30 maí, 2018

Siggi á Baugsstöðum níræður

Elsta myndin af piltinum
Það eru nú ekkert mörg ár síðan ég var í sveit á Baugsstöðum. Reyndar fer það eftir því hvaða mælikvarði er notaður, en það hefur líklega verið um miðjan sjöunda áratug tuttugustu aldar.
Síðan eru víst liðin ríflega 50 ár.
Þá hefur Siggi verið farinn að nálgast fertugt og rak Baugsstaðabúið ásamt Geira og Unu, afa og ömmu.
Í dag er Siggi orðinn níræður, og hann býr enn á Baugsstöðum.

Þessar sumardvalir á Baugsstöðum skilja eftir sig minningaleiftur, frekar en eitthvað í  samhengi.
Það fyrsta sem kemur í hugann er koks og aska. Koksið var notað til húshitunar og reglulega þurfti að fara með öskuna og henda henni niður fyrir bakka.


Siðan kemur í hugann heyskapur - leiðindin sem fólust í því að raka í kringum sátur,
Fermingardrengurinn
spennan og lífshættan sem fylgdi því að fá að keyra Farmalinn næstum í veg fyrir bíl og að veltast í heyi á palli Flaugarinnar, sem flutti hvert hlassið á fætur öðru heim í hlöðu þar sem það var dregið af með stórmerkilegri aðferð.
Þá kallar hugurinn fram er gult olíubrilljantín sem fékkst hjá Möggu og Gunnu í Rjómabúinu og flórmokstur, þar sem beljurnar héldu stöðugt áfram að framleiða verkefni, amma sem alltaf kom út í dyr þegar Hveratúnsfólkið bara að garði, lyfti upp handleggjunum með orðunum "Blessað góða fólkið mitt". 
Svo var það kindabyssan í skápnum á ganginum í gamla bænum, líklega fyrsta byssa sem ég sá "live".
Það var auðvitað margt bardúsað annað með frændsystkinunum og án, eins og gengur.
Siggi hafði umsjón með vitanum og ferðirnar
þangað fólu í sér talsverð ævintýri, hann var líklega það hæsta sem ég komst frá jörðu þangað til ég fór í flugvél í fyrsta sinn, endalaust útsýni, enda Flóinn ekki verulega fjöllóttur.

Sigurður Pálsson fæddist þann 30. maí, 1928, yngstur fjögurra systkina. Elst var Guðný (1920-1992), næst Elín Ásta (1922-1933) og þriðji Siggeir (1925-2001).

Töffarinn
Samskiptin við Sigga voru auðvitað mest á þeim tíma sem ég var í sveit á Baugsstöðum. Að fara í sveit þýddi að fara á bæ þar sem stundaður varð hefðbundinn búskapur, með heyskap og öllu tilheyrandi. Annað taldist ekki sveit. Vegna þess að ég var formlega í sveit hjá ömmu og afa í gamla bænum og þar bjó Siggi einnig. Hæglátur risi í mínum huga, sem ekkert fékk haggað. Loftsstaðahendurnar og reyndar vaxtarlagið allt ótvírætt vitni um krafta í kögglum.  Krafta sem einvörðungu var beitt við vinnuna, en aldrei misbeitt.








Á besta aldri
Þegar ég óx síðan upp úr að fara í sveit urðu samskiptin vissulega strjálli, en móðir mín var nú talsvert dugleg að fara með okkur í heimsókn og alltaf var nú jafn gaman að heyra kveðjuna: "Blessað góða fólkið mitt", jafnvel þótt táningsárin breyttu sýn á ýmislegt. Svo var boddíinu stundum skellt á pallinn á Flauginni og haldið í sameiginlegar ferðir um Suðurland, sem þó óljósar séu í minningunni, voru ævintýri út af fyrir sig.
Tvisvar, í það minnsta man ég eftir ferðum með foreldrum mínum, austur á land þar sem Siggi var einnig með. Í annarri var meðal annars kíkt í heimsókn að Stóruvöllum í Bárðardal, en þaðan var Páll afi ættaður. Eftirminnileg heimsókn.

Nú er Siggi einn eftir þeirra sem kalla fram minningar um löngu liðinn tíma og að koma á Baugsstaði, í gamla bæinn er eins og að ferðast í tímavél hálfa öld aftur í tímann, klukkan á veggnum, panellinn, lyktin.  Þarna býr Siggi, og gegnir hlutverki akkeris sem minnir okkur á hvaðan við komum, barmafullur af fróðleik sem mikilvægt væri að koma böndum á og flytja áfram. Bara ef hann myndi nú skrifa eitthvað af þessu niður.

Í gær var Sigga haldið ágætt kaffisamsæti, ef svo má segja, á Sólveigastöðum. Karlinn er alltaf eins og það er ekki fyrr en maður skoðar eldri myndir að í ljós kemur að hann er alveg á eðlilegu róli. Sannarlega eru Loftsstaðahendurnar þarna enn, en þó eitthvað séu liðirnar farnir að stirðna er ekki það sama að segja um  höfuðið sem er alveg með hlutina á tæru. Hann lýsti meðal annars óánægju sinni með á Ásta á Grund hefði misst meirihlutann í kosningunum. Þá var hann áfram um að koma því á framfæri að nú væri það sannað, að Flóamenn væru vitrastir manna á Íslandi, með Hannes Stefánsson, frænda, fremstan í flokki.

Níræður með Ástu




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...