12 júní, 2018

Í rándýrskjafti

Kettir eru rándýr og hluti af náttúrunni, rétt eins og við öll og eiga þar með sama rétt og við til lífs og lífsviðurværis. Þeir eru heimilis/húsdýr víða, bæði sem innikettir og útikettir, eða hvað sem það er kallað.
Sumir kettir teljast villikettir, enda eiga þeir engan samastað í híbýlum manna. Þessari tegund katta tel ég að ætti að halda í skefjum og einhverjir skilst mér (kattavinir) gera átak í því að fanga villiketti til að gelda þá, í augljósum tilgangi.

Þá er ég kominn að tilgangi mínum með þessum vangaveltum.
Í morgun sá ég svartan loðinn kött undir matarborði smávina okkar Kvisthyltinga. Smávininrnir steinþögðu. Kötturinn var rekinn af staðnum með sérstökum kattafæluhljóðum fD.

Bak við borðið lá tætt hræ fullorðins auðnutittlings og þar skammt frá höfuð af öðrum. Mér var nokkuð létt yfir því að þarna var ekki um að ræða hann Bassa, vin minn, en reyndar hefur hann ekki látið sjá sig í nokkra daga og getur því allt eins hafa farið sömu leið.

Ábyrgð? Ber einhver ábyrgð á svona aðstæðum?
Ætli það. Ef maður færi að benda á hina eða þessa eða hitt eða þetta, kæmist maður fljótt að því að þarna er um að ræða hið eðlilegasta fyrirkomulag í náttúrunni.
Við eigum líf okkar undir býflugum. Þannig er hver dýrategund háð annarri og sú eina sem virðist vinna markvisst að því að raska því jafnvægi sem náttúran byggir á er mannskepnan, sem drepur meira og eyðir meiru en hún þarf til að komast af.

Vissulega gætu kattaeigendur haldið köttunum sínum innandyra yfir þann tíma sem ungar eru að komast á legg, eða troðið svo miklu af mat í þá að þeir hefðu enga þörf fyrir ránsdýrseðli sitt.

Vissulega gæti ég dregið þann lærdóm, að fóðrun fugla á þessum tíma sé misráðin, enda geti þeir alveg bjargað sér sjálfir og fóðrunin þar með tilkomin einvörðungu vegna sjálfselsku.

Þó það hafi ekki verið ánægjulegt að fjarlægja fyrverandi gesti mína líflausa frá matarborðinu, þá er það bara eins og það er. 
Punktur.

.............................................

Að öðru, sem gæti mögulega létt lund eftir svo þunglyndislega færslu.

Ég er búinn að flytja myndirnar sem ég hef tekið af fuglalífinu í kringum okkur í Kvistholti og lítillega einnig í nágrenninu upp í skýið, þar sem þú getur, lesandi góður, skoðað þær að vild, sé viljinn og áhuginn fyrir hendi.




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...