Mögulegur aftökustaður í skjóli frá kirkjunni. |
Þar sem ég fæddist og bjó lengst af í nágrenni við Skálholtsstað hefur ekki farið hjá því að sagan um þessa aftöku hafi snert við mér. Sem barn hélt ég að minnisvarðinn um feðgana, sem þarna er að finna, væri beinlínis höggstokkurinn sjálfur og velti fyrir mér hvernig framkvæmdin hafi mögulega verið á þessum steinstöpli. Svo lærði ég að þarna væri bara um minnisvarða að ræða og ekki lægi nákvæmlega fyrir hvar höggstokkurinn var. Þetta dró mjög úr vægi minnisvarðans í huga mér. Var þá kannski ekki víst, að þeir hafa yfirleitt verið teknir af lífi þarna í grennd við minnisvarðann? Kannski bara allt annarsstaðar?
Svo fór ég í göngu á Skálholtsstað fyrir ekki svo löngu síðan, þar sem Bjarni Harðarson var leiðsögumaður. Hjá honum kom maður ekki að tómum kofanum frekar en fyrri daginn. Hann gat nánast bent á staðinn þar sem feðgarnir voru líflátnir. Norðan undir lambhúsum (allavega útihúsum), sem eitt sinn stóðu rétt hjá þar sem minnisvarðanum var valinn staður (sjá mynd). Sá staður mun, að sögn Bjarna, hafa verið valinn, því ekki þótti við hæfi að til þessa illa athæfist sæist frá kirkjunni. Þetta er eins góð skýring og hver önnur, en stangast á við það sem Gunnar Gunnarsson segir hér fyrir neðan, en af því má skilja, að höggstokkurinn hafi verið fluttur til milli hæða, eftir fyrri aftökurnar tvær. Ef honum var komið fyrir á hæðum, bendir það ekki til þess að menn hafi verið feimnir við að athæfið sæist frá kirkjunni. Um þetta veit ég auðvitað hreint ekkert og læt öðrum um að velta því fyrir sér. Saga Gunnars er auðvitað ekki endilega sagnfræðilega kórrétt frekar en Brennu-Njálssaga, ef út í það væri farið. Það sama má auðvitað segja um pælingar Bjarna.
Hvað sem þessu öllu líður, þá læt ég hér fylgja tvær frásagnir af dauða Jóns Arasonar, biskups og sona hans, Ara og Björns. Sú fyrri er bútar úr síðustu blaðsíðum bókar Gunnars Gunnarssonar, en þá síðari er að finna á https://ferlir.is .
Gunnar Gunnarsson: JÓN ARASON
Dapur og drungalegur rann yfir Ísland 7. dagur nóvembermánaðar árið 1550. – dagur óafmáanlegrar svívirðu, dagur ævarandi sóma.
Af þeim feðgum er að segja, að síra Björn hafði legið í
hitakófi mestan hluta nætur, Ari sofið og ekki vitað af sér, biskup vakað og
beðið, en dottað stundum í hendur sér. Hrökk hann þá jafnan upp með
kuldahrolli, stóð á fætur og gekku gólf stundarkorn. Lagðist síðan aftur á bæn.
Það aðeins mótaði fyrir gluggarúðunum, þegar kirkjuhurðinni
var hrundið upp og flokkur varðmanna gekk innar eftir gólfinu. Herra Jón áttaði
sig ekki á því alveg samstundis, að einnig synir hans væru þar komnir. Þegar
hann loks koma auga á þá, brosti hann, rétti bundnar hendur sinar að leiðtoga
varðliðsins og sagði: „Leystu mig kunningi!“
Varðmaðurinn skar á böndin. Síðan tók herra Jón hnífinn úr höndum hans og
spretti böndum sona sinna. Létu varðmennirnir það við gangast.
„Ari Jónsson!“, var kallað framan úr hálfrökkrinu.
Ari rétti úr sér, hikaði andartak, hneigði sig djúpt fyrir föður sínum. sem sat
undir síra Birni, gekk hvatlega fram kirkjugólfið og út, og leit ekki um öxl. –
dauf dagskíma gægðist fram milli hrannaðra skýja.
Höggstokknum hafði verið komið fyrir á hæð einni utan túns.
Síðan kraup Ari á kné, lagði höfuðið á stokkinn, teygði fram
hálsinn, svo að vel sá til sina og liða – enda fór höfuð hans af í fyrsta
höggi og valt niður í krapablána.
„Björn Jónsson!“, var kallað frammi við dyrnar.
Síra Björn heyrði kallið og rankaði við sér, reis á fætur, strauk svitann af
enni sér, - en reikaði á fótum og var nærri dottinn. Faðir hans greip utan um
hann og studdi hann fram kirkjugólfið. Prestur bað föður sinn ekki óttast um
sig. Var hann hugrakkur þá stundina. En svo var honum mikið niðri fyrir, að
hann gleymdi að kveðja föður sinn.
Það setti að honum sáran grát: „Börnin mín!“, kveinaði hann:
- „Æ, börnin mín ung og smá!“ ...
Á túninu utarlega féll prestur í ómegin. Rankaði hann þó
aftur við sér, þegar að höggstokknum kom, - vitkaðist það mikið, að hann skildi
hvað um var að vera. Kraup hann niður, viljugur, lagði höfuðið á stokkinn, en
gat ekki legið alveg kyrr vegna köldufloganna.
Fyrsta höggið geigaði og varð að svöðusári. Prestur tók til
hnakkans, reyndi að brjótast á fætur, en var keyrður niður. Blóðið fossaði um
hann allan og skvettist langar leiðir, en honum var haldið föstum – eftir því
sem til vannst – af hjálparsveinum böðulsins.
Enn minntist hinn veiki og hálfhöggni maður á ómagahópinn sinn heima og bað sér
vægðar. En nú reið á hann högg af höggi, og skildi fjórða höggið loksins höfuð
frá bol. –
„Jón Arason!“....
Biskup sagði til sín, en baðst undan handahlekkjum.
Fékk hann að ganga laus og liðugur til aftökustaðarins.
Höggstokkurinn hafði verið fluttur á þriðju hæðina. Streymdi
þangað slíkur mannfjöldi, að Dönum og dindlum þeirra þótti nóg um.
Tvö skref frá höggstokknum gekk Daði bóndi fram og ávarpaði
hann virðulega. Kvaðst hann hafa fengið því framgengt við fógeeta, að lífi
biskups skyldi þyrmt, ef hann ynni að því eið, að hefna aldrei eða láta hefna
neins þess er hér hafði gerzt. .
Herra Jón leit á bónda fullur iðrunar: „Sýnist þér ekki, að
synir mínir hafi fylgt mér það langt, Daði sæll, að hæfilegast sé, að ég fylgi
þeim síðasta spölinn?“ spurði hann.
[Biskup] gekk að höggstokknum. En svo var hann stirður
orðinn, að þeir urðu að ljá honum hönd, á meðan hann var að komast á knén. Og
svo var hann knýttur í herðum, að þó hann reyndi á ýmsa vegu að teygja hálsinn
til höggs, tókst það ekki sem bezt.
Loksins sýndist þó böðlinum sakamaðurinn liggja sæmilega við höggi. Lét hann þá
öxina ríða. Varð af því sár öðrum megin á hálsinu. Manngreyið var ekki
almennilega búinn að ná sér eftir
óhappið með síra Björn. Má vera, að það hafi ráðið nokkru um, hve
skeifhöggur hann nú reyndist.
Hjó hann nú sem óðast. Mátti þó enn, eftir fjórða höggið
greina rödd bandingjans, er bað fyrir sér hóflega:
„In manus tuas domine .....“
Sjö höggva þurfti við, áður gráhært höfuðið losnaði frá bolnum og hraut niður í
krapið.
(Rit Gunnars Gunnarssonar VII: Jón Arason - Útgáfufélagið Landnáma Reykjavík 1948,-bls 418-427)
Ferlir.is
Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel. Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.
Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: “In manus tuas, domine, commendo spiritum meum” – herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið. (https://ferlir.is/aftaka-jons-biskups-arasonar-og-atburdir-a-sudurnesjum-2/)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli