30 október, 2011

Aratunga, fimmtíu árum síðar (7) - lokaþáttur

Já, ætli fari nú ekki að koma nóg af þessu. Það var dálítið Aratunguhlé hjá mér frá 1975-9, en þá kom ég aftur og hóf störf við Reykholtsskóla, sem þá hét svo. Þar fengum við fD, með tvo unga syni, nýbyggt einbýlishús til afnota, sem einmitt stóð í næsta nágrenni við Aratungu - ætli það heiti ekki Miðholt 3. 
Ég var ekki lengur sá sem skellti mér á sveitaball, heldur kom ég nú í auknum mæli að þessum samkomum sem starfsmaður, enda sogðist ég fljótlega inn í starf ungmennafélagsins.
Þarna fékk ég að líta skemmtanalífið frá talsvert öðrum sjónarhóli, og þar var auðvitað margt gott og vont, eins og gengur. Auk þess var ég í þannig starfi að ekki þótti gott að vera of áberandi í skemmtanalífinu. Ég lærði það smám saman. 
Það er eins og mig minni að þegar þarna var komið hafi lögreglan ekki komið lengur að gæslunni, heldur hafi húsið sjálft útvegað fólk í þetta. Þetta ver ekki síst vegna þess hver dýrt var orðið að fá lögregluna.
Í gula húsinu þar sem við bjuggum urðum við nú ekkert sérlega mikið vör við sveitaböllin fyrir utan  bassadrunurnar  - dúmm, dúmm, dúmm - og síðan ef maður leit út á bjartri sumarnótt og leit ungt fólk  vera að dunda sér (það var gerður íslenskur texti við þetta lag, sem lýsir því hvað þarna fór stundum fram:)) á bak við kartöflukofann sem stóð við heimreiðina að skólastjórabústaðnum. 
Þetta var allt ágætt, en nú verð ég að fara setja punktinn á eftir þessari yfirreið hugans um sögu Aratungu - brot af sögu Aratungu, enda farinn að eyða allt of miklum tíma í þetta. Mörgu hef ég eðlilega ekki gert skil, enda er þetta vettvangur þar sem ég ræð nákvæmlega hvað ég skrifa og hvernig. 
Jafnóðum og ég hef verið að slá þetta inn hafa komið ný tilvik upp í hugann, sem ekki eru gerð skil hér, og mér er sagt að eftir því sem tímar líða muni opnast enn frekar fyrir þetta allt saman.

Í lokin nefni ég dæmi um ýmislegt það sem ónefnt er:


  • leiklistarstarfið
  • árshátíðir og þorrablót
  • kjúklingauppreisnina
  • foreldrabyrðina
  • minni fyrrverandi nemenda
  • afsagaðan fingur
...þetta voru bara nokkur dæmi.

Hlutverk Aratungu er mjög breytt frá því var í upphafi:
Það vita auðvitað allir að sveitaböllin eru horfin og koma varla til baka, og menn geta deilt um hvernig þróun það er.  Enn eru haldnar árshátíðir og réttaball, barnaball á jólum og þorrablót og eitthvað fleira svona fast, auk funda og annars slíks. Þá er skólmötuneytið þarna senn sem fyrr, en þar er heldur betur vel mannað í eldamennskunni nú um stundir. 
Þar sem áður var símstöð og íbúð húsvarðar, eru nú skrifstofur sveitarfélagsins, þar sem áður var þykkt rautt teppi í anddyrirnu, eru komna gráleitar flísar, þar sem áður var sjoppan, þar sem maður pantaði í gegnum gat á glervegg, svona eins og í bönkum, þar er komið salerni fyrir fatlaða, þar sem áður var ölsalan (öl og gosdrykkir var ekki selt á sama stað og sælgætið) er nú uppþvottavél.

Allt þróast og breytist þar  með talið svona félagsheimili til sveita. Það eru ýmsir möguleikar í þessu húsi sjálfsagt. Vandinn er að finna þá starfsemi sem gefur það af sér sem til þarf til viðhalds og endurbóta.

Þar með segi ég þetta gott.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...