08 júní, 2018

Í störukeppni við veiðibjöllu

Hreiðrið. Mjólkurhús og hlaða í baksýn.
Í gamla daga kölluðum við þennan fugl veiðibjöllu en hann mun einnig heita svartbakur og vera stærsta mávategundin hér á landi. (Ég verð leiðréttur ef þetta reynist ekki vera svartbakur, mér finnst bakið reyndar ekki var svart)

Ég fékk, sem sagt, smáskilaboð frá Kirkjuholtsbóndanum sem hljóðuðu svo:

Mótífin eru mögnuð á tjörninni þessa dagana. Fyrir alvöru linsu :)

Þessi tjörn er uppi á túni, ein og sagt er, þar sem við renndum okkur í gamla daga á skíðasleðum og skautum. Ég er ekki alveg viss um hvort hún á eitthvert nafn.

Starað
Ég lét ekki segja mér þetta tvisvar greip græjurnar og kom mér á staðinn í fylgd fD, sem einnig taldi sig geta notað þetta tilefni til daglegrar hreyfingar og útivistar. Á leiðinni á staðinn rákumst við á áðurnefndan bónda, sem gerði nánari grein fyrir því sem um var að ræða. Á miðri tjörninni væri veiðibjalla búin að koma sér upp hreiðri og stundaði þaðan loftárásir á endur sem voguðu sér of nálægt.
Í þann mund er við vorum komin upp Hverabrekku/Helgabrekku og sáum á tjörnina flaug veiðibjallan af hreiðrinu og hvarf upp í himinblámann. Þar með var nánast ekkert líf á tjörninni utan tveir óðinshanar sem syntu í hringi og tíndu upp í sig það sem fyrir bar.

Ég var nú ekki sáttur við að vera kominn alla þessa leið, gangandi, finnandi engin "mótíf". Ákvað þar með að koma mér fyrir og bíða þessa að veiðibjallan sneri til baka. 
Tyllti mér á þúfu á tjarnarbakkanum og beið, en engin veiðibjalla lét sjá sig. Áttaði mig fljótlega á því, að sennilega er sjón veiðibjöllunnar í betri kantinum og því gerði hún sér fulla grein fyrir þeirri breytingu á umhverfinu sem nýja þústin (ég) í grennd við hreiðrið var.

Lent á hreiðri
Eftir korters bið varð það niðurstaða mín að hverfa frá bakkanum og vita hver áhrif það myndi hafa. Í um 50 m fjarlægð sá ég hvar móðirinn (nú eða faðirinn) lækkaði flugið, en ekkert umfram það. Ég gekk svona 25 m í viðbót og þá settist hún á bakkann hinumegin tjarnarinnar. Ég settist og beið. Ég horfði á hana og hún á mig, grafkyrr. 

Gerði mér grein fyrir að þetta myndi ekki leiða að neinni niðurstöðu. Gekk aðra 25 m og það var ekki fyrr en þá loksins, sem hún hóf sig á loft og skellti sér á hreiðrið.  

Þetta allt saman kenndi mér ýmislegt í fuglafræðum. Nú er framundan að panta felutjald frá Alibaba og koma því fyrir þar sem fugla er von, ... eða ekki.

Óðinshani
Ég segi nú ekki alveg satt þegar ég fullyrði að ekkert líf hafi verið þarna. Rétt hjá var grágæs, lóa, spói og stelkur. Ég var hinsvegar að leita eftir einhverri aksjón í fuglaveröld, sem ekki reyndist vera.
Kannski er það best þannig.






Grágæs

Heiðlóa

Stelkur


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...