05 júní, 2018

Ellilífeyrir! - Niðurlægjandi fyrirbæri

Ég hef sagt skilið við almenna atvinnuþátttöku og er farinn að fá greiðslur úr sjóði sem ég hef greitt skilmerkilega í, alla mína starfsævi. Tilgangurinn með því að greiða í þennan sjóð var sá, að ég gæti sótt þangað fé þegar að því kæmi að ég hætti að vinna og færi að njóta annarra lífsins gæða.
Það fé sem ég fæ úr þessum sjóði, er endurgreiðsla til mín á því sem ég lagði til hliðar. Þetta er hluti þeirra launa sem ég vann fyrir. Þetta er þar með mín eign og minn réttur að fá það til baka, eftir að sjóðurinn hefur haft það í sinni vörslu til ávöxtunar. Ég hefði auðvitað getað tekið af tekjum mínum sjálfur, í lok hvers mánaðar og lagt fyrir á einhverjum reikningi, en lög munu kveða á um, að ég verði að greiða í fyrirbæri sem kallast lífeyrissjóður. Þar sem þessir lífeyrissjóðir geyma þetta fé ekki sem séreign hvers einstaklings, fær maður greitt úr honum þar til síðast andvarpinu er náð, hvort sem það gerist fyrr eða síðar.

Greiðslur til mín úr þessum sjóði lít ég á sem eftirlaun. Laun sem ég fær greidd eftir að ég hef hætt störfum. Laun, en ekki lífeyrir.

Þegar ég heyri eða sé orðið "ellilífeyrir" sé ég fyrir mér örvasa gamalmenni í torfbæ sem tórir bara vegna þess að hreppurinn hendir í hann lífeyri: eyri sem dugir til þess að hann haldist á lífi - nokkurskonar framfærslustyrk. Tólgarkerti logar við rúmstokkinn og í það er hent við og við trosi eða flís af sauðaketi.

Já, ég get ekki sætt mig við að það fé sem ég vann fyrir, hörðum höndum, skuli nú vera farið að berast mér sem ELLILÍFEYRIR.  Þetta er enginn fjárans lífeyrir, fyrir utan það, auðvitað, að ellin er bara hreinlega ekki sest að í mér.

Fólk sem hefur greitt í þessa svokölluðu lífeyrissjóði alla starfsævina, á það fé sem þangað var greitt. Það fé var hluti að þeim launum sem það fékk fyrir vinnuna. Það sem það fær síðan til baka er ekki neitt sem kalla má lífeyri, eða ellilífeyri, heldur:

EFTIRLAUN.

Sjóðirnir eiga að kallast EFTIRLAUNASJÓÐIR og ég telst EFTIRLAUNAMAÐUR en ekki ELLILÍFEYRISÞEGI, eins og ég sé að þiggja eitthvað frá samfélaginu, vegna gæsku þess í minn garð.
Það bara er ekki þannig.

Mörgum orðum í íslensku hefur verið skipt út fyrir önnur vegna þess að þau fengu á sig aðra merkingu í daglegu tala (yfirleitt neikvæða), en þau höfðu upphaflega.

Orðið "ellilífeyrir" er orð af þessum toga og á að taka af dagskrá, sem allra fyrst.

Út með það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...