16 desember, 2022

Ofurspenna og englahár

Heimagert, anno 2022
Spennan var nánast óbærileg. Pabbi og mamma skiptust á við að hverfa inn um dyrnar á stofunni, sem voru annars rammlæstar. Við vissum svo sem að þau væru að undirbúa, skreyta og koma fyrir.  Það var aðfangadagur, eins í allmörg ár, bæði í gamla bænum og þeim nýja. Alltaf var stofan læst á aðfangadegi. Við urðum æ spenntari eftir því sem á leið daginn, en það lá sko ljóst fyrir, að inn í stofuna færum við ekki.

Dagurinn leið og klukkan sjö var komið að því að setjast að dýrðar jólamatnum, sem var allavega í mínu minni, svínakótilettur steiktar í raspi, sem hafa aldrei bragðast jafn vel síðan. Með þeim það sem hæfði, líklega sulta, grænar baunir, brúnaðar kartöflur og rauðkál (minnir mig). Spenningurinn dvínaði aðeins meðan maturinn var snæddur en rauk svo upp jafnskótt og máltíðinni lauk. Þá tók uppvaskið og frágangurinn við, en ég minnist þess ekki að hafa tekið verulegan þátt í því óspennandi verkefni. Grunar að þar hafi systur mínar fengið að njóta sín. 

Það var svo ekki fyrr en allt var frágengið, að það kom að opnun stofunnar. Lykillinn var tekinn fram og stungið í skrána, þar sem við biðum í ofvæni, eftir því bakvið dyrnar beið. Dyrnar lukust upp og við blasti ótúlegur töfraheimur, þar sem jólatréð var miðpunkturinn. Tréð var ekki stórt, kannski svona metri á hæð, gervitré, sem var hluti af þessum hefðum. Önnur jólatré voru fremur ómerkileg í samanburðinum. Á trénu var jólasería, sem var hreint ómótstæðileg. Á henni voru ljóskúlur í ýmsum litum og upp úr hverri þeirra var vökvafyllt glerpípa, sem sauð í - eða allavega risu loftbólur stöðugt upp í þessar pípur. Það var einnig búið að hengja allskyns skraut  á þetta fína tré, en það sem gerði útslagið var englahárið. Tréð var hreinlega þakið englahári, þá lá yfir því eins og teppi, sem varð til þess,að ljósið frá seríunni glitraði. Það liðu mörg ár áður en ég tók tré, sem voru öðruvísi en þetta, í sátt. Jólatré án englahárs voru bara ekkert hátíðleg.  
Nú er liðinn einhver slatti af árum síðan og eitthvað hefur smekkurinn breyst, bæði vegna aukins aldurs og kannski eitthvað meiri víðsýni, eða tískustraumum í skreytingum. Ætli megi ekki segja að smekkurinn sé bara farinn að nálgast tímann áður en hægt var að verða sér úti um jólatré á Íslandi, svona yfirleitt, þegar fólki smíðaði sjálft jólatrén sín, eitthvað í líkingu við það sem þeir héldu að þau hlytu að vera.

Kannski er bara best að fara alla leið með þetta, úr því englahárið og seríurnar með glerpípunum eru ekki lengur valkostur. 

Englahár

EnglahárEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...