25 janúar, 2021

Á dauða mínum ...

Það er þannig, að ég á mág, sem á það til að fara eigin leiðir. Hann er að byrja að feta sig inn á áttræðisaldurinn og maður skyldi ætla, að á þeim aldri væri fólk nú alla jafna bara tiltölulega sátt við heilsueflandi leikfimi af einhverju tagi - styrkja líkamann með því að hreyfa hann eins og er við hæfi og jafnvel ganga svo langt að svitna lítilsháttar. 
Ekki veit ég hvort það er vegna þess að einhverntíma stundaði mágur mín íþróttir af nokkrum krafti, eða þá að hann er svo mikill hestamaður í sér (og slíkir láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna) en um leið og Þórólfur leyfði, skráði hann sig á námskeið í Crossfit, svokölluðu. Þá íþróttagrein hef ég nú bara tengt við fólk eins Annie Mist, sem maður hefur heyrt af undanfarin ár, í heimsmeistarakeppnum. Myndir af slíkum keppnum hafa algerlega sannfært mig um, að aldrei, aldrei muni ég koma þar nærri. Ég hef verið fullkomlega sannfærður um að það sem þar er um að ræða, sé hvorki hollt líkama né sál, það þurfi að vera hálfgeggjaður til að leggja það fyrir sig.

Jæja, mágurinn skráði sig í námskeið í Crossfit, og ekki nóg  með það: eftir þrjá tíma var hann orðinn uppveðraður og mjög áhugasamur um að draga mig með sér, sem ég taldi til að byrja með af og frá, þó sannarlega teldi ég að regluleg hreyfing undir stjórn einhverrar fagmanneskju, myndi gera mér gott. Slík hreyfing hefur legið niðri, sem þáttur í sóttvörnum, og fyrir utan heilsubótargöngur, hefur sófinn verið athvarf mitt meira en góðu hófi gegnir.

Ég er nú þannig innréttaður, að ég velti fyrir mér kostum og göllum. Það gerði ég einnig gagnvart þessari Crossfithugmynd. Hugsunin hvarf ekki úr huga mér í gær, daginn fyrir fyrsta mögulega tímann. Ég var meira að segja farinn að finna til líkamlegra verkja við tilhugsunina; verkja sem ég hefði getað túlkað sem skilaboð heilans til vöðvanna, um að betur yrði heima setið en af stað farið. Niðurstaðan um að láta slag standa, helgaðist kannski af því að talasvert eldri einstaklingur hafði komist frá þrem tímum af þessu púli og á honum var enginn bilbugur.

Ég ákvað, sem sagt, að skella mér í Crossfit, níu heila klukkutíma, næstu þrjár vikur.

Við mættum því galvaskir í morgun, fyrir allar aldir, mágur minn og ég. Grímur fyrir andlitinu meðan gengið var inn í, sennilega 250 fermetra salinn. Veggir og gólf máluð svört og endalaust úrval af líkamsræktartækjum hvert sem litið var. Samtals vorum við þarna þrír stútungskarlar mættir til að "taka áðí".
Þjálfarinn var ung kona, Crossfitmeistari.

Ekki ætla ég að fjölyrða um æfingarnar sem þarna fóru fram, að öðru leyti en því að greina  frá því að þær voru erfiðar. Alloft fann ég fyrir því að vöðvarnir brugðust ekki við skipunum heilans, sem minnti mig á fyrri reynslu af aðstæðum þar sem vöðvaafls var þörf, en sem reyndist þá ekki vera fyrir hendi.

Heim komst ég, nokkuð lerkaður, en ánægður með sjálfan mig, að mestu leyti. 
Ætli ég reyni ekki að halda þetta út, annað væri lélegt, ekki síst með talsvert eldri máginn til samanburðar.Engin ummæli:

Tungnamenn vildu kaupa

Ég hef stundum fjallað um Laugarás í þessum pistlum og ekki að ósekju. Uppsveitahrepparnir eignuðust Laugarásjörðina þegar þar var sett niðu...