29 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum seinna (6)

Margt er horfið í gleymskumistur frá sveitaballatíma mínum í Aratungu - nei, það er ekki vegna þess sem þú heldur - það eru nú liðin um það bil 40 ár síðan!
Hér eru nokkur leiftur, sem ég veit ekki einusinni hvort eru frá nákvæmlega þessum tíma:

- Sætaferðir frá BSÍ. Maður vildi helst vera kominn á ballið áður en rúturnar kæmu úr bænum eða frá Selfossi. Það var miðað við að dansleikir hæfust kl. 21.30 og að þeim lyki kl. 02.00. Fólk kom víða að, enda gafst ekki betra tækifæri fyrir ungt fólk til að koma saman og skemmta sér. Ég veit um marga, vítt um land sem eiga afskaplega ljúfar minningar frá þessum "svallsamkomum" eins og margir vildu nú kalla þetta.

- Löggan var á svæðinu. Viðhorfið til laganna varða var harla misjafnt og talsvert var um að það skærist í odda. Það voru sveitalöggurnar okkar sem komu best út úr þessu - höfðu mannlegri aðferðir við að hjálpa fólki að losna við streitu eða reiði, nú eða ölæðisalgleymi. Bragi á Vatnsleysu og Hárlaugur, heitinn, í Hlíðartúni voru meðal þeirra sem sinntu löggæslustörfum á þessum árum og það vita allir sem þá þekkja, að þar er/var ekki um neina svíðinga að ræða. Það er ekki óliklegt að fleiri sveitungar hafi komi fram í lögguhlutverki, en nánast viss um það.

-Niðri í kjallara í Aratungu var fangaklefi, sem mér þótti afskaplega merkilegur áður en ég hafði aldur til ballferða. Þá þótti mér þessi klefi vera til marks um illsku mannanna. Þarna gat maður séð þornaða blóðbletti  á veggjum. Seinna varð þetta í huganum eitthvað sem nýttist þjónum laga og reglu og þar með almenningi sem staður til að kæla niður einstaklinga sem ekki tókst að hafa taumhald á sjálfum sér.

Ef að kraftur orðsins þver

á andans huldu brautum,
gefa á kjaftinn verðum vér
vorum skuldunautum.
Káinn
- Það gengu af því sögur að slagsmálagengi gerði sér ferð á sveitaböll til að "snapa fæting". Aððallega heyrði ég af, eða varð var við hóp af þessu tagi sem kom frá Selfossi. Það myndaðist stundum núningur milli Selfyssinga annarsvegar og annarra hinsvegar. Þarna voru í fararbroddi miklir slagsmálahundar, sem ég sé stundum enn í dag í virðulegu afahlutverkinu. Mér fannst þeir vera hálf glataðir í þá daga, ekki síst þar sem þeir lágu, alblóðugir í rifnum fatalörfum fyrir hunda og manna fótum.




- Það losnaði sannarlega um ýmsar hömlur á sveitaböllum, svo sem eins og á öðrum samkomum af svipuðum toga fyrr og nú, hér og þar. Maðurinn er alltaf samur við sig. Þegar ég tala um að losna við hömlur, þá var ekki bara um að ræða hömlur sem leiddu af sér barsmíðar, heldur hjálpuðu aðstæðurnar ekki síður við að lyfta loki feimninnar, sem víða var nóg af, og sýna þannig hvað raunverulega bjó undir (meðan enn var ekki komið of mikið í belginn af göróttum drykkjum).





- Eftir á að hyggja finnst mér að það megi segja margt gott um sveitaböllin:

  • þau auðvelduðu mörgum leitina að framtíðar maka.
  • þau voru vettvangur fyrir ung fólk til að hittast og kynnast því nýjasta sem var í gangi 
  • þau auðvelduðu að mörgu leyti skrefin sem hver einstaklingur þarf á einhverjum tímapunkti að stíga úr bernskunni yfir í heim fullorðins fólks.
  • tilvera þeirra varð til að efla íslenska tónlistarmenn.
  • þau sköpuðu tekjur inn í sveitirnar.
Ætli það hafi ekki verið þegar félagsheimilin fengu vínveitingaleyfi sem sveitaböllin fóru smám saman að renna sitt skeið.

(enn og aftur get ég bölsótast yfir þeirri vitleysu að hækka lögræðisaldur í 18 ár og gera með þeim hætti fullorðið fólk að börnum fram eftir öllu).

(þá er bara eftir einn þáttur)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...