28 október, 2011

Síðdegissleggjudómaþátturinn

Einstaka sinnum kemur það fyrir að ég stilli á þátt sem ber nafnið Reykjavík síðdegis og er á útvarpsstöðinni sem kallast Bylgjan. Undanfarin ár hefur þessi þáttur hafist á því að fólki gefst kostur á að hringja þarna inn og lofa eða lasta.


Ég hlustaði áðan, eins og stundum áður.
Bylgjan góðan dag. Vilt þú lofa eða lasta eitthvað, eða einhvern.
Já ég vil lofa lögregluna. Þetta er frábær lögregla sem við eigum.
Já, einmitt. Lögreglan stendur sig við þrátt fyrir að hún hafi ekki úr miklu að moða.
Já þetta eru hörkukallar í lögreglunni - kalla ekki allt ömmu sína.
Það er satt hjá þér. En á einhver að fá lastið frá þér.
Ég vil lasta ríkisstjórnina.
Nú, hversvegna viltu gera það?
Nú vegna þess hvernig hún er að fara með heimilin/fjölskyldurnar í landinu.
Einmitt, þakka þér fyrir það. Já það má sannarlega gera betur. Jæja þá er það næsti. Hvern vilt þú lofa eða lasta?

....þetta samtal er alveg eins og hið  fyrra, utan að síðasta setning viðmælandans er á þessa vegu:
Það á bara að henda þess helvítis drasli út úr kofanum þarna við Austurvöll.

Þarna kom síðan inn ung kona, sem, eins og hinir, lofaði lögregluna, en vildi ekki lasta ríkisstjónina.
Hva....styðurðu ríkisstjórnina?!!! spurði spyrjandinn, hneykslunarrómi.

Það kom á konuna. Henni vafðist tunga umm tönn. 
Eeee...sko...nei, nei. Mér finnst bara að það þurfi ekki að vera alltaf að útvarpa þessari neikvæðni.
Má, þá fólkið ekki segja skoðun sína? Eigum við kannski að banna fólki að lasta ríkisstjórnina.

Þarna spurði spyrjandinn áfram þar til konan hrökklaðist af línunni.

ÞÁ KEM ÉG AÐ TILGANGI MÍNUM MEÐ ÞESSU FJASI.

Ef éf segi við einhvern:
Þú ert nú meira helvítis fíflið.
Er ekki eðlilegt að ég þurfi að rökstyðja það með einhverjum hætti? Til dæmis, svara þessari spurningu:
Hversvegna segir þú það?
Ég get alveg skellt fram einhverri sleggju:
Það vita það nú allir!
Hvað áttu við?
Nú bara allir.
Hvaða allir?

...... svona getur spyrjandinn haldið áfram að spyrja þar til í ljós kemur hvort þarna er um vel ígrundaða skoðun að ræða, eða bara hreina sleggjudóma.


Hversvegna héldu spyrjendurnir ekki áfram að spyrja í dag, nema þegar konan kvartaði yfir neikvæðninni?


Mig langar að fá, til dæmis, svona framhald af þessum fyrstu viðmælendum:
Nú vegna þess hvernig hún er að fara með heimilin/fjölskyldurnar í landinu!
Hvernig er hún að fara með heimilin?
Nú, það eru allir að missa íbúðirnar sínar. 
Allir? Er það rétt?
Jæja þá, margir. Er þetta velferðarstjórnin sem ætlaði að bjarga þessu öllu? 
Ætlaði hún að bjarga öllu?
Já!
Hvaðan hefurðu það?

,..... svona má spyrja, fá fólk til að rökstyðja mál sitt. Kannski hefur það þessi fínu rök  fyrir skoðununm sínum. Kannski eru þetta bara algerir hálfvitar. 


Það væri skemmtilegt verkefni hjá Bylgjunni að gera á því rannsókn úr hvaða þjóðfélagshópum innhringjendur koma.

1 ummæli:

  1. Ég er svo sammála þér að mig verkjar.

    Einu sinni var sagt um mætan mann sem ég vann með "það vita nú allir hvernig hann X er" - Eðli mínu trú spurði ég : "hvernig er hann?" og svarið var:"æ, það er svo margt og hann á svo mörg leyndarmál".
    Enn hélt ég áfram: "eins og hvað?"
    Fékk engin svör, en varð vör við álíka umtal um langt skeið.
    þessi maður sem hér um ræðir hrökklaðist úr starfi á miðju starfsári, eftir langt og vel unnið starf (fannst mér).
    Loks komst ég í aðstöðu til að spyrja einn hæstráðanda sveitarfélagsins þar sem ég var um þetta mál.
    Sá háttráðandi sagði mér að hann hefði grannskoðað embættisfærslu mannsins og hvergi væri neitt athuga- eða ámælisvert. - Og hananú! Býst ekki við að ég gleymi þessu svo glatt þó langt sé um liðið.
    Takk fyrir skrifin;)
    Kvæðalaus hirðkveðill.

    P.S. Þú kannast við þennan brag er það ekki?

    Ætlirð' að svívirða saklausan mann
    þá segð' sldrei beinlínis skammir um hann,
    en láttu það svona í veðrinu vaka
    þú vitir að hann hafi unnið til saka.


    Minnir að þetta sé eftir Pál J. Árdal - en ekki viss; þetta er talsvert lengra. - mér hefur stundum dottið þetta í hug...

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...