02 febrúar, 2012

Mér þykir það leitt, en þetta er ekki boðleg vara

Venjulega kaupum við fD gúrkur í Bjarnabúð, í Reykholti því við vitum að þær eru nýjar. Þangað áttum við ekki ferð og létum okkur því hafa það s.l. mánudag, sem var 30. janúar, að kaupa eina gúrku í Krónunni á Selfossi, en maður hefur alloft heyrt því fleygt að þar sé grænmetið talsvert skárra en í Bónus, án þess þó að ég ætli að taka afstöðu í því máli.
Ég þykist vita talsvert um gúrkur, enda uppalinn á garðyrkjubýli og stundaði sjálfur ræktun í ein 20-30 ár. Ég fór í gegnum gúrkukassana og valdi loks eina fagurgræna og stinna, gerði ráð fyrir að hún myndi verða í góðu standi í svona viku, ef á þyrfti að halda.

Í dag er þessi fagurgræna og stinna gúrka eins og sjá má á þessum myndum og ég myndi ekki vilja neinum svo illt að setja ofan í sig þessa gulleitu slepju sem vall út úr plastinu.

Ég veit af reynslu, að þetta er ekki ræktendunum um að kenna, heldur einhverju sem gerist frá því gúrkan fer frá þeim og þar til hún er sneidd ofan á brauðið eða í salatið. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar alllengi, að þessi plasthulsa sem gúrkur eru oft klæddar í, dragi úr geymsluþolinu þó sannarlega haldist þær lengur stinnar. Ég gæti vel trúað að þessi gúrka hafi verið skorin af plöntunni í kringum áramót (jafnvel fyrr).

Svona nokkuð er ekki boðlegt! Það er ekki einu sinni þannig, að maður geti sannað að gúrkan hafi verið keypt á tilteknum stað á tilteknum tíma.  Í skjóli þess, að þessi vara er ekki merkt með síðasta söludegi, er hún látin liggja í geymslum eða verslunum lon og don, svo lengi sem ekki er hægt að sjá utan á henni það sem fyrir innan er.

Mér er hlýtt til garðyrkjunnar og veit að þar starfa menn af metnaði. Þessi endi keðjunnar hlýtur að hafa slæm áhrif á orðspor þessarar greinar.





1 ummæli:

  1. Sammála Palli. Þetta er ekki boðleg vara hverju sem um veldur.
    Annars get ég ekki annað en minnst gömlu frásagnanna um gulu gúrkurnar sem seldar voru í verslunum á Vestfjörðum og á Austurlandi.
    Þegar þangað fóru að berast nýjar og ferskar gúrkur gátu heimamenn ekki orða bundist og vildu fá sínar gömlu góðu gulu gúrkur sem þeir voru vanir. Ekki þessa nýju grænu tegund.

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...