02 desember, 2017

Gunnlaugur

Árið 1964 hvarf  Bragi Steingrímsson, héraðsdýralæknir, úr embætti vegna sjúkdóms.  Sá sem tók við af honum var Gunnlaugur Skúlason, frá Bræðratungu. Hann flutti ásamt eiginkonu sinni Renötu Vilhjálmsdóttur, (f. Pandrick) í dýralæknisbústaðinn í Launrétt 1 í Laugarási. Gunnlaugur var þá rétt um þrítugt, nýkominn frá námi í Þýskalandi og Renata 6 árum yngri.
Í Launrétt bjuggu þau í tæp 20 ár, og ólu upp börnin sín fimm, Barböru, Helgu, Elínu, Skúla Tómas og Hákon Pál. Í húsið sem þau byggðu í Brekkugerði í Laugarási fluttu þau 1983.  Læknisstofan var áfram í Launrétt í einhver ár áður en Gunnlaugur flutti hana í kjallarann í Brekkugerði.
Dýralækningar stundaði Gunnlaugur til ársins 2011 og 2015 fluttu hjónin á Selfoss.

Gunnlaugur lést 19. nóvember og er jarðsettur í dag í Bræðratungu.

Ég verð nú að viðurkenna, að helst minnist ég þess að Gunnlaugur hafi orðið á vegi mínum, eða ég á hans, þar sem hann var að fara í eða koma úr vitjun á Pajero jeppanum, eða þegar við mættum þeim hjónakornum á förnum vegi í heilsbótargöngum síðustu árin þeirra í Laugarási. Ég held að hann hafi ekki verið neitt sérstakt félagsmálatröll, en á móti var hann bara því meiri dýralæknir. Annasamt embættið kallaði á krafta hans og þá var vísast ekki alltaf spurningin um hvort innan væri eða utan dagvinnutíma.  Ætli mér sé ekki óhætt að halda því fram að skilin milli einkalífs og starfs Gunnlaugs hafi verði harla óljós, lengi vel.

Ég sá Gunnlaug alltaf sem fremur hæglátan mann, sem fannst ekkert nauðsynlegt að hafa hátt skoðanir sína á mönnum eða málefnum. Hann gekk af fagmennsku að þeim verkum sem hann þurfti að sinna, vel sjóaður í því sem starf hans snérist um. Enn er brennt í huga mér þegar ég, fyrir einhverjum áratugum, varð vitni að því, af einhverjum ástæðum, þegar Gunnlaugur gelti fola uppi á hæð (Laugarásmál). Þar voru viðhöfð fumlaus vinnubrögð, en á sama tíma, að því er mér virtist, ákveðið kæruleysi og tilfinningaleysi, þá væntanlega þess sem vissi nákvæmlega hvað hann var að gera, enda geldingar líklega eitt algengasta verk dýralæknisins.  Ég var auðvitað sjálfur að sjá svona aðfarir í fyrsta sinn, og engan veginn fær um að líta aðgerðina hlutlausum augum.

mynd frá Kaju
Þó ekki hafi Gunnlaugur verið að kafi í félagsmálum, hér innan sveitar, í það minnsta, að ég held, átti hann það til að sýna á sér  hliðar sem hann bar ekki endilega daglega á borð. Hann var auðvitað mikill húmoristi og tók sjálfan sig ekki of alvarlega og var til í sprell, ekki þar sem fólks hamaðist eða hafði hátt, heldur þar sem lúmskur húmorinn og glettnin fékk að njóta sín. Við fengum, til dæmis, að njóta þessa þáttar í fari Gunnlaugs í skemmtiatriðum á þorrablóti Skálholtssóknar.



Brotthvarf Gunnlaugs af því leiksviði sem lífið er, er enn ein áminningin um að árin líða, Hópurinn á myndinni hér fyrir ofan grisjast smám saman, en þannig er það bara. Við eigum öll okkar tíma á sviðinu, hlutverkin okkar eru af ólíkum toga og við fáum mislangan tíma.

Laugarásbúi hefur kvatt, en sýningin heldur áfram með Renötu, börnum, tengdabörnum og barnabörnum. Þeim óska ég alls hins besta.


Á myndinni Aftari röð f.v. Sigríður Guttormsdóttir, Karital Óskarsdóttir, Georg Franzson, Brynja Ragnarsdóttir, Þóra Júlíusdóttir, Páll M. Skúlason, Elinborg Sigurðardóttir, Jens P. Jóhannsson. Fremri röð: Gunnlaugur Skúlason, Jónína Jónsdóttir, Fríður Pétursdóttir, Matthildur Róbertsdóttir, Guðmundur Ingólfsson. Ballerínurnar eru Jakob Hjaltason og Gústaf Sæland.






Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...