Skálholt er einn mikilvægasti staðurinn í sögu þjóðarinnar og geymir magnaða sögu um sigra og töp, gleði og sorgir, upprisu og niðurrif, fátækt og ríkidæmi, vald og valdaleysi, misbeitingu og góðverk. Það hefur sjaldan ríkt friður um þennan merka stað og fram á þennan dag hefur verið tekist á um völd, mis opinskátt þó. Það er eitthvað við þessa "þúfu" sem kallar fram í fólki bæði það besta og versta. Það er ekkert öðruvísi með mig. Í mér hafa tekist á mjög andstæð viðhorf til Skálholts, sem ég vil ekki fjölyrða um hér og nú. Það fer þó ekki á milli mála, að Skálholt skiptir þess þjóð miklu máli, ef ekki vegna sögu okkar sem kristinnar þjóðar, þá bara vegna sögunnar, því án hennar værum við ekkert. Svo einfalt er það.
Ég ætla ekki að minnast frekar á mikilvægi Skálholts sem kirkjustaðar eða sögustaðar.
Skálholt geymir þjóðargersemar og stórar gjafir frá vinaþjóðum.
Þessa mánuðina er verið að flytja listglugga Gerðar Helgadóttur til Þýskalands til viðgerðar og lagfæringar. Nú er unnið við að taka niður siðasta skammtinn, og hann mun svo koma með haustskipum til baka til uppsetningar. Þessu verki hefur miðað ótrúlega vel og þeir eru margir sem hafa lagt hönd á plóg við að fjármagna þetta verk og vinna að því í stóru og smáu.
Gluggarnir eru hinsvegar aðeins fyrsta skrefið í þeirri endurreisn sem unnið er að í Skálholti.
Mósaikmynd Nínu Tryggvadóttur yfir altarinu þarfnast viðgerðar, en í hana komu sprungur í Suðurlandsskjálftunum.
Þak kirkjunnar kallar á yfirhalningu, en í votviðri þarf kórinn að sitja með tilteknum hætti til að forðast dropana sem að ofan falla.
Turnþakið er orðið verulega mosavaxið.
Uppi í turni liggur brotin klukka og hefur legið þar í 16 ár.
Kirkjuklukka í Skálholtskirkju féll niður og brotnaði við upphaf hátíðarmessu í lok Skálholtshátíðar um miðjan síðasta sunnudag. Þrír boltar sem héldu klukkunni uppi gáfu sig og heyrðist mikill dynkur þegar klukkan, sem mun vera um 400 kg að þyngd, féll niður á gólf. Hátt á þriðja hundrað kirkjugesta var í kirkjunni og mun þeim hafa brugðið við dynkinn. Sr. Egill Hallgrímsson, sóknarprestur í Skálholti, segir að fall klukkunnar hafi verið innan við tvo metra. Klukkan hafi brotnað í tvennt a.m.k. og segir Guttormur Bjarnason staðarhaldari að þegar hafi verið haft samband við fyrirtæki sem taka að sér að gera við slíkar klukkur og að ljóst sé að gert verði við klukkuna. Hann segir ómögulegt að segja til um viðgerðarkostnað að svo stöddu sem og um virði klukkunnar sjálfrar. Alls voru fimm klukkur í turninum og segir hann að vandi yrði að finna klukku sem hefði sama tón og sú sem brotnaði. Klukkan er úr koparblöndu og segir Egill að hún gæti verið um metri á hæð og eitthvað svipað á breidd. Klukkan er gjöf frá Dönum og stendur ártalið 1960 á henni. Guttormur telur þó að hún sé eldri, segir að gert hafi verið við hana áður en hún kom til Íslands. - mbl 22.07.2002
Tröppurnar upp að kirkjunni eru orðnar illa farnar.
Þetta eru nú bara nokkur atriði sem koma í hugann í fljótu bragði, en það sem átti og á að vera kjarninn í því sem ég er að reyna að koma frá mér er þessi:
Það skiptir engu máli hvaða trú við aðyllumst og hvort við trúum yfirleitt, Skálholt er staður sem þessi þjóð þarf að varðveita í virðingarverðu ástandi. Staðurinn er eitt mikilvægasta táknið um að við erum þjóð meðal þjóða, menningarþjóð sem flytur sögu sína og menningu áfram til komandi kynslóða. Ég neita að trúa því að við séum svo smá í okkur, að okkur takist ekki að horfa framhjá dægurþrasi þegar um er að ræða að bjarga þeim verðmætum sem Skálholt geymir.
Höldum áfram þessu verki.
Lagfæring glugganna er afburðagott skref í þá átt og vísir að öðru og meira.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli