18 nóvember, 2022

Lítið eitt um sálmabækur


Ég er í kór sem syngur talsvert af sálmum. Því miður aðallega einraddað, sem hentar þeirri raddtegund sem ég tilheyri, ekkert sérlega vel. Jú, einstaka sinnum fæ ég og félagar mínir að takast á við fjórradda söng, sem eiginlega er ástæða þess að ég er yfirleitt í kór og sem heldur mér þar, auk félagsskaparins auðvitað - og stjórnandans.

Jæja, nú hefur verið tekin í notkun ný sálmabók.
Hún kemur í stað tveggja, sem eru orðnar ansi lúnar, sumar. Þessi nýja bók er nokkuð frábrugin þeim tveim sem nú hljóta örlög sem engin bók vill fá (ef bækur væru í aðstöðu til að hafa skoðun, svona yfirleitt). Þeirra bíður það hlutskipti að verða engu merkilegri en pappírinn sem þær eru prentaðar á. 
Verða þær bara settar í pappírsgáminn?
Munu kirkjugestir taka þær með sér heim til minningar um sálmabók sinnar kirkju og setja hana upp í bókahillu? Verða þær nýttar til að búa til eitthvað gagnlegt, jafnvel listaverk, í stórum stíl? Hver veit. Þær eru ekki lengur nýtilegar við messur í íslensku þjóðkirkjunni, svo mikið virðist ljóst. 

Nýja sálmabókin
Hún lítur í fljótu bragði út eins og sú stóra gamla, en víkur þó frá að ýmsu leyti, sem ég fer ekki í hér, utan það sem ég nefni á eftir. (þetta er ekki bókargagnrýni, því til slíks hef ég enga vigt).

Svona er nýju bókinn lýst á vef Bókatíðinda:


Þjóðkirkjan gefur nú út nýja sálmabók með 795 sálmum í fallegu og handhægu broti á alls 1200 blaðsíðum. Í bókinni eru kjarnasálmar kirkjunnar ásamt nýjum sálmum sem margir hafa orðið til á síðustu árum. Nótur eru við alla sálma og hljómar við öll lög. Vönduð efnisflokkun er í bókinni sem nýtist við val á sálmum við messur og aðrar athafnir.

Sálmabókin er söngbók kirkjunnar. Hlutverk hennar er að efla þátttöku safnaðarins í helgihaldinu ásamt kórum kirknanna. Sumir sálmar fá fleiri en eitt lag og öll lögin eru hljómsett sem auðveldar notkun sálmanna. Nokkrir einfaldir smásálmar, þar á meðal Taize-söngvar, eru í fjórum röddum, sem gefa söfnuðinum kost á að syngja raddað með kórnum.

Sálmabókin er einnig lesbók sem fylgir okkur í lífi og starfi. Því eru öll erindi sálmanna prentuð neðan við nótnamyndina. Í sálmabókinni er einnig bænabók, messusöngur kirkjunnar og vandaðar skrár um alla höfunda efnis.


Þá vitum við það og það er vissulega kostur, að nú eru allir sálmarnir í einni bók, sem auðveldar sannarlega verkefni kórfólks og örugglega líka þeirra kirkjugesta, sem hafa hug á að ástunda safnaðarsöng.  Ekki er ég búinn að rannska bókina með tilliti til þess hvað sálma er þar að finna. 

Hvaða sálmar eru horfnir? Eru það þeir sem lýsa samfélagi kirkjulegu eða mannlegu, sem hefur tekið breytingum? 
Hvaða nýju sálmar eru komnir inn? Hvað réð vali þeirra? Eru þeir líklegir til að auka kirkjusókn? 

Nei, ég á sennilega margt ólært um þessa nýju bók, ef mér tekst að takast á við að syngja úr henni eitthvað áfram, en tvennu hef ég tekið eftir varðandi þessa nýju bók, sem gæti haft þau áhrif að fækka eldri kórfélögum. Fyrir þessu eru aðallega tvær ástæður:1. Letrið sem fylgir nótunum, er afar smátt, svo smátt, að ég á í mesta basli með að lesa það, meira að segja með sæmilegri lýsingu, tiltölulega ungur maðurinn. Svarið við því vandamáli er augljóslega það, að ég þurfi bara að fá mér ný gleraugu, sem mér finnst nú frekar mikið í lagt, til að geta sungið sálma í sálmabók. 
2. Pappírinn í bókinni er mjög þunnur, svo þunnur að ég varð vitni að því að ágætur kórfélagi hætti allt í einu að syngja í miðju lagi, þar sem hann fletti um tvær blaðsíður í stað einnar og lenti þar með á næsta sálmi, í stað næsta erindis í sálminum sem verið var að syngja.

Ekki neita ég því, að mér finnst nokkur hætta á því að einhverjir félagar í kirkjukórum, sem eru farnir að finna fyrir hækkandi aldri og því sem honum fylgir, muni segja gott vera komið. Sérstaklega er þetta áhyggjuefni þar sem um er að ræða karlana, því ungir karlar, sem eru tilbúnir að syngja í kirkjukór virðast ekki tíndir upp af götunni. Ég veit ekki hvaða þolinmæði þeir eldri kunna að hafa fyrir því að þurfa að læra nýja sálma, þar sem þeir greina varla textann sem á að syngja. 
Í bókinni eru margir sálmar sem vant fólk kann nú þegar og vegna þess að textar sálmanna eru prentaðir fyrir neðan nóturnar í stærra og betur læsilegu letri, má reikna með að það gangi allt saman.

Ekki ætla ég að pæla í því hvernig söngelskir kirkjugestir munu bregðast við þessari nýju bók, en vonandi fá þeir að njóta góðrar lýsingar við sönginn og umfram allt að gleyma ekki gleraugunum heima.

Svo gæti ég alveg haldið áfram, en held að ég láti hér við sitja.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hver ákvað að útrýma manninum?

Mig langar á fá svar við því, hvar, nákvæmlega, ákvörðunin um að setja málkerfi íslenskunnar í uppnám, í ríkisútvarpinu. Um þetta hljóta að...