04 febrúar, 2012

Ég, baráttumaðurinn fyrir betri gúrkum

Í síðasta pistli fjallaði ég um óneysluhæfa gúrku og skellti myndum af gripnum með.


Ég sendi hlekkinn á þrjá aðila: Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjumanna og Krónuna.
Viðbrögð hef ég fengið frá tveim þeim síðarnefndu. Þau eiga það sameiginlegt, að halda því fram, að þarna sé líklega á ferðinni undantekning og mér bent á að fara með gúrkuna í búðina og fá aðra, góða í staðinn.
Svari sínu lýkur Kristinn Skúlason hjá Krónunni svona:
En í lokin þá átta ég mig ekki á því hver tilgangurinn var hjá þér að blogga þetta mál.
Mér finnst hann vera að gefa í skyn, að þegar svona einstakt tilvik á sér stað þá komi maður með vöruna í búðina og fái nýja.  Ég svaraði Kristni með þessum hætti:

Við einu vil ég bregðast, en það er að þú áttir þig ekki á tilganginum með þessum bloggskrifum.
Það má kannski segja að það komi ekki nægilega fram, en þetta er hreint ekki í fyrsta og örugglega ekki síðasta skipti sem ég og aðrir kaupum köttinn í sekknum varðandi grænmeti, sérstaklega í lágvöruverðsverslunum. Þessi umrædda gúrka var eiginlega kornið sem fyllti mælinn í þessum efnum hjá mér og ég tel mig ekki hafa haft á lofti stóryrði í garð ykkar eða annarra, enda ekki markimið mitt ata ykkur auri, heldur leggja lítið korn á vogarskálina í því skyni að ég geti farið að kaupa hið "ferska og brakandi" grænmeti sem auglýst er talsvert.

Maður fær það á tilfinninguna, með réttu eða röngu, að hugsunin með því að setja svo gamalt grænmeti fram í búðir sé sú að þetta sé nógu gott í kjaftinn á fólkinu fyrir það verð sem það greiða. Ég vona samt sannarlega að svo sé ekki.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé kominn tími til að upplýsingar um aldur grænmetis komi fram í verslunum, hvernig sem menn fara að því - þetta er hægt með aðrar landbúnaðarafurðir - því ekki gúrkur tómata og papriku.

Ég fer í kaupstað einu sinni í viku - því er að ekki fyrr en viku seinna sem ég get komið með gúrkuræksnið til að fá nýja - þú getur rétt ímyndað þér hvernig hún er þá útlítandi.
Þar fyrir utan hef ég annað að hugsa en að muna eftir að taka með mér einhverju gúrku sem kostaði tvöhundruð kall - mér fyndist það smásálarlegt.
Í gær bröskraði mér hinsvegar og í sambandi við það bloggaði ég - sendi jafnframt slóðina á ykkur, Sölufélag Garðyrkjumanna, og Samband garðyrkjubænda. Þetta er sá hópur í samfélaginu sem á að sjá til þess að við sem neytum þessarar vöru eigum kost á því besta hverju sinni.
Kristín Linda Sveinsdóttir, sem er markaðsstjóri hjá SFG, brást við með því að þakka ábendinguna, svona gæti vissulega komið fyrir og ég ætti að hafa samband við verslunina og fá nýja gúrku. Ég svaraði pósti Kristínar svona:
Það er nú svo, að þetta snýst ekki bara um eina gúrku - hún kostar einn til þrjá hundraðkalla - þó vissulega sé pirrandi að sitja uppi með svona vöru tveim dögum eftir að hún er keypt.
Ég sendi hlekkinn einnig á Samband garðyrkjubænda og Krónuna - enda tilgangurinn ekki að rífa niður, heldur reyna að styðja við vinnu að betra íslensku grænmeti í verslunum. 
Ég mun hika við að kaupa mér gúrku næst - það er tap fyrir garðyrkjuna, ekki síst ef það eru margir aðrir með sömu reynslu.

Þú nefnir einmitt það sem er stóri gallinn í þessu öllu, en hann er sá, að maður veit ekki hvenær gúrkan var skorin af plöntunni og pakkað hjá garðyrkjubónda. Ef ekki er hægt að treysta byrgjum og verslunum til að vera vakandi fyrir aldri grænmetis í hillum, þá finnst mér að til þurfi að koma upphafsdagsetningin - hvenær var gúrkan skorin?

Ég er búinn að fá svar frá Krónunni og hann skilur ekki tilgang minn með blogginu - en ég er búinn að svara honum til um það.

Ég fer í kaupstað vikulega og það er borin von að ég sé þannig þenkjandi að ég fari að burðast með gúrkukmaukið niður á Selfoss til að fá nýja gúrku - sem ég veit ekki hvort er eitthvað skárri.
Ég ræktaði papriku í ein 15 ár og fannst alltaf jafn nöturlegt að sjá aldrei þessa fersku papriku sem ég sendi frá mér í búðunum, heldur linkulegt drasl
 Kristín svarað þessum lestri mínum svona:
Ég skil vel vonbrigði þín og þau eru ekki síður okkar hér hjá Sölufélaginu. En eins og ég nefndi við þig þá getur þetta gerst því miður. Þó að það eigi ekki að gerast.

Við reynum eftir okkar fremsta megni að vera í góðu samstarfi við verslanir um þessi mál. Og ég veit til þess að verslanir þær hafa sinn metnað líka að gera þetta vel.

Vona að í næstu búðarferðum þínum þá verði vörurnar í lagi.

Ef þetta upphlaup mitt eykur líkur á að ég og aðrir getum treyst því að grænmetið sem við kaupum sé "brakandi ferskt" og að við fáum ekki aðeins að vita hvaðan það kom heldur einnig hvenær það kom þaðan.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...