02 júní, 2020

Aldarminning 3 (2)

Framhald af Aldarminning 3 (1)
Æska og unglingsár
Ég tók mig nú til og leitaði í kirkjubækur til að átta mig á hvernig leið tengdamóður minnar lá þar til hún hleypti heimdraganum og hélt suður á bóginn.  Hún var fædd í Fljótunum þann 3. júní, 1920, en fjölskyldan er skráð til heimilis á Eyrargötu 14 á Siglufirði í desember það ár. Í næstu skráningu sem ég fann fjölskylduna þá bjó hún í Einarshúsi á Sauðárkróki frá 1925 til 1927 og síðan í nýju húsi sem bar nafnið Hestur í þeim bæ til í það minnsta 1938. Bubba fór hinsvegar suður 1937 og var þá skráð til heimilis á Leifsgötu 13.
 

Ekki ætla ég að þykjast vita hvaða ástæður lágu að baki því að hún flutti suður, sautján ára gömul, en reikna með að það hafi tengst vinnu af einhverju tagi.

Borgarstúlkan  

Hún var í Reykjavík þegar stríðið skall á í Evrópu, svo mikið veit ég. Hagaði lífi sínu þar, væntanlega ekki ósvipað því sem ungt fólk gerði. Af þessu fer ekki sögum, í það minnsta eru þær fjarri því að vera til í mínu höfði. Ég legg ekki í að leita í kirkjubókum Reykavíkurprófastsdæmis frá þessum tíma 
Það fer hinsvegar ekkert á milli mála þegar börn fæðast, því það er skráð í bak og fyrir  og þannig var það að Bubba eignaðist dóttur í júlí, 1942, sem hlaut nafnið Pálína. Ekki geri ég ráð fyrir að það hafi reynst henni auðvelt, frekar en öðrum konum á þeim tíma, að ala barn utan hjónabands, en hvað veit ég svo sem um það? 

Hjónaband og börn
Með tveggja ára dóttur sína gekk hún að eiga framtíðar eiginmanninn Þorvald Runólfsson, í júni, nokkrum dögum áður en lýðveldi var stofnað á Íslandi. Hann gekk dóttur Bubbu í föður stað og þau héldu saman inn í framtíðina, sem ekki reyndist nú verð alveg áfallalaus.
Eins og gengur og gerist í lífinu, fylgdi það hjónabandi þeirra Bubbu og Valda, að skella sér í barneignir. Fyrsta barn þeirra, sem var stúlka, fæddist 28. júlí, 1946. Hún lést sama dag.
Annað barn þeirra, drengur, fæddist 28. mars, 1948. Hann lést fjórum dögum síðar, þann 8. mars.
Þessi fáu orð sem ég nota hér til að skrá þetta, tjá auðvitað ekki þá miklu sorg sem missir barnanna hlýtur að hafa verið.
Þriðja barnið eignuðust hjónin síðan í nóvember, 1952, dótturina Sóley Stefaníu, það fjórða í september, 1954, dótturina Auði og loks örverpið, sem leit dagsljósið í ágúst, 1956, dóttur sem hlaut nafnið Dröfn.
Þegar þarna var komið, voru þau flutt í húsið sem þau byggðu við Álfhólsveg 17 í Kópavogi, en það gerðu þau árið 1947. 

Erfiður tími enn
Undir lok sjöunda áratugsins (er mér sagt, en tíminn er ekki alveg á hreinu) fór Valdi að kenna sér alvarlegs meins, sem leiddi til þess að að þurfti að dvelja alllengi í Danmörku til lækninga. Þar með kom það í hlut Bubbu að ala önn fyrir dætrum sínum, þrem ungum og einni sem nálgaðist tvítugt. Ekki var um annað að ræða fyrir hana en að finna sér starf utan heimilis, auk þess að sjá um allt sem að laut að heimilisrekstrinum.  Ég fjölyrði ekkert um þetta, enda veit ég fátt og helsta heimild mín harla fáfróð líka, þó svo hún hafi nú tilheyrt dætrahópnum.
Valdi komst yfir veikindin, kom heim og tók til við að aka sendibíla, sem hann gerði æ síðan. Bubba sótti áfram vinnu sína í verslun sem kallaðist eða hét Kópur og stóð þar sem Víghólastígur og Brattabrekka mætast.

Þá rann upp minn tími

..... og....., jæja, ætli ég geymi það ekki um stund.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...