofur heimila . Án þess ég muni nákvæmlega held ég að vefstóllinn hafi örugglega verið heimasmíðaður og hefur sennilega fengið að fljóta með öðru drasli í einhverri tiltektinni eftir að Magnús hætti að nota hann. Það var svo skrítið með hann Magnús gamla ( var aldrei kallaður annað) að hann var bara þarna, eins og af himnum ofan sat hann daglangt við vefstólinn og óf, og við smálfólkið nýttum okkur barngæsku hans og dunduðum okkur ýmislegt í nálægð hans. Þar voru lagðir vegir og byggðar brýr um moldarhaugana og er ég nokkuð viss um að spjarirnar okkar hafi fengið beinan farveg í þvottavél þess tíma þegar heim var komið. Magnús kunni ógrynni af sögum og vísum og sagði okkur margar , þó svo að barnsminnið hafi ekki fest neina þeirra sérstaklega. Af því kom að Magnúsi var bannað að segja okkur sögur og þá sérstaklega vísur því einhver hafði á orði við Guðnýju Páls að hann Magnús væri að kenna börnunum klámvísur og þar með var þessi fróðleikur fyrir bý. Magnús hvarf úr lífi okkar þorparanna með sama hætti og hann kom , hann bara hvarf. En enn man ég motturnar góðu ...
Takk fyrir þetta :) Ég reikna með að þú heitir Pétur?
SvaraEyða