27 júní, 2018

Eins og Gordon Banks


Það æxlaðist þannig, mögulega vegna þess að ég hafði það ekki í mér að eltast við boltann um allan völl, eða verjast eða prjóna mig í gegnum varnir andstæðinganna, að ég fór að standa í marki hjá knattsoyrnuliði Ungmennafélags Biskupstungna einhverntíma í kringum 1970. Þarna var auðvitað um að ræða gullaldarlið þessa félags, eins og segja má um önnur lið félagsins sem ég var hluti af. Við æfðum eitthvað og svo kepptum við. Ég minnist þess að ég var frekar feginn að þurfa ekki að standa í þessum endalausu hlaupum, heldur fékk að einbeita mér að markvörslunni.
Sannarlega held ég því fram að fáir markvarða keppinauta okkar hafi verið magnaðri en ég. Þannig bara var þetta. Við kepptum víða í uppsveitunum og unnum glæsta sigra og niðurdrepandi töp, en um það snérist þetta auðvitað ekki.  Keppnin sjálf var aðalatriðið, að taka þátt, finna spennuna, renna sér eftir þeim tilfinningarússíbana sem einn knattspynuleikur geymir.

Ég er auðvitað ekki að ýkja þegar ég fjalla um glæsta sögu mína sem markmanns hjá Umf. Bisk. Um það get ég vitnað og þeir sem þykjast vita betur eru nú farnir að eldast talsvert og muna ekki, svo á sé byggjandi, hvernig þetta var. Þar með stendur það sem ég segi. 
Það er ekki eins og það hafi verið 50 myndavélar sem  gerðu leikjum okkar skil, engir videódómarar sem greindu örlitla snertingu við bolta eða andstæðing, engir milljarðar manna að fylgjast með. Nei, Kódak Instamatic vélarnar voru ekki einusinni notaðar til að skjalfesta undraverða markvörslu mína hvað eftir annað.  Það er leitt, svona eftir á að hyggja. Ég get þó huggað mig við það að í eitt skiptið, þegar ég hafði varið skot sem enginn hefði átt að geta varið, tautaði einn andstæðingurinn: "Bara alveg eins og Gordon Banks!"  
Myndskeiðið sem fylgir hér, sýnir stórfenglegustu markvörslu Banks á ferlinum.

Öll búum við saman í einskonar hringjum. Sá minnsti felur í sér nánasta umhverfi manns, það umhverfi sem skiptir mann mestu máli svona dags daglega. Svo stækka hringirnir sem geyma mann, allt upp í að fela í sér allan alheiminn, langt út fyrir það sem ímyndun okkar nær utan um.

Að vera aðalmarkvörður hjá unglingaliði Ungmennafélags Biskupstungna var heilmikið mál í sjálfu sér, hlutfallslega, í litla heiminum mínum í þá daga. Það sem við erum að upplifa þessa dagana er ekki ósvipað því og ef unglingalið Ungmennafélags Biskupstungna væri að leika á Wembley og standa þar í landsliði Englendinga.

Þátttaka okkar á því sviði sem heimsmeistaramót í knattspyrnu er, er einhvernveginn meira en maður nær að hugsa rökrétt um. Maður reynir að skilja hvað þessir gaurar okkar hafa lagt á sig til að ná þeim árangri sem við höfum orðið vitni að, en því meira sem maður veltir því fyrir sér, því óskiljanlegra verður það.  Þessi upplifun er nánast eins og það hafi opnast gat inn í aðra vídd, einhvern hliðarveruleika, en samt er það ekki svo. 

Sem betur fer virðist svo sem við kunnum að meta framlag piltanna þó svo ekki hafi þeir alveg náð því markmiði sem þeir stefndu að, og/eða sem við stefndum að.  Regnvotur júní sumarið 2018 er að kveðja, en í minningunni verður hans ekki minnst fyrir rigninguna, heldur sem mánaðarins þegar karlalandslið okkar í knattspyrnu var nokkrum sentimetrum frá því á komast í hóp sextán bestu knattspyrnuliða heims. Ekki svo lítið afrek það. 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...