30 júní, 2018

Þegar ég ætlaði bara að bera á pallinn

Ég er nú svona þessi sem reynir að sjá báðar eða allar hliðar á málum áður en ég geng fram á völlinn með stórar yfirlýsingar. Þannig reyni ég yfirleitt að milda niðurstöður fD um það sem henni finnst að betur megi fara í veröldinni.
Lífsskoðun mín er sú, að í langflestum tilvikum er um að ræða ljósa punkta; einhverja þá hlið sem telja má jákvæða. Það getur vel verið að ég trúi ekki á þá punkta, eða að mér finnst að þeir skipti ekki miklu máli, en þeir eru samt yfirleitt þarna og mér finnst að ég þurfi að benda á þá.

Auðvitað eru tilvik þar sem mér tekst ekki að koma auga á neina jákvæða hlið á málum eða mannfólki. Ég reyni samt.

Fyrir fimm til sex vikum hófst aðgerð sem átti að enda með því að pallurinn við húsið yrði nýáborinn og fallegur. Ég var bjartsýnn að vanda, sá fram á nauðsyn þess að vætan styddi við gróðurinn og vatnsbúskapinn og hvaðeina annað sem rigning leiðir af sem og sem telst jákvætt við hana. Ég byggði á áratuga reynslu sem hefur kennt mér, að það skiptast á skin og skúrir, eftir rigningarkafla brýst sólin fram úr skýjunum, sólstólarnir eru dregnir fram, morgunverðurinn snæddur utan dyra við fuglasöng, kynt upp í útiarninum, farið í pottinn.
Þannig hefur þetta verið,

Síðan ég lauk við að háþrýstiþvo pallinn einhverntíma í maí, hefur hann verið þurr samfellt í tvo daga, sem ekki telst nægilega langur þurrktími, að mínu mati.

Sannarlega safnast í miðlunarlónin og við sjáum fram á næga orku í álverin okkar.
Vissulega höfum við ekki þurft að berjast við sinuelda.
Ekki skal lítið gert úr því að gróður jarðar hefur fengið næga vökvun.

Því verður samt ekki á móti mælt að það hefur verið fremur  dimmt yfir; sólarljósið og sú orka sem það felur í sér fyrir land og lýð, hefur verið í lágmarki. Útiræktaða grænmetið er að drukkna, það þarf raflýsingu til að inniræktaða grænmetið nái að vaxa og þroskast.

Hann bætir nú ekki ástandið, hann nafni minn gamli, sem veit lengra en nef hans nær þegar veður er annarsvegar, þegar hann ber okkur þá spá sína að næsta sumar verði gott.

Okkur verður oft hugsað til ættingja fyrir austan og hve góð hugmynd það gæti verið að skjótast þangað.

Á þessum morgni rignir hressilega. Það er ekki búið að setja upp nýju rennurnar, og vatnið gusast upp á veggina. Þrestirnir eru hættir að líta við eplunum.

Þrátt fyrir allt þetta lifi ég í þeirri fullvissu að framundan sé gott sumar þar sem skiptast á skin og skúrir, þar sem hlý golan kyssir kynn, jafnvel fyrir utan Þorpið í skóginum.
Þar sem fuglarnir byrja aftur að syngja.
Þar sem pallurinn fær á sig nýja húð.

Það birtir upp um síðir.


Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...