29 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (5)

Ég var svo óheppinn, á þeim tíma sem maður var að öðlast réttindi af ýmsu tagi, að vera fæddur síðast í árinu. Mig minnir nefnilega að það hafi verið tilgreindur fæðingardagur á nafnskírteininu sem ákvarðaði hvort mað komast inn á dansleiki þess tíma sem hér um ræðir. Ég fékk nú ekki að reyna að fara í á svona samkomur fyrr en ég var orðinn fullra 16 ára, frá og með janúarbyrjun 1970. Þá hef ég líklega átt mín fyrstu sveitaballaspor á sumarvertíðinni það ár og næstu 4 ár þar á eftir - minna eftir það.

Ég held að ég hafi nú aðallega farið á böllin í Aratungu þó vissulega hafi ég komið í hin húsin þrjú líka. Árið 1982 (sjá fundargerð í síðustu færslu) var hægt að fara á 19 dansleiki í uppsveitunum frá miðjum maí fram í lok september, þar af voru 6 í Aratungu. Það get ég fullyrt og ekki var ég svo sprækur að  eltast við þá alla 19, en mér finnst ekki ólíklegt að ég hafa farið á 5-6 yfir sumarið og þá ekki alla í Aratungu þar sem ég eyddi sumrunum á þessum árum við að smíða brýr vítt um landið.

Hljómsveitin Mánar, sem var stofnuð 1965, átti sinn blómatíma á sama tíma og sveitaballavirkni mín var mest. Það var nánast guðlast ef aðrar hljómsveitir spiluðu á sveitaböllunum - gerðist reyndar við og við, en það minnir mig að hafi nú ekki verið algengt. Ég ætla nú ekki að fara út í neina greiningu á hvað það var við þessa hljómsveit sem höfðaði til þess markaðar sem þarna var um að ræða, en allavega féll það sem þeir kusu að spila, vel að tónlistarsmekk mínum á þessum tíma. Til marks um það, hve minni mitt er gloppótt, ennþá, þá gat ég ómögulega munað hvaða lag það var sem ölllum Mánaböllum lauk á. Ég var viss um að það hafi verið eitthvað með Jethro Tull, fann ekkert líklegt. Ég fékk lítil viðbrögð við tilmælum um að lesendur gaukuðu að mér upplýsingum um þessa: einn brást við og minnti að þarna hafi verið um að ræða Black Magic Woman með Santana.

Nútímamaðurinn, ég, hélt áfram leit minni og komst á að því að til er fésbókarsíða um Hljómsveitina Mána. Ég varpaði fyrirspurn inn á vegginn þar og viti menn - ég fékk svar: Vangalagið hjá Mánum var July Morning með Uriah Heep


Þá liggur það fyrir. Margt sem Mánar og Uriah Heep hafa á samviskunni. Þetta lag kom út 1971, spurning hvert var vangalagið hjá þeim á undan því?

Ég neita því ekki, að það komu tímabil þar sem ég var búinn að fá alveg nóg af Mánum, alveg eins og margir fengu nóg af Steina Spil, Ómari Ragnarssyni nú eða hverjum þeim sem er yfir og allt um kring, of lengi.

(meira kemur..)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...